Nýting jarðarinnar frá 1953 til 1973

Þegar þegar árið 1953 rann upp, var búið að leigja allt land sem lá að hverasvæðinu og þeir sem á eftir kæmu myndu þurfa að koma sér upp aðferðum við að ná til sína hita frá hverasvæðinu. Oddvitanefndin virðist hafa litið svo á, að aðeins þeir leiguliðar sem hefðu á leigu land sem lá að hverasvæðinu, byggju við þann lúxus að eiga rétt til heits vatns úr hverunum. Því þótti nefndinni eðlilegt að leigugjald fyrir slíkt land væri tvöfalt það sem þeir þyrftu að greiða, sem engin hitaréttindi hefðu. Það er sannarlega augljóst, í ljósi þess hvernig mál þróuðust í Laugarási, að staðsetning leigulóðanna í Laugarási myndi engu máli skipta, en oddvitarnir gátu líklega ekki séð slíka þróun fyrir, þarna árið 1953.

1954 framræsla og lóðastærð

Laugarás 1960 - svæðið í gula rammanum var framræst sumarið 1954 (mynd:Lmi)

Laugarás 1960 - svæðið í gula rammanum var framræst sumarið 1954 (mynd:LMÍ)

Oddvitanefndin var nú farin að sjá fram á að enn myndi fjölga umsóknum um lóðir fyrir garðyrkjubýli. Annað verður vart lesið út úr samþykktum nefndarinnar á þessu ári.

Annarsvegar var ákveðið að ræsa fram mýri:

Þar sem skurðgrafa er fáanleg núna, var samþykkt að ræsa fram mýrina milli Auðsholtsvegar og Laugarássvegar.

Umrædd mýri er merkt á myndinni hér til hægri. Myndin var tekin 1960, eftir að skurðirnir voru grafnir og áður en þessu svæði hafði verið úthlutað.

Hinsvegar var ákveðið að setja hömlur á lóðastærð einstakra leigjenda:

Lögð fram umsókn Jóns Guðmundssonar í Laugarási um viðbótar landspildu að stærð 2 ha. Telur hann sér nauðsynlegt að fá land þetta til þess að geta stofnað nýbýli og fengið lán, sem nýbýlastofnun heimilar, en réttindi til þess eru bundin við 6 ha landstærð.
Nokkrar umræður urðu um þessa umsókn og kom fram sú skoðun, að varasamt væri að leigja einstökum mönnum svo stór lönd. Varð niðurstaðan sú, að fundurinn óskaði eftir því, að formaðurinn ræddi um það við landnámsstjóra, að Jón fengi umrædd réttindi með því landi sem hann hefur, sem eru 4 ha.
Að öðrum kosti heimilast formanni að leigja umsækjanda landspildu í mýrinni meðliggjandi landi Rauða krossins, allt að 2 ha að stærð, enda verði hún nýtt af umsækjanda.

Það var þannig á þessum tíma, að til þess að geta fengið lán til stofnunar lögbýla var krafist lágmarksstæðar lands. Börge J. M. Lemming fékk 3 ha og það kvað Skúli Magnússon, sem tók við af honum, hafa verið vegna þess, að til þess að geta fengið lán við stofnun lögbýlis, þyrfti jörðin að vera í það minnsta 3 hektarar. Þessar reglur voru auðvitað miðaðar við annarskonar búskap en þann, sem þarna var að ryðja sér til rúms. Gróðurhúsaræktun krafðist og krefst augljóslega minna landsvæðis en hefðbundinn búskapur.
Ekki eru hér forsendur til að meta hversvegna Jón Vídalín taldi sig þurfa 6 hektara til að geta fengið lán út á Sólveigarstaði. Sólveigarstaðir voru 4 hektarar, sem þýddi að lóðin náði upp á það svæði sem Vesturbyggð er nú. Svæðið sem Jón fengi með tveim ha í viðbót, næði þá yfir landið sem Gerði og Slakki standa nú.
Ekki kemur fram í fundargerðum oddvitanefndarinnar hvort af þessari stækkun varð.

1955 Fjölgunaráskorun

Fyrir oddvitanefndinni þetta ár lá, að taka afstöðu til 4 umsókna um lóðir og hitaréttindi.

Miklar umræður urðu um málið og töldu fundarmenn mjög varhugavert að taka ákvarðanir um frekari leigu fyrr en fyrir liggur athugun og tillögur sérfróðra manna um framtíðarskipulag og mat lands og hita.
Samþykkt að fela formanni að láta mæla og kortleggja allt Laugarásland og fá þá Pálma Einarsson, Ingólf Þorsteinsson og Hjalta Gestsson, eða aðra hæfa menn til þess að gera tillögur um framtíðarbúskap á landinu. Sé sérstaklega athugað um stofnun gróðurhúsnýbýla, jafnframt því að aðstaða núverandi ábúanda sé ekki skert um of.

Þegar hér var komið, var bygging brúarinnar yfir Hvítá hjá Iðu hafin og harla líklegt að með henni myndi þeim fjölga, sem horfðu til Laugaráss sem framtíðar heimili fyrir sig og sína. Á þessu ári var búið að leigja nánast allt það svæði sem var næst hverasvæðinu og búið að ræsa fram mýrina milli Auðsholtsvegar (nú Ferjuvegar) og Laugarássvegar (nú Skúlagötu). Framundan, sem sagt, að koma faglegu skikki á framtíðarnýtingu landsins og auðvitað var það ylrækt sem fyrst og fremst var horft til.

