Skúli Árnason, læknir frá 1900-1921

 Skúli Árnason læknir fæddist á Kirkjubæjarklaustri 16. ágúst 1865. Hann var sonur hjónanna Elínar Árnadóttir frá Dyrhólum og Árna Gíslasonar, sýslumanns. Hann varð stúdent 1890, og fjórum árum síðar kandidat í læknisfræði. Að því búnu tók hann að sér að vera héraðslæknir í Árnessýslu í tvö ár og var þá með aðsetur í Hraungerði. Þá hélt hann til Kaupmannahafnar, þar sem hann stundaði framhaldsnám. Eftir heimkomu var hann um tíma læknir í Ólafsvík, áður en honum var veitt hið nýja Grímsneshérað, 1899.

Þar sem ekki var um að ræða neina aðstöðu fyrir héraðslækni við stofnun héraðsins, sat Skúli til að byrja með, á Kópsvatni, í Hrunamannahreppi en þar bjuggu þá tengdaforeldrar hans, Sigurður Magnússon, hreppstjóri (1827-1902) og Kristrún Jónsdóttir (1831-1923). Dóttir þeirra og kona Skúla var Sigríður (1872-1911).

Eftir skamma dvöl á Kópsvatni fluttu hjónin í Skálholt. Skúli hafði þá fengið hálfa jörðina á leigu (hálflendu). Foreldrar Sigríðar brugðu þá búi og fluttu með þeim í Skálholt. Með þeim í Skálholt kom einnig Sigrún Jónsdóttir, frænka Sigríðar, þá 8 ára. Sigurður lést síðan 1902.

Það var næsta ömurleg aðkoma og ekkert, sem minnti á forna reisn staðarins. Foreldrum mínum var gert að hefja leiguliðabúskap á hálfri jörðinni og kaupa hálfbyggða timbúrhúsnefnu, sem reist hafði verið þar og talin var mesta hrákasmíði. Hús þetta var tvílyft með brotnu þaki, aðeins 7 álnir á lengd (sú alin er 62.7 cm). Neðri hæð hússins var algerlega óinnréttuð. Kjallari var undir húsinu. Svo lágt var þar undir loft, að hann var naumast manngengur. Auk þess var hann hálfur af vatni.
…..
Heppilegast hefði sjálfsagt verið að rífa kumbaldann. Þar var ekki einu sinn eldhúsnefna. Eldaði Kristrún, amma mín, ásamt móður minni, allan mat handa heimilisfólkinu og gestum í torfkofa á Skálholtshlaði sumarið 1900. (Sigurður Skúlason: Faðir minn, læknirinn)

Fjölskyldan

Skúli og Sigríður

Skúli og Sigríður

Skömmu eftir að Skúli og Sigríður voru komin í Skálholt, fæddist þeim fyrsta barnið, Skúli, en hann andaðist nýfæddur.

Skömmu eftir að aðkomufólkið hafði búið um sig í húsnefnunni fæddist læknishjónunum sonur. Þá gekk mögnuð kvefsótt í héraðinu og veiktust mæðginin af henni. Þótti brátt auðsýnt, að nýfæddi drengurinn myndi deyja. Var hann skírður skemmri skírn og hlaut nafnið Skúli. Hann lézt fárra daga gamall. (Sigurður Skúlason: Faðir minn, læknirinn)

Annað barn sitt, Sigurð, eignuðust þau árið 1903 (1903-1987). Hann var íslenskufræðingur og kennari. Þriðja barnið var Árni, (1908-1978), húsgagnasmiður og það fjórða Sigríður Elín (1911-1999). Sigríður giftist Eggert P. Briem. Þetta ljóð, eftir hana, birtist í Samtíðinni 1970:

Við vökulok
Í vestrinu,
í hinu gullroðna bliki sólarlagsins,
býr ástin mín,
litla barnið mitt,
stóra stúlkan mín.
Bak við allar annir hversdagsleikans
vakir lifandi mynd hennar i ljósi dagsins,
í húmi næturinnar.
Fyrir svefninn,
þegar myrkrið hefur blindað augu mín,
bið ég fyrir henni,
ástinni minni,
litla barninu minu,
stóru stúlkunni minni.

Þrem vikum eftir að Sigríður fæddist, lést móðir hennar. Þá var Sigurður 8 ára, og andlát hennar bar upp á þriggja ára afmæli Árna. Sigríður hafði þá átti við vanheilsu að stríða í nokkurn tíma.

Skúli-Árnason,-Sigurður,-Árni--og-Sigríður-fmynd-Torfast.jpg

Skúli Árnason með börn sín. Fyrir framan situr Sigurður og fyrir aftan eru Árni og Sigríður Elín. (Mynd frá Sr. Eiríki og Sigurlaugu á Torfastöðum)

Mér er sá dagur jafn minnistæður og hann hefði verið í gær. Hef ég ekki séð harmþrungnara fólk en heimilisfólk okkar þennan dag. Faðir minn var vanur að horfast í augu við veikindi og dauða. Hann var alltaf hetja, þegar mest reyndi á. Þrek hans veitti okkur hinum sálarstyrk.
(Sigurður Skúlason: Faðir minn, læknirinn)

Steinunn Sigurðardóttir (1865-1946), móðursystir barnanna, var á leið í heimsókn að Skálholti, þegar hún frétti lát systur sinnar. Hún tók við búsforráðum og fóstri barnanna upp frá því, allt þar til fjölskyldan flutti frá Skálholti 1927. Steinunn mun hafa verið fyrsta rjómabússtýra á Íslandi, en hún veitti forstöðu rjómabúinu að Áslæk í Hrunamannahreppi.

