Laugarásjörðin 1953-1973

Laugarásjörðin 1953-1973

Á þessu tuttugu ára tímabil átti sér stað mjög hröð þróun í Laugarási. Það má segja að tvennt hafi aðallega komið til: garðyrkjulóðir í Hveragerði voru uppurnar og það kom ný brú yfir Hvítá. Ég held að þennan tíma megi telja einna merkilegastan í sögu Þorpsins í skóginum. Ungt fólk streymdi á staðinn og börnin fæddust og uxu úr grasi, hvert af öðru. Oddvitanefndin hafði í nógu að snúast og svo var komið undir lok tímabilsins, að stjórnsýslan í kringum þetta allt saman var að verða ansi flókin. Ætli stærsti einstaki atburðurinn hafi ekki verið á að undir lok þessa tímabils lagðist hefðbundinn búskapur af og atvinna á staðnum einskorðast við ylrækt og heilbrigðisþjónustu.
Ég er nú búinn að taka saman það sem segir um þessi mál og fleiri, í fundargerðum oddvitanefndar laugaráshéraðs frá þessum árum.

Laugarásjörðin 1953-1973

Hitaveitan 1980-2002 og viðtal við veitustjórann

Hitaveitan 1980-2002 og viðtal við veitustjórann

Ætli megi ekki fullyrða, að án jarðhitans hefði Þorpið í skóginum aldrei orðið að því sem varð. Lengi vel var jarðhitinn ekki til mikils gagns, svo sem, nema til þvotta eða baða. Hann þótti jafnvel að sumu leyti til óþurftar, enda varð hann stundum búfénaði að aldurtila.

Nýting hveranna til húshitunar hófst með því fyrsti læknisbústaðurinn í Laugarási var hitaður upp og síðan hófst nýting til ræktunar í gróðurhúsum árið 1940 og eftir það varð ekki aftur snúið. Árið 1964 tók Hitaveita Laugaráss til starfa.

Nú tel ég mig vera búinn að ná nokkurveginn utan um nýtingu jarðhitans í gegnum síðustu öld, í það minnsta og opna því fyrir það efni sem að þessu lýtur.

Tveir kaflar um nýtingu jarðhitans hafa þegar verið birtir:

Nýting jarðhitans í Laugarási og Hitaveitan í Laugarási frá 1964 til 1980.

Nú bætist tvennt við:

Hitaveita Laugaráss 1980-2002

Samantekt, sem byggir á því sem skráð hefur verið í fundargerðabækur, og

„Þetta er náttúrulega orðið mitt ævistarf, þessi ósköp.“

sem er viðtal við Benedikt Skúlason, sem starfaði við Hitaveitu Laugaráss, sem gæslumaður og síðar veitustjóri, frá árinu 1980 og þar til veitan varð hluti af Biskupstungnaveitu árið 2002.

Vesturstöpull Hvítárbrúar

Vesturstöpull Hvítárbrúar

Í dag er síðasti vetrardagur og ekki seinna vænna að koma frá einu verkefna vetrarins, en það er að stofni til viðtal við höfðingja að nafni Sigurður Sigurdórsson, sem fæddist í Götu í Hrunamannahreppi árið 1933 og fór síðan sína leið í gegnum lífið, þar sem hann enn brunar áfram með bæði húsbíl og fellihýsi. Ég hitti hann fyrst þegar brúarljósin voru tendruð í lok október s.l. og í framhaldinu settumst við niður heima hjá honum. þar sem hann sagði mér frá sumrinu 1953, þegar hann starfaði við að hefja byggingu brúarinnar yfir Hvítá hjá Iðu.

Nú þykist ég vera kominn með þetta verk á þann stað að óhætt sé að opna fyrir það í þessum vef. Sem fyrr vil ég gjarnan fá ábendingar um það sem réttara kann að reynast, ekki síst um allt fólkið sem kemur við sögu.

Það er ekkert víst að umfjöllun um þetta upphaf brúarsmíðinnar ljúki með þessu þar sem ég hef fengið vísbendinu um að minnsta kosti einn hressan karl til viðbótar, sem mun búa yfir sérlega góðu minni - hver veit?

Þetta er slóðin á þennan þátt.

Hitaveitan 1964-1981

Hitaveitan  1964-1981

Þá held ég að ég sé búinn að gera sögu Hitaveitu Laugaráss nokkur skil, frá upphafsárum veitunnar, til þess tíma þegar Biskupstungnareppur tók hana að sér, eða fékk hana í fangið. Þessi ár voru ansi átakamikil á köflum og heilmiklar tilfinningar í spilinu. Ég hef reynt að að fara eins fínt og mér hefur verið unnt um ýmislegt sem átti sér stað, en áhugasamir lesendur verða bara að reyna að lesa á milli línanna.

