Horfin kennileiti


Um það bil 30 metrum norðaustan gamla læknisbústaðarins, við horn fjóstóftar, sem þar var, er laut eftir Fjósatjörn Hún var ræst fram fyrir rúmlega 20 árum (um 1960). Um svipað leyti var annarri tjörn, Lambhústjörn eða Lambhúsdœl, nokkrum metrum austar, eytt með því að Lambhúshól var mokað ofan í hana. Segja má, að kennileiti um þessa staði séu nú með öllu horfin.

Nokkur örnefni eru merkt inn á myndina. (Mynd pms)

Fáeinum metrum austar er allstór tjörn sem á síðustu árum hefur þornað mikið og fyllst af sefi. Hún var hér áður fyrr kölluð Dœlin (ÓE) eða Langadœla. Í tíð Ólafs Einarssonar læknis fékk austasti hluti þessarar tjarnar nafnið Balatjörn af þeim atburði að börn hans fundu þar gamlan bala. Áður en farið var að byggja á túninu var þarna gott skautasvell og oft fjölmennt á tjörninni á árunum um og eftir 1970. Á þeim árum var oft talað um Stórutjörn.
 

Norðaustan við fjósbygginguna, sem nú stendur, var hestarétt hér áður. Þar fyrir vestan tekur við sumarbústaðarland Ólafs Einarssonar læknis. Þarna er þéttur skógur í lítilli kvos sem hefur einhvern tíma verið kölluð Krókurinn.

Úr myndskeiði Magnúsar Skúlasonar frá ágúst 2015

Í kvosinni miðri, ofan við sumarbústað Ólafs Einarssonar, rétt við þar sem nú er grenilundur, var og heitir Stöðull. Síðustu fráfærur í Laugarási voru 1927, og þá voru mjaltir einmitt á þessum stað.

Nefið, sem gengur fram vestan Stöðuls og afmarkar kvosina, heitir Stöðulmúli. Af honum dregur sumarbústaðarlóð Ólafs nafn.

Austan við fjósbygginguna er dálítil hæð, sem heitir Bœjarholtið, og austur af því hallar niður að Hvítá.

Niðri við ána eru engjar, sem skaga svolítið út í ána, Nesið, eða Laugarásnesið (GV), og er þar hár moldarbakki niður í ána, Háibakki. Árlega étur áin af þessum gömlu engjum jarðarinnar, og segist Jón Bjarnason muna eftir, að þær hafi verið miklu stærri. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1709 segir: 

,,Engjunum hefur Hvítá til stórskemmda spillt.“ 
(Jarðabók Árna... ,II, bls. 292). 

Þannig hafa þær verið enn stærri áður fyrr, enda er farvegur árinnar
breiður þarna, og sandeyrar við Auðsholt benda til þess, að áin hafi runnið mun nær Auðsholti. Að sögn Runólfs var oft talað um Nesið sem allt láglendið meðfram ánni, neðan holtsins, vestur að læknum úr Vöðlunum. Guðmundur Indriðason hafði heyrt talað um Nesið sem syðsta hluta holtsins, afmarkað af ánni á tvo vegu, en eyrinni og Vöðlunum á einn. Vafalaust eru þessar nafngiftir af sama uppruna.

Uppfært 01/2019