Árið 1919 bættist í barnahópinn Halldór Ólafur Jónsson. Hann ólst upp hjá Skúla lækni og Steinunni, frá því að hann missti móður sína, mánaðar gamall. Foreldrar hans voru þau Jórunn Halldórsdóttir og Jón Gunnlaugsson, sem bjuggu í Skálholti frá 1916 og Jón síðan til 1921. Jón var bróðir Skúla, síðar oddvita í Bræðratungu.

Halldór Ólafur varð síðar garðyrkjufræðingur og stofnaði, meðal annars gróðrarstöðina Alaska, í Reykjavík.

Skúli lét af læknisstörfum í Grímsneshéraði 1. janúar, 1922, en hélt búskap áfram í Skálholti til 1927, þá kominn á sjötugsaldur.

Starfsævi hans lauk ekki þótt hann hafi sagt skilið við læknisstörfin og búskapinn. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og þar gerðist hann starfsmaður Stjórnarráðs Íslands, auk þess sem hann fékkst allmikið við latínukennslu. Einn þeirra sem stundaði latínuna hjá honum, Þ. Th. skrifar svo í minningargrein um Skúla:

Er Skúli Árnason var kominn á efri ár tók hann að kenna latínu hér í bænum í einkatímum. Sem fræðari átti hann þannig eftir að vinna mikið starf, sem hann stundaði allt til hins síðasta.

Að því er ég hef heyrt, var tilviljun ein, sem réði því að hann gerðist þannig vinsæll fræðari og í rauninni uppalandi ungs fólks. Hann hafði ekki í huga í fyrstu að stunda slíka kennslu að neinu ráði. En eftir að þeir fyrstu höfðu gengið í tíma til hans varð ekki hjá því komizt að skriðan kæmi yfir, nemendahópurinn jókst og allir höfðu sömu sögu að segja af hinni frábæru kennslu Skúla.

Hjá honum hófust, er ég las utanskóla einn vetur, fyrstu kynni mín af hinu klassíska gullaldarmáli og þó unglingsæðið vanrækti margt, gat ég þó ekki komizt hjá því að læra latínu vel undir handleiðslu hans og svo mun vera reynsla annarra.

Það sem gerði kennslu Skúla sérstaka var hinn mikli áhugi og beinlínis ást, sem hann felldi við þessa fornu tungu. Það hlaut að hrífa hvern nemanda hans. Og þó var e.t.v. eitt enn sem hafði hvað mesta þýðingu, þegar glímt var við orðmyndir latínunnar, að Skúli varð einhvernveginn, þrátt fyrir mörgu árin sem hann hafði lifað, alltaf eins ungur í anda og nemandinn sem sat hjá honum. Þetta virtist mér mesti leyndardómurinn við kennslu hans. Fyrir þetta þakka ég honum, því að fyrir þetta gátum við orðið eins og mestu mátar. Mér finnst eins og ég sé að kveðja einhvern jafnaldra minn. Þ. Th.

Skúli lést þann 17. september, 1954, rétt að verða níræður.

Maðurinn.

Skúli tók við starfi héraðslæknis í Grímsneshéraði af Magnúsi Ásgeirssyni, en á hans tíma var héraðið svokallað aukalæknishérað, innan Árnessýslu, en með nýjum lögum varð það fullgilt læknishérað.

Það vildi þannig til að hálflenda Skálholts, austurbærinn losnaði einmitt þetta ár, þegar Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir tóku sig upp og fluttu að Gröf í Laugardal.

Óskar Einarsson, eftirmaður Skúla í Grímsneshéraði, skrifaði minningargrein um hann:

Hann var lágur maður vexti og grannholda, ljós yfirlitum með mikið enni og svip, sem var góðlegur og gáfulegur í senn. Hann var mjög alúðlegur í viðmóti, yfirlætislaus með afbrigðum og hlédrægur og því stundum varla metinn svo sem efni stóðu til.

Þar, sem eldri og yngri læknar mætast, vill oft á skorta, að gagnkvæmur skilningur og góðvild ríki í sambúðinni. Það var því með nokkurri eftirvæntingu, að ég heímsótti þennan forgengil minn fyrsta sinni á heimili hans í Skálholti. En viðtökur þær, sem ég fékk hjá þessum látna vini mínum og öllu heimili hans, munu mér seint úr minni ganga, heldur jafnan ljóma sem einn fegursti sólskinsbletturinn í lífi mínu. Það var rétt eins og ég væri að taka við störfum af góðum föður, en ekki vandalausum manni, sem ég hafði aldrei áður augum litið.

Síðar sá ég, að annarrar framkomu hefði ég ekki þurft að vænta af hans hálfu. Starf hans var ætíð að milda og græða, hvar sem hann fór og hvað sem hann tók sér fyrir hendur. Hann reyndi alla ævi að hlynna að öllu, sem lífsanda dró, hvort heldur það var maður eða málleysingi eða lítið gróandi strá á vegi hans. Hann var framúrskarandi skyldurækinn læknir og vel að sér ger, enda ástsæll mjög af héraðsbúum.