1956 var Skálholtshátíðin

Það skapaði vanda við skipulagningu Skálholtshátíðarinnar, að Hvítárbrúin var ekki komin, eins og stefnt hafði verið að.

Til að forðast umferðaröngþveiti mun verða einstefnuakstur frá Selfossi til Skálholts um morguninn og í gagnstæða átt um kvöldið. Bílastæði verða fyrir 1300—1400 bila á þrem stöðum á Skálholtstúni, ennfremur hefur verið tryggt bílastæði í Laugarási ef með þarf.
Veitingar verða seldar í Skálholti og ennfremur í barnaheimili Rauða krossins og er sennilegt að bíll verði í förum milli þessara staða. (Þjóðviljinn 2. júní, 1956)

Hátíðina sóttu 7-8 þúsund manns á um 1100 bílum og 60 rútubílum.

1957 kom brúin

Í desember þetta ár var Hvítárbrú hjá Iðu opnuð fyrir almenna umferð og skipti sköpum í ýmsu tilliti. Það kann að vekja athygli, en oddvitanefndin fjallaði aldrei um þessi miklu samgöngubót á fundum sínum.

1958 ýmsu að sinna

Merki voru að verða skýrari um það sem framundan var og á borð nefndarinnar komu 5 umsóknir um lönd og hitaréttindi. Þar sem nú hafði veris gerður skipulagsuppdráttur af jörðinni og mýrin norðan hverasvæðisins verið framræst, var öllum umsækjendunum gefinn kostur á landi.

Samþykkt var að gefa öllum þessum þessum mönnum kost á landi og hita og skal farið um landstærð eftir nýjum skipulagsuppdrætti af landi jarðarinnar, í framræstri mýri vestur af læknissetrinu, eftir því sem hægt er.
Var ákveðið að stjórnin komi síðar saman til þess að úthluta löndum, ganga frá áframhaldandi byggingu Helga Indriðasonar fyrir jörðinni og taka aðrar ákvarðanir í þessu sambandi.

Af umsækjendunum fimm stóðu svo tveir eftir:
Hjalti Jakobsson, sem flutti með fjölskyldu sína í Laugarás 1957 og greinilega búinn að fá vilyrði fyrir lóð, eins og kemur fram í viðtali við Fríði Pétursdóttur, konu hans, sem sjá má hér. Þar segir hún um flutning þeirra í Laugarás, meðal annars.

Við fluttum í Laugarás árið 1957. Hjalti var þá búinn að steypa grunn að fyrsta gróðurhúsinu okkar, en við byrjuðum að rækta í húsi sem við leigðum af Ólafi Einarssyni. Fyrstu sjö árin bjuggum við í Lauftúni sem krakkarnir í hverfinu kölluðu „Silfurhúsið“ af því að það var álklætt og það glampaði svo fallega á það. Þar var allt nánast jafn frumstætt og hafði verið í Reykholti, munurinn var sá að nýbúið var að leggja rafmagn í Laugarás. Það var lagt fyrir köldu vatni í húsið en þar sem það var sjálfrennandi og engin dæla þá náði það bara að renna í klósettkassann en ekki í vaskinn, við höfðum ekki baðkar. Ég þurfti því að ná í vatn út í hver, sem var nánast við húsvegginn, ef mig vantaði vatn til annars en að sturta niður.

Sigfús Jónsson (1903-1981) var faðir Sigmars Sigfússonar, sem settist að í Laugarási 1960. Sigmar bjó í Laugarási til æviloka, ásamt Sigríði Pétursdóttur, konu sinni. Á þessu ári fékk Sigfús land þar sem Varmagerði var síðar byggt upp. Þar kom hann sér fyrir ásamt konu sinni í gömlum sumarbústað.

Guðmundur Indriðason sótti um viðbót við lóð sína á Lindarbrekku, “½ ha lands, austan við og meðfram landi því sem hann hefur. Samþykkt var að verða við þessari beiðni og skal gengið frá leigumála um leið og gengið verður frá samningum við aðra umsækjendur.”

Fyrirkomulag leigumála

Í framhaldi af vinnu við framtíðarskipulag á jörðinni var farið að vinna í hvernig haldið skyldi utan um leigu á skipulögðum lóðum. Nefndin fól formanni og varaformanni að ganga frá byggingabréfi varðandi ábúð jarðarinnar, við Helga Indriðason, svo og að úthluta lóðum og heitu vatni til þeirra sem þess óskuðu.

Úthlutun á löndum og staðsetning mannvirkja sé gerð í samráði við þá og viðkomandi skipulagsstjóra, byggingafulltrúa eða bygginganefnd.
Lágmarksgrunnleiga (vísitala 100) sé:
Lönd 400 kr @ha
Heitt vatn 700 kr @sek/l

Skálholtsstaður vill heitt vatn

Skálholtsstaður óskaði eftir að fá heitt vatn frá Laugarási, gegn því að héraðið fengi, kostnaðarlaust, vatn frá leiðslunni handa garðyrkjubændum er lönd leigja meðfram henni. Staðurinn leitaði eftir samningum við stjórn læknishéraðsins, sem fælu í sér að staðurinn myndi reisa dælustöð í Laugarási, meðfram til afnota fyrir héraðið. Svo virðist, sem þessar umleitanir Skálholtsstaðar hafi, þegar upp var staðið, tafið fyrir stofnun hitaveitunnar í Laugarási.
Um ósk Skálholtsstaðar og framhald þess máls er nánar fjallað í kafla um Hitaveitu Laugaráss.