Áttundi áratugurinn og fram á þann níunda voru mikil verðbólguár, sem bættist ofan á ýmsa byrjunarerfiðleika sem við var að fást. Hitaveita, þar sem öruggur rekstur skipti sköpum fyrir lífsafkomu stórs hluta notenda, gat ekki orðið annað en tilfinningamál. Hvað ef rafmagnið fer, eða ljósavélin bilar um miðjan janúar í hörkugaddi?

Já, þetta voru áhugaverðir tímar.

Hitaveita Laugaráss 1964-1981

Hitaveita Laugaráss

Hitaveita Laugaráss

Jarðhitinn er grundvöllur byggðar í Laugarási og fáum blandast sennilega hugur um það. Jarhitinn og hagnýting hans hlýtur því að vera einn stærsti þátturinn í umfjöllun um Þorpið í skóginum og mögulega einn sá vandmeðfarnasti, því allir höfðu skoðun á hitaveitunni. Hún var oft sannkallað hitamál.

Samantektin byggir á fundargerðum oddvitanefndar, stjórna hitaveitunnar, Hagsmunafélags Laugaráss og hreppsnefndar Biskupstungnahrepps.

Ég hef kosið að skipta umfjöllun um veituna í þrennt:

  1. Tímann áður en hitaveita var stofnuð formlega árið 1964.

  2. Tímann frá stofnun veitunnar, þar til Biskupstungnahreppur tók við rekstri hennar um 1980.

  3. Tímann frá þvi um 1980 og eins langt og gögn leyfa.

Nú hef ég opnað fyrir aðgang að fyrsta hlutanum.

Að skipta á heitu vatni og köldu.

Að skipta á heitu vatni og köldu.

Laugarásbúar fengu kalt vatn frá Iðu frá 1964 og allt þar til Vatnsveitufélaginu var slitið og Biskupstungnahreppur tók alfarið við öflun og dreifingu á köldu vatni. Það er víst ekki ofsagt að það gekk talsvert á varðandi kalda vatnið frá Iðu og heita vatnið til baka.

Þar sem ég ég hef ekki komist enn yfir fundagerðabækur stjórnar hitaveitu Laugaráss, eftir að hitaveitan fékk sjálfstæða stjórn, veit ég ekki nákvæmlega hvort á endanum urðu einhverjar lyktir þeirra deilumála sem þarna voru uppi.

Þessar deilur eru ekki lengur fyrir hendi, enda margt orðið breytt. Ég er nú búinn að taka saman það sem ég hef fundið um þessar deilur í gjörðabókum oddvitanefndarinnar, Vatnsveitufélags Laugaráss og Biskupstungnahrepps.

Samantektin: Kalt vatn í skiptum fyrir heitt - Iðumál

Hvað fékkst oddvitanefndin við?

Hvað fékkst oddvitanefndin við?

Oddvitanefndin, eða stjórnarnefndin, nú eða Laugarásnefndin var stjórnin sem hélt utan um málefni Laugaráss í umboði hreppanna sem keyptu jörðina Laugarás árið 1922. Nú hef ég opnað að nokkurskonar yfirlit yfisr störf nefndarinnar, en um einstaka þætti er fjallað með ítarlegri hætti í sérstökum köflum á þessum vef..

Yfirlitið er að finna HÉR.

Vonandi er hér að finna myndir af öllum oddvitunum, en ef einhver hefur gleymst fæ ég að vita af því.

Spurningar

Spurningar

Mér er það ljóst að sýslumannsembættið á Suðurlandi geymir tilteknar staðreyndir varðandi húsin í Laugarási. Ég á að geta aflað mér þar upplýsinga um eigendur hverju sinni. Það sem þar er að finna, er hinsvegar bara beinagrindin, en það vantar “kjötið”.
Mig langar að reyna að fá sem mest kjöt á beinin, til þess að upplýsingarnar sem vefurinn geymir verði sem “safaríkastar”. Það er í því skyni sem ég ber hér fram þá ósk, að núverandi Laugarásbúar, sem þetta sjá, deili með vefnum þeim upplýsingum um sig og sitt, sem þeir treysta sér til. Þetta á við um fyrrum Laugarásbúa.

Þetta er hægt að gera með ýmsu móti:
Til dæmis er netfangið mitt: pallsku gmail.com, síminn minn er 8989152 og svo er hægt að nálgast mig í gegnum facebook.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir, að fólk er misjafnlega tilbúið að greina frá högum sínum og virði það. Markmið mitt með vefnum laugaras.is er að safna saman efni sem snýst, ekki síst, um fólk, ekki bara staðreyndir úr opinberum gögnum, eða skjalasöfnum.