Þótt hann væri jafnan með allan hugann við störf sín, átti hann það til að lýsa upp gráan hversdagsleikann með græskulausum gamansögum sem á loft komust og voru með réttu eða röngu til hans raktar.

Enda þótt Skúli læknir væri ágætur embættismaður, var mér vel kunnugt um, að allra helzt kaus hann að búa búi sínu í kyrrð og næði. Hann var bóndi af lífi og sál. Vel ræktuð tún og sællegt búfé glöddu hug hans og hjarta. Hann hélt Skálholtsstað með rausn og prýði og naut þess að kalla á styggar sauðkindur með gælunöfnum og láta þær éta tuggu úr lófa sér. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, hélt hann þeim sið, meðan kraftar entust, að rísa snemma úr rekkju og rækta grýttan blett utan bæjar. Þar undi hann sér marga stund við að hjálpa grænum grösum til að vaxa og þróast.

Meðan ég dvaldist í Laugarási, hittumst við Skúli læknir oft. Hann studdi mig ávallt með ráðum og dáð, bæði við læknisstörf og búskap. Við allar meiriháttar læknisaðgerðir hjálpaði hann mér. Eitt sinn kvaddi hann mig til aðstoðar, þegar ein af ám hans gat ekki fætt hjálparlaust. Kærleiksríkari umhyggju hefði ekki verið hægt að sýna konu í barnsnauð. Ég mun alla ævi minnast Skúla læknis með orðum Jóns biskups Ögmundssonar um Ísleif biskup og bónda í Skálholti: „Þá kemur mér hann jafnan í hug, er ég heyri góðs manns getið".

Líf læknis í Grímsneshéraði á tíma fyrstu læknanna tók á, enda héraðið víðfeðmt og erfitt yfirferðar, aðallega vegna ánna sem kljúfa það. Í minningargrein um Sigurð, elsta barn Skúla, sem lést 1987, er vikið að þessu:

..... Ekki fann hann síður til ábyrgðar gagnvart föður sínum sem á þessum tíma gegndi erfiðu starfi héraðslæknis og bónda í uppsveitum Árnessýslu og síðar Grímsneshéraði með aðsetri í Skálholti. Var Skúli læknir á sífelldum ferðalögum vegna sjúkravitjana og urðu fjarvistir hans og heilsuleysi þungur baggi á ungum herðum elsta sonarins.

Læknirinn

Það þarf nú ekki að draga í efa, að störf læknis í þessu héraði, eins og reyndar öðum, í upphafi tuttugustu aldar, hafi verið með talsvert öðrum brag, en við þekkjum í nútímanum. Fólk veiktist þá eins og nú, fólk fæddist og dó, það hefur ekki breyst. Möguleikar læknisins til að koma til aðstoðar, voru hinsvegar talsvert fátæklegri, eða fábreyttari.

Nokkur viðfangsefni

Skúli og hans verk koma við sögu hér og þar í skýrslum og blöðum og hér er tæpt á sumu því sem þar er að finna.

Í Stjórnartíðindum 1897, þegar Skúli var afleysingalæknir í Árnessýslu er tilgreint, að í héraðinu hafi 40 manns sýkst taugaveiki.

Í landshagsskýrslum sem gefnar voru út 1899, er að finna skýrslu um heilbrigði manna. Skúli Árnason gegndi læknisstörfum í Flateyjarhéraði 1898 og þar er þetta haft eftir honum í þessari skýrslu:

Kláði (Scabies) tilfærður hjá öllum læknum. Skúli Árnason segir svo: „Kláði er hjer á Snæfellsnesinu sannkölluð landplága. Eigi er hægt að segja, hve margir hafi haft þennan kvilla, því víða hafa allir haft hann á heimilinu. Jeg hefi gjört allt, sem jeg hefi getað, til að útrýma honum, en hann kemur jafnharðan aptur, enda ganga menn hjer með hann svo árum skiptir, án þess að fá lækning á honum“. (Miður fögur lýsing).

Skúla bregður einnig fyrir þar sem fjallað er um fæðingar í skýrslunni:

Legkakan hefur legið fyrir 5 sinnum; 2svar kom það fyrir Guðm. Hannesson, einu sinni fyrir Skúla Árnason og 1 sinni fyrir Júlíus Halldórsson og 1 sinni fyrir Sig. Pálsson.

Skúli Árnason segir svo: „Konan hafði alið barn áður; fylgjan lá fyrir nokkru af legopinu og talsverð blóðlát og konan að fram komin. Jeg tók barnið með töng. Hvorttveggja lifði. Konan lá í 5 vikur, og komst til góðrar heilsu“.

Í skýrslu fyrir árið 1900, en þá var Skúli kominn til starfa í Grímsneshéraði, er þetta að finna:

Tvíburafæðing kom fyrir Kr. Kristjánsson, Skúla Árnason, Pál Blöndal og Guðm. Scheving. Kristján varð að taka síðari tvíburann með töngum (sóttleysi). Skúli varð að snúa síðari burðinum og draga hann út (vegna blóðláta).