1959 dýralæknissetur

Greint frá samningi um land og hita vegna dýralæknisbústaðar.

Greint frá samningi um land og hita vegna dýralæknisbústaðar.

Páll Agnar Pálsson, yfirdýralæknir (1919-2003)

Páll Agnar Pálsson, yfirdýralæknir (1919-2003)

Á þessu ári var gerður samningur við yfirdýralækni, Pál Agnar Pálsson, um 1000 fermetra lóð undir dýralæknisbústað við Launrétt. Í færslunni er bæði talað um afsal og leigu, sem virðist fremur misvísandi, þar sem ekki hefur verið talið að embætti yfirdýralæknis hafi eignast lóðina með samningnum, heldur fengið hana á leigu, rétt eins og aðrir íbúar í Laugarási. Þannig kvað samningurinn á um að ekki yrði krafist leigu af lóðinni meðan á henni væri dýralæknisbústaður.

Að öðru leyti var gengið frá leigumála við bóndann, Helga Indriðason, á þessu ári og gerður erfðafestuleigusamningur við Sigfús Jónsson, eins og honum mun hafa verið lofað, munnlega, en hann fékk lóðina árið 1958.
Loks var gerður samningur til eins árs við Sigmar Sigfússon.

Ári 1947 ákvað oddvitanefndin að hætta að gera erfðafestuleigusamninga um lóðir og lönd í Laugarási, en var greinilega ekki mjög hörð á því.
Ekki er tilgreind ástæða fyrir því, að ákveðið var að gera samning við Sigmar til eins árs, en sú starfsemi sem hann hugðist stunda var af allt öðru tagi en sú sem hingað til hafði verið úthlutað lóðum til. Sigmar var rennismiður og hugðist setja upp rennismíða- og vélaverkstæði. Lóðin sem hann fékk, er vestan Skálholtsvegar, á móti Varmagerði.

1960 Sláturfélag Suðurlands kaupir land.

Á þessu ári ákvað oddvitanefndin að selja Sláturfélagi Suðurlands 3 hektara spildu úr jörðinni og var það í fyrsta og eina skiptið sem slíkt var gert. Allar spildur eða lóðir sem nýttar voru í annað en starfsemi á vegum læknishéraðsins, voru leigðar með mismunandi skilyrðum.

Jón H. Bergs, Árni Ögmundsson og Guðmundur Guðmundsson

Jón H. Bergs, Árni Ögmundsson og Guðmundur Guðmundsson

Í september 1960 komu fulltrúar Sláturfélags Suðurlands á fund oddvitanna. Þetta voru þeir Jón H Bergs, forstjóri félagsins, Árni Ögmundsson á Galtafelli og Guðmundur Guðmundsson á Efri Brú. Þessir þrír sátu í nefnd sem hafði verið falið að finna hentugan stað fyrir sláturhús í uppsveitum Árnessýslu og, að sögn forstjórans, hafði helst verið bent á Laugarás, sem hentugan stað fyrir þessa starfsemi.

Það var auðvitað ljóst að starfsemi af þessu tagi krefðist mikillar uppbyggingar á innviðum í Laugarási. Það var, til dæmis, engin sameiginleg kaldavatnsveita á staðnum. Það var farið yfir þetta á fundinum og bent á að “gott vatnsból væri suður í Vörðufelli fyrir sunnan Iðu.” Yrði af þessu, þyrfti að stofna sérstakt félag um vatnsveitu.

Eftir að hafa fjallað um beiðni sláturfélagsins frá ýmsum hliðum, samþykkti oddvitanefndin að láta SS í té land sem væri “suður undir brúarsporði, vestan þjóðvegarins,” allt að 3 ha að stærð og heitt vatn eftir þörfum, samkvæmt mæli. Þá var formanni var falið að “gangast fyrir stofnun vatnsveitufélags fyrir Laugaráshverfi.”

Að ósk forstjórans lagði nefndin fram tilboð um þetta land, sem hann ætlaði síðan að leggja fyrir stjórn SS. Tilboð nefndarinnar bauð upp á þrjá möguleika: staðgreiðslu, greiðslu með afborgunum eða erðafestuleigu. Það hefur líklega ekki verið snúið fyrir stjórn SS að ákveða hvaða kostur hentaði best.

1) Hið umrædda land 3 ha að stærð sé selt fyrir kr. 50.000, sem greiðist við afsal.
2) Söluverð fyrir landið sé kr. 100.000, sem greiðist með jöfnum afborgunum, vaxtalaust í 10 ár, eða kr 10.000 á ári.
3) Landið sé leigt á erfðafestu til 50 ára, gegn kr 3.000 á ári.
Öll þessi tilboð miðast við það að skipulagsstjóri samþykki staðsetningu mannvirkja.