Ef einhver ykkar sem þetta á við um, skyldu luma á sögum úr Laugarási, nú eða í fortíðinni, eru þær harla velkomnar, en þær þurfa að vera þess eðlis að geta megi sendandans.

Fullur vonar, bíð ég jákvæðra viðbragða. :)

Líf á símstöð

Líf á símstöð

Það er með þetta, eins og margt annað. Ég ætlaði mér að gera lítillega grein fyrir því, hvernig símamálin þróuðust í Laugarási. Eitt leiddi af öðru og svo fór að ég settist niður með Garðari og Stennu, sem sáu um símstöðina í Aratungu frá því hún var flutt þangað 1961 og til ársins 1975. Þarna reynist vera um einkar áhugaverða sögu að ræða, sérstaklega fyrir fólk sem ekki man hvernig símamálum var háttað fyrir tíma Samsung Galaxy eða IPhone.

Á þessum degi, þegar 45 ár eru liðin frá því við frú Dröfn gengum í hjónaband í Skálholtsdómkirkju og elsti sonurinn var skírður, finnst mér við hæfi að opna aðgang að spjalli mínu við símstöðvarstjórana, en inn í það hef ég blandað heimildum annarsstaðar frá.

Síminn í Biskupstungum

Styrkur oddvitanefndar

Styrkur oddvitanefndar

Þegar ég hóf vinnu við þetta verkefni fyrir 10 árum, gerði ég mér ekki grein fyrir hvar það myndi enda, eða hve langan tíma það kynni að taka. Fljótlega varð mér ljóst, að Laugarás væri flóknara fyrirbæri en svo, að hægt væri að afgreiða það með því að fjalla bara um húsin og íbúana, eins og upphafleg áætlun hljóðaði upp á.
Til þess að reyna að átta mig á hvort ég væri hugsanlega að gera eitthvað sem skipti máli, sótti ég um styrki hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem sá ástæðu til að verða við umsóknum frá mér og það efldi mig í því að halda áfram ótrauður.

Knútur Kristinsson - héraðslæknir 1947-1955

Knútur Kristinsson - héraðslæknir 1947-1955

“Ég leit aldrei á mig sem mikinn lækni, og hafði minnimáttarkennd ef ég stóð andspænis verkefnum sem ég taldi mig ekki færan um að leysa. Hins vegar tókst mér, þrátt fyrir þetta, að koma mér vel við fólkið, og vinna mér nokkra tiltrú þess.” ( Leifturmyndir frá læknadögum, 1970)

Knútur Kristinsson var læknir í Laugarási þegar ég kom til skjalanna og fór að gera mig gildandi meðal íbúanna. Hann var þá farinn að nálgast sextugt.

Knútur var síðasti læknirinn í Laugarási sem þurfti, allan sinn starfstíma, að treysta á Iðuferju og Auðsholtsferju til að fara í vitjanir til íbúanna fyrir austan/sunnan á.

Starfsfólk - lyf -búnaður

Starfsfólk - lyf -búnaður

Það er stund milli stríða. og ég opna fyrir aðgang á þrjá kafla:
Starfsfólk læknastöðvarinnar/heilsugæslustöðvarinnar gegnum tíðina, annað en læknar.
Sala á lyfjum fram til þess tíma þegar núverandi keðja tók hana að sér.
Búnaður stöðvarinnar og þá sérstaklega tækjakostur. Þarna tilgreini ég þær gjafir sem samtök, félög eða stofnanir hafa látið af hendi rakna.
Upplýsingarnar sem byggt er á við þessa þætti eiga, að langstærstum hluta, uppruna í fundargerðum heilsugæslustöðvarinnar og oddvitanefndarinnar. Það er vel líklegt, að þar hafi ekki verið getið alls, sem þörf væri að telja fram, eða gera grein fyrir og sannarlega væri mér þægð í því að fá sendar frekari upplýsingar og leiðréttingar.

Þessa kafla er að finna undir flipanum sem ber heitið læknishéraðið.

Þetta með símann .....

Þetta með símann .....

Nú er farið að styttast í konudag og blómabændur flytja bílfarma á sölustaði, svo fylgir bolludagur með öllum rjómabollunum og fiskbollunum og kjötbollunum, en sennilega ekki lengur með árissulum börnum sem ráðast inn í herbergi til fólks, hrópandi “BOLLA, BOLLA!”.
Bolludeginum fylgir síðan auðvitað sprengidagur, þegar fólk hámar í sig saltkjöt og baunir og strax í kjölfar hans öskudagur, þar sem sú tíð, að saumaðir voru litlir pokar, í þá sett aska og festur spotti með beygðum títuprjóni og börnin gerðu sér til gamans að hengja pokana aftan á grunlaust fólk. Stundum gekk fólk um með marga poka afan á sér, í ýmsum litum.