Í Lögréttu árið 1907 er greint frá miltisbrandi í Reykjanesi í Grímsnesi og að hann hafi drepið þar 5 hross og einn hund. Síðan segir: „Síðan hefur veikin ekki gert vart við sig, enda hefur hjeraðslæknir Skúli Árnason gert öflugar ráðstafanir til að stöðva hana“.

Það sama ár skoraði Skúli á sýslunefnd að beina áskorun til þingið „að láta ein lög ganga um allt land um útrýmingu bandorma í hundum, en nefndinni þótti ekki ástæða til þess að fara fram á það eins og nú stendur“.

Spítalamálið

Það var einnig árið 1907 að Skúli varpaði fram þeirri hugmynd við sýslunefnd, að stofnaður yrði spítali á Eyrarbakka. Nefndin viðurkenndi þörfina á spítala en treysti sér ekki til að sinna erindinu fyrr en frekari gögn lægju fyrir. Í þessu augnamiði valdi menn í nefnd til að vinna málið áfram: „Í nefndina voru kosnir báðir héraðslæknar sýslunnar, núverandi nefndarmaður Eyrarbakkahéraðs, séra Einar Pálsson og séra Gísli Skúlason“.

Árið eftir var „Spítalamálið“ aftur á dagskrá: „Nefnd sú, sem í fyrra var kosin til þess að undirbúa mál um stofnun spítala fyrir Suðurlandsundirlendið, lagði fram ítarlegt álit þar að lútandi, ásamt álitskjala um málið frá landlækninum. Eftir nokkrar umræður varð það niðurstaðan, að oddvita var falið, svo framarlega sem Rangárvallasýsla yrði með um stofnun slíks spítala, að útvega teikningu á spítalahúsinu með þeirri stærð sem nefndarálitið gjörði ráð fyrir og áætlun um kostnaðinn, og jafnframt ef til kemur, í sameiningu við oddvita Rangárvallasýslunefndar, að leita styrks hjá alþingi til þannig lagaðrar spítalastofnunar“.

Málaferli

Landsréttardómur Nr. 45/1901: “Skúli Árnason gegn Birni Jónssyni.
Dómur: Mál þetta höfðaði í héraði Skúli Árnason, héraðslæknir í Grímsnesslæknishéraði, gegn Birni ritstjóra Jónssyni út af ummælum um hann í blaðinu Ísafold, er hann taldi meiðandi fyrir sig, og var málið dæmt fyrir bæjarþingi Reykjavíkur …. með þeim úrslitum, að Björn ritstjóri Jónsson var dæmdur sýkn af kærum og kröfum Skúla héraðslæknis Árnasonar og málskostnaður látinn falla niður”
.

Ritstjóri Ísafoldar fer síðan yfir þetta mál í kjölfar dómsins og fullyrðir að landshöfðinginn, sem þá var Magnús Stephensen, hafi látið Skúla lækni höfða málið. Svona er greinin í Ísafold:

Ný gjafsóknar-sneypuför.

Landsyfirréttur dæmdi 3. þ. m. mál það, er héraðslæknirinn í Grímsneshéraði, Skúli Árnason, hafði verið látinn höfða gegn ritstjóra Ísafoldar í fyrra vetur út af ofurmeinhægri fréttaklausu í blaðinu haustið áður um skarlatssóttina í Árnessýslu og afskifti læknisins af henni — með gjafsókn og skipaðan málfærslumann ókeypis, náttúrlega, ekki einungis fyrir undirrétti, heldur og yfirrétti, eftir að málið hafði tapast í héraði. „Áfrýjandi hefir fengið gjafsókn fyrir báðum dómum og skipaðan málfærslumann“ stendur í yfirréttardóminum skýrum orðum; þar er því ekkert um að villast eða fyrir að þræta.

Ódæðið, sem hafa átti fyrir hönd í hári ritstj. Ísafoldar, var sú frásögn, að héraðslæknir hefði að vísu látið sóttkvía fyrir skarlatssótt á Húsatóttum á Skeiðum, „en aldrei kvað hann hafa þar komið í sumar fyr né síðar, og eftirlitið þá líklega slælegt“.

„Það er sannað í málinu“, segir yfirdómurinn, „að bóndinn á Húsatóttum sagði frá því hér í Reykjavík, þá er skarlatssótt var nýlega um garð gengin á nefndum bæ, að áfrýjandi hefði ekki komið á heimili hans fyr en sjúkling eða sjúklingum þeim, sem veikst höfðu af skarlatssóttinni, hefði verið batnað; og það er þessi sögusögn bóndans á Húsatóttum, sem Ísafold hefir haft eftir, en hefir svo bætt við þeirri ályktun, að eftirlitið (með veikinni) hafi þá líklega verið slælegt”. —

Stefndi, ritstjóri »Ísafoldar«, hefir þannig aðeins skýrt frá því, sem bóndinn á Húsatóttum hafði sagt frá, án þess með einu orði að kveða nokkurn dóm upp um, hvort það mundi á rökum bygt eða ekki, og virðist það ekki geta bakað honum lagaábyrgð; og þótt hann bætti þeirri athugasemd við, að eftirlitið mundi þá líklega hafa verið slælegt, þá virðist það ekki heldur geta sakfelt hann, þar sem hún er eðlileg ályktun, nátengd við sögusögn bóndans á Húsatóttum, og auðsjáanlega ekki rituð í neinum meiðandi tilgangi.. — Þess má geta til ánægjulegs fróðleiks, að það var sjálfur gjafsóknarveitandinn og málshöfðunarskipandinn, sem sé sjálfur landshöfðinginn, sem átti meðal annarra mikið góðan þátt í að sanna það, sem yfirdómurinn segir sannað vera í málinu, — með vitnisframburði um fyrnefnda frásögn bóndans á Húsatóttum.