[Smá innskot - án ábyrgðar: Ef Laugarásjörðin væri seld í dag (byrjun árs 2024) á þessu verði, myndu fást fyrir hana, um það bil kr. 210.000.000]

Í október hafði stjórn SS fjallað um þetta tilboð og ákvað að velja fyrsta kostinn og í framhaldi af því var formanni nefndarinnar falið að ganga frá samningi við sláturfélagið, sem hann og gerði og greindi síðan frá á septemberfundi árið eftir.

Kaup SS á landi í Laugarási voru auðvitað stærstu tíðindin á þessu ári, hvaða varðar landnýtingu í Laugarási, en eitthvað gerðist samt fleira.

Sigurbjörg Lárusdóttir, dýralæknisfrú sótti um og fékk leigðan 1 ha lands með hitaréttindum. “Samþykkt var að gefa henni kost á næstu lóð, norðan við land Hjalta Jakobssonar, vestan þjóðvegar, að Bolla Þóroddssyni frá gengnum. Formanni falið að ákveða lóðamörk og ganga frá samningi þar sem leiga væri kr 1000 fyrir ha lands og kr 1300 fyrir sek/l.”
Hér var um að ræða það land sem síðar varð Lyngás. Vísað er til þessarar lóðar, sem “lóðar Braga Steingrímssonar” þar sem greiddar voru kr. 700 fyrir leigu af henni fyrir þetta ár.

Þá fékk Hjalti Jakobsson að stækka, eða rýmka land sitt, sem nam 20 metra breiðri spildu.

1961 veiðiréttur í Hvítá og Bolli

Laxveiði í Hvítá, Laugarásmegin, hefur ekki talist umtalsverð, en þó var þar greinilega eftir einhverju að slægjast, því læknirinn, sem var á þessum tíma Grímur Jónsson, fór fram á að veiðiréttinum fyrir Laugaráslandi yrði skipt milli læknisins og ábúandans. Formanni falið að undirbúa, að þessi skipti gætu farið fram áður en næsta veiðitímabil hæfist.

Bolla Þóroddsyni hafði verið var úthlutað lóð árið 1959, en þá hætti hann við af einhverjum ástæðum. Nú var aftur gerður við hann samningur um landspildu ásamt hitaréttindum og á árinu greiddi hann kr. 2055.20 til héraðsins í leigu af þessu landi, en ekki liggur fyrir hvar það var, en líklegt má telja að það hafi verið næst fyrir norðan Lauftún, land Einars Ólafssonar. Í nóvember árið eftir sagði Bolli upp samningi um þessa lóð og ekki kom hann frekar við sögu.

1962 möguleiki á verslun

Þórkell G. Björgvinsson

Ætli stærstu tíðindi þessa árs hafi ekki falist í umsókn Þórkels G. Björgvinssonar kaupmanns á Selfossi “um lóð sem næst Iðubrúnni til almenns verslunarreksturs til bættrar vörudreifingar.”

Samþykkt var að gefa honum kost á lóðinni, þó þannig að fyrir liggi upplýsingar um hverskonar verslunarrekstur verði þar um að ræða og að allar byggingarframkvæmdir skuli vera háðar samþykki skipulagsstjóra ríkisins og Laugarássnefndar.
Jafnframt var formanni falið að afla upplýsinga um hliðstæðar lóðasölur eða leigur á Selfossi og víðar og leggja þær upplýsingar fyrir næsta fund, sem ákveður þá leigu eða sölu ef umsækjandi óskar enn eftir því.

Ekki varð neitt úr því að það hæfist verslunarrekstur í Laugarási þetta árið.

Bragi Steingrímsson, dýralæknir, sótti um lóð fyrir hönd sona sinna og fékk lóð norðan lands Einars Ólafssonar, Lauftúns, ásamt hitaréttindum. “Samþykkt var að fela formanni að ganga frá leigusamningi þar sem leiga væri eftir ákvörðun fundar frá 24. okt. 1960, þó þannig að leigumála megi endurskoða á 5 ára fresti.”
Ekki er ljóst hvort hér var um að ræða lóð, til viðbótar við það sem fjölskylda þessi fékk árið 1960, en það skiptir víst ekki máli, þar sem Bragi lét af embætti 1964 og fjölskyldan hvarf á braut.

Laugarás 1964 - Ásholt í ljósum ramma. Mynd Landmælingar Íslands.

Páll Halldórsson Dungal og Hólmfríður A. Sigurðardóttir fengu lóð, sem bar númerið 6, í fundargerð oddvitanefndarinnar. Þau settust síðan þar að og nefndu Ásholt. Hjónin skildu eftir 4 ár í Laugarási, en Páll stundaði þar aðallega útirækt þar til hann flutti burt, árið 1985.

Tvær aðrar umsóknir voru teknar til umfjöllunar á þessu ári, en hvorugur þeirra sem um sóttu, hugðist setjast að í Laugarási og í framhaldinu var leigumála breytt þannig að leigjendur skyldu hafa “á löndunum atvinnurekstur og fasta búsetu.”


1963 aftur möguleiki á verslun og endurskoðun leigumála

Kaupfélag Árnesinga sótti um verslunarlóð nálægt Iðubrú og nefndin varð við því. Formanni nefndarinnar var falið að gera uppkast að samningi við kaupfélagið og leggja fyrir fund. Slíkt uppkast var aldrei tekið fyrir og þar með rann þessi tilraun til að setja upp verslun í Laugarási, út í sandinn.