Siðirnir sem hér hafa verið nefndir hafa í sumum tilfellum tekið grundvallarbreytingum, alveg eins og líf fólks breyttist á tuttugustu öldinni með tilkomu og þróun símtækninnar.

Mér þykir við hæfi, í aðdraganda konudags og hinna þriggja daganna, að opna fyrir samantekt á því, hvernig síminn kom í uppsveitirnar og sérstaklega hvernig þróunin var síðan á læknissetrinu/læknamiðstöðinni/heilsugæslustöðinni.

Flutningur ræddur

Flutningur ræddur

Þegar fyrir lá að Skúli Árnason, læknir í Skálholti segði embætti sínu lausu, þurftu hrepparnir sem að Grímsneshéraði stóðu, að finna stað fyrir nýjan lækni, enda ætlaði Skúli að búa áfram í Skálholti um hríð.

Á þessum degi er boðuð létting á takmörkunum vegna veiruskrattans og boðuð endalok tveggja ára baráttu við hana. Á þessum degi er einnig dagurinn sem það kemur í ljós hvort íslenska handknattleikslandsliðið tryggir sér sæti á heimsmeistaramótinu að ári.

Þetta er góður dagur til að opna að enn einn þáttinn um læknishéraðið, en hann kallast Nýtt læknissetur.

Þekkileg þorrabyrjun

Þekkileg þorrabyrjun

Ekki finnst mér leiðinlegt að opna, á bóndadegi, aðgang að þeim þætti í sögu læknishéraðsins, sem fjallar um flutning læknissetursins frá Laugarásholti á Launréttarholt og þá uppbyggingu sem þar átti sér stað. Þetta tímabil nær yfir næstum 40 ár, eða frá 1959 til 1997.

Hér er um að ræða tvo þætti: annarsvegar þátt sem nefnist Á Launréttarholti, en hinsvegar þátt sem ber heitið Byggingarsaga heilsugæslustöðvar. Að stærstum hluta byggir fyrrnefndi þátturinn á fundargerðum oddvitanefndar og stjórnar heilsugæslustöðvarinnar, en sá síðari byggir á myndum og skýringum Jóns Eiríkssonar í Vorsabæ. Í lok hans er svo vísað í myndasafn Jóns, frá vígslu nýrrar heilsugæslustöðvar.

Mánudagur til mynda

Mánudagur til mynda

Það verður að teljast alveg upplagt að opna, á svona degi, fyrir myndasafn, þar sem fjallað eru um vígslu heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási, þann. 21. júní, 1997. Þessar myndir rötuðu til mín fyrir nokkru og ég hef nú lokið að gera við þær það sem ég vildi áður en þær bitust hér fyrir sjónum annarra.

Ljósmyndarinn var Jónas Yngvi Arngrímsson, þá verandi framkvæmdastjóri stöðvarinnar, en Jón Eiriksson (1921-2010) í Vorsabæ, fékk hjá honum filmur, setti í framköllun, kom fyrir í plastvösum í albúmi og skrifaði síðan texta með hverri mynd. Á þessum tíma var Jón orðinn fyrrverandi flest, enda löngu orðinn eftirlaunamaður. Hann var oddviti Skeiðahrepps í áratugi og formaður oddvitanefndar Laugaráshéraðs einnig í áratugi. Eitt stærsta baráttumál hans, og sem líkja mætti við maraþonhlaup, var að fá þessa heilsugæslustöð byggða.

Jón átti soninn Eirík, sem varð mér samferða í gegnum nám á Laugarvatni og Reykjavík. Hann var svo vinsamlegur að leyfa mér að nota myndirnar hér, á þessum vef, með loforði um að frumgögnin rati síðan á Héraðsskjalasafn Árnessýslu..

Myndirnar er að finna undir hnappinum hér efst til hægri, en til hægðarauka er hægt að smella hér.

Konungshús - læknisbústaður - leiguhúsnæði

Konungshús - læknisbústaður - leiguhúsnæði

Megi þetta nýja ár færa okkur það sem við eigum skilið.

Það er við hæfi, nú þegar hátíðahöldum linnir og hversdagurinn tekur við, að birta samantekt um húsin sem hýstu læknana í Laugarási og fjölskyldur þeirra, þar til hús tóku að rísa við Launrétt. Fyrsti læknisbústaðurinn átti sér merka sögu, en reyndist ekkert sérlega vel í nýju hlutverki í Laugarási, en í því bjuggu læknafjölskyldur þó í ein 15 ár, eða þar til húsið sem enn stendur uppi á holti var byggt á síðari hluta fjórða áratugarins. Af einhverjum ástæðum hefur mér ekki tekist að komast yfir góðar myndir af þessu húsi og lýsi bara eftir þeim hér. Það er fremur erfitt að trúa því að það hafi ekki talist vera verðugt myndefni.