Það eru og fleiri en yfirdómurinn, sem séð hafa, og sáu þegar, að umstefnd klausa var „auðsjáanlega ekki rituð í neinum meiðandi tilgangi“.

Sjálfum stefnandanum, héraðslækni þeim, er hér ræðir um, duldist það ekki. Hann lét ekki vitund til sín heyra, að hann hefði neitt við klausuna að athuga. „Vatnsins hræring“ þurfti að koma hér sunnan að. Hér var fólk, er nú sem oftar þurfti að hefna sín á Ísafold. Það leið fram undir hálft missiri, áður en honum yrði nuddað á stað til þess.

Gaman væri, að heyra minnuga og fróða menn nefna dæmi viðlíka hagnýtingar á gjafsóknarréttinum. Það er ekki litlu fyrir að gangast, að halda slíkri stofnun við með annari eins notkun hennar.

Haustið 1918

Í ritinu “Faðir minn, læknirinn”, sem var gefið út 1974, skrifaði sonur Skúla, Sigurður, um föður sinn. Þar fjallar hann um heldur erfiðan tíma hjá Skúla og fjölskyldunni, en þetta ár var Sigurður 15 ára:

Haustið 1918 gekk í garð. Það var óvenju milt, og menn áttu sér einskis ills von. Við Skálhyltingar vorum að vinna að jarðabótum í veðurblíðunni.

Dag einn birtist ferlegur skýstrókur í suðaustri. Fyrst héldum við að þetta væri óveðursský, en brátt sáu allir, að svo var eigi. Um kvöldið, þegar dimma tók, fóru að sjást eldglæringar í skýstróknum. Þóttust menn þá sjá, að hér væri um eldgos að ræða. Það var sunnar en Hekla, sem blasir við úr austri frá Skálholti. Faðir minn sagði, að nú myndi Katla vera farin að gjósa. það reyndist rétt. Snjór hafði fallið á jörð hjá okkur, skömmu áður en gosið hófst. Hann varð svartur af öskufalli daginn eftir. Ekkert tjón varð af gosinu hjá okkur, en óviðkunnanlegt myrkur fylgdi öskufallinu. Það reyndist einskonar fyrirboði annars verra. Á næsta leiti var mögnuð farsótt, sem barst frá útlöndum til Reykkjavíkur og þaðan austur um sveitir. Hún hlaut nafnið Spánska veikin og reyndist brátt svo mannskæð, að minnti á drepsóttir fyrri alda.

Auðvitað barst veikin brátt til okkar, enda læknissetur berskjaldað fyrir þvílíkum plágum. Systir mín veiktist fyrst, en varð ekki þungt haldin og komst á fætur eftir tæpa viku. Næst veiktist ég og varð ekki veikari en svo, að ég gat lesið Íslendingasögurnar mér til skemmtunar í bólinu. Uppgötvaði ég þá, hvílík heilsubót þær eru í vægum veikindum. Egilssögu las ég tvisvar og suma kafla úr henni margoft. Hafði ég orð á því við föður minn, að sagan hlyti að vera eftir Snorra Sturluson, því að þannig hefði enginn skrifað nema sá, sem skrifaði söguna af för Þórs til Útgarða-Loka. Faðir minn varð fár við og bað mig að reyna ekki að gizka á, hverjir væru höfundar Íslendingasagna. Þar hefðu verið að verki andleg stórmenni, sem hefðu verið gædd aðalsmerki sannra manna: að vera ekki að trana sér fram, heldur láta verk sín tala. Mér urðu orð hans ógleymanleg og því er þetta atvik tilfært hér, að það lýsir Skúla lækni vel.

Ég reis brátt albata úr rekkju og var um leið hrifinn úr töfraveröld fornbókmenntanna, en við blasti nöturleg alvara lífsins. Skúli læknir hafði verið í sífelldum sjúkravitjunum síðustu sólarhringana vegna sóttarinnar. Hann var sýnilega að verða örmagna af þreytu og veiktist nú hastarlega af pestinni, sem magnazt hafði, eftir því sem á leið. Hann varð brátt sárþjáður og sagði, að annað lungað í sér myndi hafa rifnað, svo að blætt hefði. Þetta reyndist rétt til getið, eins og síðar verður vikið að. Átti hann nú mjög örðugt um andardrátt. hann bað mig að afgreiða öll lyf fyrir sig, og gerði ég það. Reyndist mér það stautsamt. Menn frá sýktum heimilum stóðu nálega í biðröð hjá okkur á hverjum degi. Fyrst þurfti ég að fá hjá þeim sjúkdómslýsingar, fara síðan að sóttarsæng læknisins og spyrja hann, hvað gera skyldi, en afgreiða því næst meðulin eftir bestu getu. Að vísu voru sjúkdómslýsingarnar nokkuð samhljóða, en fleiri þörfnuðust þó lækninga en þeir, sem sýkzt höfðu af Spönsku veikinni. Gamalt fólk virtist einna ónæmast fyrir þessari farsótt. Elzta fólkið í Skálholti veiktizt a.m.k. ekki.