Árið eftir, 1964, endurnýjaði Þórkell G. Björgvinsson umsókn sína um verslunarlóð við Iðubrú og var hún samþykkt og “var formanni falið að gera samning um lóðarleigu í samræmi við ákvarðanir nefndarinnar um búsetu o.fl.”
Ekki verður fjölyrt um þessa tilraun, en engin kom verslunin.

Oddvitanefndin samþykkti að láta endurskoða “leigumála, sem ekki eru bundnir af vísitöluákvæðinu” að undanskildum samningum við Sigurð Sigurðsson, þar sem “Laugarásnefndin lítur svo á, að þar hafi ekki aukist tekjur af þeim réttindum sem hann hefur á leigu.” Sigurður hafði á leigu lóðina sem kallast Krosshóll eða Sigurðarstaðir.

Þessi samþykkt nefndarinnar byggði á 36. gr. laga nr. 36, frá 29. marz, 1961, sem hljóðar svo:

36. gr. Nú verða verulegar breytingar á verðlagi eða aðstaða til búskapar á jörð breytist mjög, t. d. þannig, að tekjur af jarðarnytjum eða hlunnindum hverfa eða stóraukast frá því, sem áður var, án þess að einstök fyrirmæli þessara laga nái til þess, og getur þá hvor aðila krafizt, að úttektarmenn endurskoði leigumála jarðar og meti eftirgjald eftir jörð með hliðsjón af samningsbundnum leigumála og breytingum þeim, er orðið hafa, síðan hann var gerður. Nú telur annar hvor aðili leigumála jarðar óviðunandi samanborið við leigumála á líkum jörðum í þeirri sveit eða héraði, og getur hann þá á sama hátt krafizt endurskoðunar á leigumálanum, einnig þótt leigumáli hafi verið settur samkvæmt eldri gildandi ábúðarlögum.

1964 ásókn í lóðir

Hvítárbrúin var þarna byrjuð að sanna gildi sitt og gróðurhúsalóðir lágu ekki á lausu í Hveragerði, ásamt því, að nýútskrifuðum garðyrkjufræðingum fjölgaði. Um miðjan sjöunda áratuginn jókst ásókn í lóðir fyrir garðyrkjubýli í Laugarási og Hörður Vignir Sigurðsson kom á fund nefndarinnar og óskaði eftir að fá læknisbústaðinn leigðan í 1 ½ -2 ár og auk þess land og hitaréttindi fyrir amk 800 ferm gróðurhús. Hörður og Ingibjörg Bjarnadóttir kona hans, fengu lóðina sem Bolli Þóroddsson og Sigurbjörg Lárusdóttur höfðu áður fengið og þar reis garðyrkjubýlið Lyngás.

Nýjar garðyrkjulóðir í Laugarási á sjöunda áratugnum.

Nýjar garðyrkjulóðir í Laugarási á sjöunda áratugnum.

Einnig var lögð fram umsókn Sævars Magnússonar í Hveragerði, um lóð nr. 4 og 1 ½ sek/l af heitu vatni. Sævar stofnaði síðan, ásamt konu sinni Karítas Óskarsdóttur, garðyrkjubýlið Heiðmörk 1966.

Umsóknirnar voru samþykktar, en ekki var nefndinni unnt að leigja læknisbústaðinn, þar sem enn var ósamið "við stjórnvöldin um eignarréttinn á honum.”

Fjórar aðrar umsóknir voru samþykktar á þessu ári, en einn umsækjenda gerði alvöru úr því að hefjast handa, en það var Jóhann Eyþórsson, sem, ásamt konu sinni Ingigerði Einarsdóttur frá Holtakotum, hafði tekið á leigu lóðina sem varð Ljósaland árið eftir.

1965 fleiri umsóknir, fleiri íbúar

Áfram hélt oddvitanefndin að taka við umsóknum og úthluta lóðum, en einn umsækjenda, Hilmar Magnússon, gerði alvöru úr að stofna garðyrkjubýli ásamt konu sinni Guðbjörgu Kristjánsdóttur, sem hlaut nafnið Ekra.

1966 húsnæðismálin

Guðný og Skúli fluttu í nýja húsið í Hveratúni 1960 og eftir það nýttist gamli bærinn í allmörg ár, sem fyrsta íbúðarhúsnæði nýrra fjölskyldna í Laugarási. Hann var jafnaður við jörðu 1982.

Það segir sig nokkuð sjálft, að fjölskyldurnar sem gerðu sig klárar á þessum tíma, til að hefja líf sitt í Laugarási, þurftu dvalarstaði meðan íbúðarhús voru byggð. Einhvern veginn bjargaðist þetta í flestum tilfellum. Þannig fengu þau Hjalti og Fríður í Laugargerði inni í sumarhúsinu í Lauftúni og Hörður og Ingibjörg í Lyngási í gamla bænum í Hveratúni. Nokkrar fjölskyldur til viðbótar fengu þar inni í framhaldinu, til dæmis þau Óttar Guðmundsson og Gíslunn Jóhannsdóttir sem stofnuðu garðyrkjubýlið Teig, en þau fengu þó fyrst inni í litlum sumarbústað á Sigurðarstöðum. Þau Helgi J. Kúld og Guðrún Lilja Skúladóttir, sem stofnuðu Asparlund, byrjuðu einnig á Sigurðarstöðum en fluttu síðan í gamla bæinn í Hveratúni. Það sama gerðu þau Gunnar Tómasson og Elsa Marísdóttir sem keyptu Asparlund af Helga og Guðrúnu.
Páll H. Dungal og Hólmfríður fluttu bráðabirgðahús í Ásholti. Jóhann og Ingigerður á Ljósalandi fluttu vinnuskúr á lóð sína og bjuggu þar til að byrja með.
Þegar gamla læknishúsið hætti að gegna því hlutverki sínu sem slíkt og það komið í eigu læknishéraðsins, var það leigt nýbúum í allmörg ár, í fyrsta skipti 1966, en þá fluttu Sævar og Kaja og Hilmar og Guðbjörg í húsið.