Dag einn kom til okkar roskin kona og kvartaði um langvinna magaveiki. Þann dag var Skúli læknir svo veikur, að við hugðum honum vart líf. Ég tók því það ráð að blanda lyf handa konunni af eigin rammleik, en auðvitað sem líkast því er ég hafði séð lækninn setja saman við svipuðum kvilla. Með það fór konan. Þegar við hittumst ári seinna, sagði hún mér, klökk af hrifningu, að lyfið hefði læknað sig af aldarfjórðungs innanslæmsku! Að svo mæltu þrýsti blessuð gamla konan kossi á kinn mér og innsiglaði með því þakklæti sitt. Þetta hefði ef til vill getað orðið örlagakoss, því að á þeirri stundu lá við, að mér fyndist ég ætti að reyna að verða læknir. Ég var þá nýorðinn gagnfræðingur og þóttist því heldur en ekki karl í krapinu. En faðir minn tók þá af skarið og sagði með miklum alvöruþunga: “Ef þú vilt verða dreplúinn og heilsulaus á 15 árum, skaltu lesa læknisfræði og verða héraðslæknir úti á landi.” - Málið var útrætt, og dyrnar að læknavísindunum lokuðust mér fyrir fullt og allt, sem einu gilti.

Spánska veikin magnaðist jafnt og þétt og varð að skæðri drepsótt. Í Reykjavík skapaðist hálfgert neyðarástnd, og voru lík þar stundum greftruð í fjöldagröfum.

Þegar við vorum að komast í öngþveiti, barst okkur kærkomin hjálp. Læknastúdent úr Háskóla Íslands var sendur austur að Skálholti okkur til bjargar. Hann hét Kjartan Ólafsson. Stóðst það á endum, að nauðsynlegustu lyf okkar voru á þrotum, er hann kom með nýjar birgðir. Skömmu síðar fór föður mínum að batna og var þá sem fargi létti af öllum.

Faðir minn varð ekki heill heilsu fyrr en sumarið eftir Spönsku veikina. Var hann m.a. ákaflega mæðinn og kenndi oft verkjar fyrir brjósti. Samt sinnti hann læknisstörfum, eins og ekkert hefði í skorizt. Dag einn á slætti var verið að reiða heima hey af Skálholtstúni. Var það bundið í bagga, eins og þá tíðkaðist. Skúli var nærstaddur, er baggi hrökk upp af klakki. Gleymdi hann þá, að hann þoldi ekki snögg viðbrögð, þreif baggann og snaraði honum til klakks. Við þessa áreynslu fékk hann ákafa hóstakviðu, og gengu upp úr honum dökkar blóðlifrar. Eftir það létti honum mjög. Kvaðst hann nú loksins hafa fengið fullan bata, en þetta blóð hefði setið þarna síðan í veikinni síðastliðinn vetur. Upp frá þessu var hann heilsugóður.

Mikilvægi sundkunnáttu

Í Dagsbrún - blaði jafnaðarmanna, birtust tvær stuttar frásagnir í mars, 1919, undir fyrirsögninni “Vottorð”. Tveir menn fjölluðu þar um mikilvægi þess að kunna að synda. Annar þeirra var einmitt Skúli læknir:

Hinn 17. janúar seinastliðinn var ég sóttur frá heimili mínu Skálholti í Biskupstungum, austur í Gnúpverjahrepp. Var þá talsverður snjór á jörðu og allar ár á ís. Um nóttina gerði afarmikla rigningu og hélst hún fram eftir næsta degi. Ég hélt þá heimleiðis og voru þá allar ár illfærar, ísinn kominn á loft og djúpt vatn með löndum. Ég komst þó slysalaust yfir þær, en þegar ég kom að ósnum fyrir austan Eiríksbakka, sá ekkert fyrir brúnni á honum, en ís sá, sem á honum var, var lyftur upp og flóð mikið beggja vegna við hann. Ég varð því að leggja á ísinn þar sem ég hugði brúna vera, en þegar ég kom út á hana, hrökk hesturinn út af henni og á hliðina. Ég varð undir hestinum og losnaði við hann, er hann greip til sunds. Ég neytti þess, að ég var syndur og hafði mig upp á yfirborðið, en átti örðugt með að koma við sundtökum vegna jaka og hringiðu, sem sogaði mig niður. Að stinga sér, til þess að komast út úr iðunni, var enginn kostur, því þá hefði ég farið undir ísinn, og varð ég því að reyna að komast út úr henni án þess. Ég átti auk þess mjög erfitt vegna þess hve mikið ég var klæddur. Yzt klæða var ég í síðri kápu og þar innan undir í 2 jökkum auk vestis og vanalegra nærfata. Ég var í tvennum buxum og klofháum skinnsokkum með tvenna vetlinga á höndum. Skinnsokkarnir gerðu mér erfiðast fyrir, með þvi að þeir fyltust af vatni, og átti ég því mjög erfitt að neyta fótanna.

Hve lengi ég var á sundi, veit ég ekki, en fylgdarmaður minn hélt að það hefði verið 20-30 mínútur.

Það eitt er ég viss um, að enginn ósyndur maður hefði bjargast og ég held líka, að tæplega hefði verið hægt að bjarga þó góður sundmaður hefði verið við vegna jakanna og hringiðunnar.

Víst er um það, að ég hefði druknað þarna ef ég hefði ekki verið syndur.

Þess skal getið að ég hefi lítið æft sund í 16 ár. Ég lærði sund af Páli sundkennara Erlingssyni 1894 og stundaði hann kensluna með mestu alúð og samvizkusemi og lagði ríkt á við mig að æfa mig eftir að ég hætti að njóta kenslu hans og það gerði ég þegar ég gat.
Skálholti, 3. júlí 1915 Skúli Árnason.

Bóndinn

Það var árið 1906 sem Þorleifur H Bjarnason átt leið í Skálholt og skrifaði í kjölfarið einskonar úttekt á staðnum í Þjóðólfur, undir fyrirsögninni “Af sjónarhólum”. ÞAr segir Þorleifur m.a. :

Nú gefur að líta fátt eitt af fornri vegsemd staðarins. Ætla mætti að þar væru rústir einhverra stórhýsa og þolanlegir vegir heim að staðnum, en það er öðru nær að svo sé. Nokkrar grasi grónar tóptir og fornar hleðslur eru einu vegsummerki þess, að hér hafi fyrrum verið höfuðból og höfðingjasetur.

Skálholt er syðsti bær í Biskupstungum og um 60 hundr. að f.m. að dýrleika. Bærinn ber allhátt yfir sléttlendið fyrir neðan hann, sem Brúará rennur um, er hún fellur í Hvítá. Að bænum liggja víðast hvar melar og illfærir mýrarflákar. Landið í kring er hvorki fagurt né svipmikið. Þó er útsuður-útsýnin allfögur eptir Suðurlandsundirlendinu og alla leið til sjávar; en Hvítá bryddir land staðarins hvítum og breiðum borða, er blikar og titrar í hádegissólinni.

Í Skálholti er tvíbýli og jörðin sem stendur vel setin. Skúli læknir Árnason hefur búið þar nokkur ár. Hann er ötull læknir og dugandi búmaður, eins og hann á kyn til. Hann lætur sér annt um að varðveita þær litlu menjar, sem enn eru til um fornan veg staðarins. Þannig hefur hann látið taka stein úr túngarði og hirða, er mun vera legsteinn Odds biskups Einarssonar. Annan stein fyrir utan kirkjudyr, er var orðinn máður mjög, hefur hann látið repta yfir o. s. frv.

….

Þar sem skólinn var til forna hefur verið reist allmikil hlaða. Skúli læknir sagði mér, að gólfskánin í skólanum hefði verið 1 ½ alin þykkt moldarlag, er skófla gekk vart í. Ekkert fémætt var þar að finna, aðeins nokkrir krítpípuhausar. Ekki alls fyrir löngu ætlaði Skúli læknir að láta gera brunn á hlaðinu, komst 5 ½ alin niður, en hitti þar fyrir blágrýtisklöpp, og á henni lá svínshaus og sólar úr stígvélum. Þá er nú flest allt upptalið, sem ég kann að segja af fornum menjum og vegsummerkjum í Skálholti. Óskandi væri að Skálholt bæri áður en langt um líður aptur bar sitt sem höfuðból. Ég skýt því til búfræðinga vorra, hvort ekki væri gerlegt að reisa þar búnaðarskóla fyrir Suðurland og fyrirmyndarbú, er samvinnufélagsskapur vor tæki að aukast og eflast með bættum samgöngum. Mætti þá svo fara, að Skálholt yrði landi voru til ekki minna gagns og sóma en það var, er það stóð með mestum blóma.

Í grein sinni um föður sinn í ritinu “Faðir minn læknirinn” fjallar Sigurður nokkuð um búskaparhliðina í Skálholti.

Til að framfleyta sér og sínum urðu foreldrar mínir að byrja búskap sem leiguliðar á Shálfu Skálholtinu, eins og áður er getið. Jörðin var þá eign Hannesar Thorsteinssonar lögfræðings, síðar bankastjóra í Reykjavík. Auðvitað gat héraðslæknir í stóru og örðugu héraði lítt sinnt búskapnum sjálfur, vegna sífelldra ferðalaga. Kom það starf því mjög í hlut móður minnar, sem bæði var stjórnsöm og vinsæl. Það varð foreldrum mínum mikið happ, hve hjúasæl þau reyndust. Til þeirra valdist úrvalsfólk, sem margt vann þeim árum saman af engu minni trúmennsku en hefði það átt búið sjálft.

Enda þótt það falli utan takmarka þessa greinarkorns að geta þessa fólks, verð ég að nefna þrjá af ráðsmönnum föður míns, Þá Guðna Þórarinsson, Narfa Gíslason og Jón Jónsson, kenndan við Múla í Biskupstungum. Guðni var faðir Sigurðar alþm. og þeirra systkina. Hann var um árabil hjá okkur ásamt Sunnefu Bjarnadóttur, konu sinni, sem var náskyld móður minni. Narfi hafði áður búið í Hverakoti í Grímsnesi og mist þar konu sína. Hann var annálaður kraftamaður, en svo hógvær og yfirlætislaus, að hann vildi aldrei á aflraunir sínar minnast; þær voru þó alkunnar í Árnessýslu og víðar. Jón í Múla var mjög illa farinn af liðagigt og haltraði við staf. Aldrei heyrðist hann samt kvarta. hann var skáldmæltur og gat ort bráðfyndnar stökur.