1967 Jón Vídalín leysir festar

Þegar Jón Vídalín ákvað að selja eignir sínar á Sólveigarstöðum fór hann fram á það, að framselja leiguréttindin til væntanlegra kaupenda. Hann hafði tekið við samningi sem upphaflega hafði verið gerður við fyrstu leigjendur lóðarinnar árið 1941. Á þeim samningi hafði síðan verið byggt þegar Jón fékk lóðina 1955. Lóð Sólveigarstaða á þessum tíma var 4 ha.

Þegar þarna kom sögu höfðu þeir Hjalti Jakobsson í Laugargerði og Hörður V. Sigurðsson í Lyngási, gert tilboð í eignir Jóns og fólst það í tilboði þeirra, að samningurinn sem gerður hafði verið við Jón 1955 héldi sér.
Viðbrögð oddvitanefndarinnar voru svo skráð í fundargerð:

Í tilefni þessa samþykkir stjórnarnefndin eftirfarandi:
a. Stjórnarnefndin viðurkennir rétt ábúandans, Jóns Guðmundssonar, til framsals leiguréttinda sinna, samkv. tveim samningum dags 19. des. 1941, en tekur það jafnframt fram, að hún geymir sér rétt til að láta endumeta leigumála samkv. heimild í ábúðarlögum nr. 26/1961.
b. Stjórnarnefndin heimilar að framselja Hjalta Jakobssyni og Herði Sigurðssyni, leiguréttindi samkv. samningi dags. 10. júní 1955, með því skilyrði, að leigumálinn verði hækkaður til samræmis við leigumála í síðustu samningum stjórnarnefndarinnar við ábúendur á staðnum.
c. Stjórnarnefndin hefur ekki áhuga á að ganga inn í kauptilboðið.

Lóðir Sólveigarstaða, Laugargerðis og Lyngáss  þegar Jón Vídalín fór fram á framsal leiguréttinda sinna.

Lóðir Sólveigarstaða, Laugargerðis og Lyngáss þegar Jón Vídalín fór fram á framsal leiguréttinda sinna.

Á næsta fundi nefndarinnar í mars þetta ár var tekið fyrir bréf frá lögfræðingi Jóns frá því í febrúar og einnig kauptilboð frá Gústaf Sæland.

Lögfræðingur Jóns, Hrafnkell Ásgeirsson, kom á fundinn og óskaði hann eftir því að stjórnarnefndin gerði Hjalta og Herði tilboð um leigumála á Sólveigarstaðalandi og hitaréttindum, sem nefndin gerði.

Leigutakar afsali sér því landi sem liggur ofan vegar. [sjá rauða brotalínu á teikningunni hér fyrir ofan]
Þeir greiði 1/3 hluta leigu af landi og hita, því landi sem þá er eftir, að viðbættri vísitölu eins og hún er á hverjum tíma.

Þessu tilboði nefndarinnar var hafnað.

Oddvitanefndin samþykkti síðan að “stuðla að því að” Gústaf Sæland næði að kaupa Sólveigarstaði. Þetta var gert með því að liðka fyrir um lán og að hann myndi afsala sér landinu ofan vegar, sem var innan brotalínunnar á teikningunni hér fyrir ofan. Þá skyldi lóðarleigan verða færð “til þess taxta, sem nú gildir á staðnum, að viðbættri vísitölu eins og hún er á hverjum tíma.”

Þetta gekk eftir.

Árið 1968 stofnuðu þau Hörður Magnússon og Hjördís Elinórsdóttir garðyrkjubýlið Varmagerði þar sem Sigfús Jónsson hafði áður haft aðsetur í sumarhúsi.

Vatnaskil þegar áttundi áratugurinn hefst

Í byrjun mars, 1970, lá fyrir nefndinni bréf Helga Indriðasonar bónda í Laugarási, þar sem hann sagði jörðinni lausri frá næstu fardögum að telja, eða vorið 1970. Nefndinni þótti fyrirvarinn skammur, en svo var komið, að heilsa Helga gerði hann “ófæran til búskapar” og var erindi Helgi því tekið gilt og strax í kjölfarið var jörðin auglýst laus til ábúðar.

Jörðin Laugarás auglýst laus til ábúðar, 10. mars, 1970

Jörðin Laugarás auglýst laus til ábúðar, 10. mars, 1970

Skemmst er frá því að segja, að ekkert tilboð barst, sem Helgi gat sætt sig við, en búskapnum varð hann að hætta á þeim tíma sem áður greinir. Hann óskaði “eftir því, að læknishéraðið keypti fasteign hans á staðnum.”
Nefndin og Helgi náðu ekki saman um eðlilegt kaupverð.

Þar sem ekki náðist samkomulag um verð, urðu aðila ásáttir um að óska eftir mati á eigninni og urðu sammála um að óska eftir útnefningu sýslumanns á tveim úttektarmönnum, sem búsettir séu utan Laugaráshéraðs.

Úttektarmennirnir komust að því að eðlilegt kaupverð væri kr. 1.750.000 og varð úr að læknishéraðið keypti á því verði, sem samsvarar árið 2021 um það bil 21.000.000.

Lóðir klárast, engin sumarhús og leikvöllur

Með þeim lóðum sem leigðar voru á árið 1970, var allt skipulagt land frátekið. Þetta var árið sem Gísli Oddsson og Sigurbjörg Steindórsdóttir keyptu Ljósaland, Þröstur Leifsson og Sigurbjörg G. Jóhannesdóttir fengu lóð undir garðyrkjubýlið Birkiflöt og Sverrir Ragnarsson og Karítas Melstað Ösp. Þá fékk Sverrir Gunnarsson í Hrosshaga, fyrir hönd sonar síns Gísla, lóðina þar sem Akur síðan reis.
Gísli og Bagga fluttu í húsið á Ljósalandi, Þröstur og Sibba fluttu bráðabirgðahúsnæði á staðinn og Sverrir og Katý fengu Helgahús á leigu.

Í nóvember hafnaði oddvitanefndin umsókn Bjarna Finnssonar, á þeirri forsendu að öllu skipulögðu gróðurhúsalandi hefði verið úthlutað. Bjarni stofnaði síðan Blómaval og rak í ein 30 ár.

Sumarhús
Oddvitanefndinni voru, þegar hér var komið, farnar að berast allmargar umsóknir frá fólki, stofnunum og fyrirtækjum sem óskuðu eftir sumarbústaðalandi. Afstaða nefndarinnar var enn sú, að ekki yrðu leigðar út, eða seldar, sumarhúsalóðir.

Leikvöllur

Beiðni íbúa um að fá landið næst aðalgötunni, vestan megin, sem hafði tilheyrt Sólveigarstöðum, til að koma þar upp leikvelli, var samþykkt og nefndin ákvað “að leyfa völlinn næstu fimm ár, án kvaða eða skaðabóta ef leyfi verður ekki framlengt að þeim tíma liðnum.” Leikvöllurinn er enn á þessum sama stað.

Laxveiði læknis og bónda

Þegar Helgi Indriðason, bóndi, hvarf á braut, lagðist af hefðbundinn búskapur í Laugarási. Jörðinni hafði fylgt réttur til laxveiða í Hvíta, á móti héraðslækninum. Nú ákvað oddvitanefndin að “héraðslæknirinn fengi alla veiðina sem fylgir héraðinu eftir nánara samkomulagi við hann.”

1972: Stækkun lóðar, greiðasala, sumarhús, hverasvæðið

Lóð Asparlundar eftir viðbótina (rauð, brotin lína)

Lóð Asparlundar eftir viðbótina (rauð, brotin lína)

Byggingarlóð
Gunnar Tómasson og Elsa Marísdóttir, sem höfðu keypt Asparlund, en haft aðsetur í gamla bænum í Hveratúni, fengu lóð undir íbúðarhús fengu “byggingarlóð á tilteknum stað í Kirkjuási [Kirkjuholti].”

Greiðasala
Hörður Magnússon í Varmagerði fékk að setja upp greiðasölu á landi sínu, þar sem hann hugðist “selja framleiðsluvörur sínar, blóm og grænmeti.”

Starfsmannafélag SS óskaði eftir landinu sem skyggt er með gulu.

Starfsmannafélag SS óskaði eftir landinu sem skyggt er með gulu.

Sumarhús
Starfsmannafélag SS hafði hug á landi undir sumarbústaði sunnan Auðsholtsvegar, austan Teigs og norðan túngirðingar (sjá kort til hliðar) og oddvitanefndin tók félaginu vel.

Samþykkt var að gefa kost á landinu til leigu fyrir amk 5000 á ha á ári.

Nefndin fól formanni sínum að ganga frá samningi við félagið “ef hann teldi þá hagstæða fyrir héraðið.”

Leið svo að næsta fundi nefndarinnar, árið eftir (1973) og þar lagði formaður fram uppkast að leigusamningi á sumabústaðalandinu. Þá brá svo við, að oddviti Biskupstungnahrepps greindi frá því, “að hreppsnefndin hefði ákveðið að heimila ekki byggingu sumabústaða á þessum stað.” Af þessum sökum varð ekkert af samningum um þetta land.

Hreppsnefnd Biskupstungnahrepps tók þessa ákvörðun í kjölfar bréfs frá nefnd Laugarásbúa, sem valin hafði verið á íbúafundi. Í bréfinu voru tilgreindar tillögur í nokkrum liðum, sem Laugarásbúar óskuðu að teknar yrðu til greina. E. liður tillagnanna var eftirfarandi: “Að sveitarstjórn komi í veg fyrir að hugmynd landeigenda Laugaráss, um leigu sumarbústaðalanda í Laugarási, verði framkvæmd.” Þó svo Laugaráshérað eigi Laugarásjörðina, þá er hún á skipulagssvæði Biskupstungnahrepps og því hafði hreppurinn lokaorðið varðandi skipulagsmál.

Skipulagsmál
Úr því minnst er á skipulagsmál, þá þurfti oddvitanefndin að hafna umsókn um garðyrkjulóð árið 1970, og það þurfti hún einnig að gera á þessu ári. Þessu sinni var umsóknin frá Hafberg Þórissyni, sem nú ræktar Lambhagasalat. Í samþykkt nefndarinnar um þetta segir:

Þar sem farið er að ganga á virkjanlegt heitt vatn í Laugarási og ekkert land skipulagt til slíkar leigu, var ákveðið að svara þessu neitandi.

1973 og áfram: nýjar kröfur

Þegar hér er komið sögu eykst mjög umfjöllun um Laugarás í fundargerðum oddvitanefndar og Biskupstungnahrepps. Íbúum í Laugarási hafði fjölgar mikið og það eitt og sér kallaði á ýmsar ráðstafanir og aukna þjónustu. Hér er ætlunin að beina sjónum fyrst og fremst að því sem lýtur að nýtingu jarðarinnar: skipulagi og uppbyggingu innviða.
Undir lok sjöunda áratugarins stofnuðu Laugarásbúar með sér félagsskap, svokallað notendafélag, aðallega til að gæta hagsmuna hverfisbúa gagnvart landeigendum og Biskupstungnahreppi. Hitaveitan var eitt helsta viðfangsefni þessa félags. Í byrjum áttunda áratugarins fór þetta félag að gera sig meira gildandi, með óskum og áskorunum sem beindust aðallega að Biskupstungnahreppi. Þetta eru málefni sem félagið beitti sér fyrir í bréfi sínu til hreppsnefndar Biskupstungnahrepps árið 1973:

A. Að fullkomin lausn fáist á skólplagnamálum í Laugarási.
B. Að sveitarstjórn komi á sorphreinsun og/eða varanlegum, vel hirtum sorpgryfjum fyrir Laugarás.
C. Að hlutast verði til um, að land Laugaráss verði girt af og komið í veg fyrir lausagöngu búfjár.
D. Að sveitarstjórn hlutist til um að þjóðvegurinn í gegnum Laugarás verði rykbundinn svo oft sem þörf krefur.
E. Að sveitarstjórn komi í veg fyrir að hugmynd landeigenda Laugaráss um leigu sumarbústaðalanda í Laugarási verði framkvæmd.
F. Að skipulag Laugaráss verði endurskoðað í heild og haft samráð við íbúa Laugaráss í sambandi við það.

Í fundargerð hreppsnefndar eru skráð viðbrögð við þessu erindi notendafélagsins:

A. Að fela oddvita að athuga hverjar eru skyldur sveitarfélagsins vegna skolplagna í hverfum eins og Laugarási og leita ráða sérfróðra manna um lausn, ef sveitarfélagið þarf að sjá um það.
B. Að athuga möguleika á að grafa sorpgryfjur við Laugarás og kanna, hhvort það gæti ekki verið sorpgrygfja fyrir öll byggðahverfin í sveitinni. Einnig athuga með kostnað við sorphreinsun og hvernig hann greiðist.
C. Fara þess á leit við stjórn Laugaráslæknishéraðs, að hún sjái um að land Laugaráss verði girt.
D. Að ítreka kröfu, sem oddviti hefur gert við deildarverkfræðing Vegagerðar ríkisins um að rykbinda veginn í Laugarási.
E. Hreppsnefnd samþykkir að leyfa ekki byggingu sumarbústaða í Laugarási.

Það má segja að með notendafélaginu, sem var undanfari Hagsmunafélagsins, hafi Laugarásbúar fundið, að ef þeir tóku sig saman um að þróa lífið í Laugarási, þá var á þá hlustað.

Hagsmunafélag Laugaráss fær sérstakan kafla á vefnum og þar er fjallað um ýmis þau mál sem brunnu á Laugarásbúm næstu 25 árin, eða svo.

Sérstakur kafli fjallar um sorp- og frárennslismál.

Girðing um jörðina

Oddvitanefndin lét girða læknamiðstöðina af árið 1973. Þá fóru íbúar fram á það við nefndina að allt land Laugaráss yrði girt af til varnar ágangi búfjár. Ekki koma fram upplýsingar um viðbrögð oddvitanna við þessari ósk. Eftir kvartanir um ágang búfjár frá nágrannabæjum ákváðu íbúar að senda bréf til hreppsefndar þar sem kvartað er undan auknum ágangi búfjár í hverfinu. “Gera bréfritarar að tillögu sinni að nefndin hlutist til um að sett verði rimlahlið á tveim stöðum á þjóðveginn og girt að þessum hliðum eftir því sem við á.” (fundargerð hreppsnefndar). Ákvað hreppsnefnd þá að óska eftir því við Vegagerðina, að hún framkvæmdi þetta.
Árið 1974 lögðu íbúar í Laugarási fram tilboð “um að girða Laugaráshverfi af, í sjálfboðavinnu, ef Laugaráshérað legði til girðingarefni og verkstjóra.
Á þetta féllst oddvitanefndin.
Á vormánuðum 1975 var greint frá því á aðalfundi hagsmunafélagsins komið væri pípuhlið og beið það þess að verða sett niður. Það var einnig óskað eftir pípuhliði við brúna, en það kom aldrei.


Uppfært 01/2024