Þessir afbragðsmenn og raunar flest hjú foreldra minna áttu mikinn þátt í því, að bú þeirra óx brátt. Faðir minn fylgdist með búskapnum eftir mætti og hafði brennandi áhuga á að bæta jörðina. Hóf hann því brátt jarðabætur í Skálholti. Þegar hann kom þangað, gaf þýft vesturbæjartúnið af sér 80 hesta af töðu, eða um það bil tvö kýrfóður. Lét faðir minn stækka það verulega með því að þurrka og rækta mýri, girti það með gaddavír og sléttaði árlega mikið. Varð töðufengur hans smám saman 400 hestar, ef ég man rétt. Mestallt túnið var sléttað með þeirri aðferð, að skorið var offan af þýfðum skákum með ristuspaða, pælt með stunguskóflu, mildað með gaffli, borinn húsdýraáburður á flögin og þau loks tyrfð með þökunum, sem skornar höfðu verið ofan af þýfðum skákunum, oft haustið áður. Þó minnist ég þess, að fenginn var maður til að plægja og herfa allstóran þýfðan reit í Neðratúni. Beitt var hesti fyrir plóg og herfi, en síðan var grasfræði sáð í flagið. Þóttu þetta nýstárlegar jarðabætur í byrjun 20. aldar.

Skálholt var í þá daga mjög fólksfrek jörð. Aðalútengjarnar voru Mosarnir svonefndu vestur við Brúará, áveituland frá náttúrunnar hendi. Ef þetta starengi spratt vel, var gott að heyja þar í þurrkatíð, en í rosa fór allt á flot og grassprettan brást, ef þurrkasamt var á vorin. Varð heyskaparfólkið að hafast við í tjöldum á Mosunum og eins í Skálholtstungu, sem er enn lengra frá bænum. Var það kallað að liggja frá. Frálegan var ekki skemmri en 6 vikur. Hún gat verið skemmtileg í góðri tíð. Öllum útengjum í Skálholti var skipt í skákir, og léetu bændurnir tveir slá þær á víxl, sitt árið hvor. Allt hey var flutt í hlöður á hestum og veitti ekki af að hafa 15-20 hesta í lest, ef flytja átti heyið heim til bæjar, hvað þá alla leið í fjárhúshlöðu nyrzt í landareign Skálholts. Bændurnir reistu ærhús og hlöður skammt frá Þorlákshver og var vitanlega m,iklu skemmra að flytja heyin þangað af Mosunum og úr Tungunni. Á næstu bæjum voru engjarnar yfirleitt út úr túninu, og voru þar hæg heimatökin, hvað heyskap snerti. Nú er orðin gerbreyting á heyskaparháttum hér á landi, sem betur fer. Hjakkið með orfi og ljá, rakstur, snúningur, drýling, sæting með hrífu og binding heys í óræktuðu, oft blaustu og illa sprottnu landi, eru yfirleitt úr sögunni. Slátturinn, sem áður var 8 - 10 vikna þrældómur, þótt skemmtilegur gæti verið í góðri tíð, er nú leikur einn með stórvirkum vélum á tækniöld.

Skúli læknir keypti, að ég held, fyrstu sláttuvélina, sem kom í Biskupstungur, til þess að slá með henni Mosana. Vélin var þung og Mosarnir gljúpir. Talið var, að hún slægi á við 4 sæmilega sláttumenn, þegar bezt gekk. Því miður reyndist ekki unnt að slá túnin með vélinni. Til þess voru þau ekki nógu slétt. Þá tíðkuðust þar svonenfdar beðasléttur með lautum á milli. Þær voru greiðfærar sláttumanni með orf og ljá, en ekki þungu sláttuvélinni okkar. Mig minnir, að faðir minn léði sambýlismanni sínum hana á skákir hans á Mosunum, til þess að sem mest not yrðu að henni.

Frá því heimstyrjöldin fyrri var skollin á 1914, fór að verða örðugra að fá fólk til starfa í sveitunum, a.m.k. sunnan lands. Á fólksfrekri jörð eins og Skálholti reyndist þetta mjög bagalegt.

Eftir að faðir minn lét af héraðslæknisembættinu 1921, hugðist hann snúa sér einvörðungu að búskapnum, en sá brátt, að það myndi verða sér ofviða. Afurðir bænda hríðféllu nokkru síðar í verði og vélvæðing landbúnaðarins var enn ókomin til. Vorið 1927 seldi faðir minn sambýlismanni sínum, Jörundi alþm. Brynjólfssyni, íbúðarhús sitt, öll útihús og mestallt kvikfé sitt, en búsáhöld voru seld á uppboði. Fluttist hann síðan alfarinn til Reykjavíkur með fjölskyldu sína eftir að hafa átt heima í Skálholti í 27 ár og 27 daga.

Böðvar Magnússon á Laugarvatni skrifaði í Tímann, um bændur í Skálholti 1889-1955 í þætti sem sem kallaðist orðið er frjálst. Þar fer hann fögrum orðum um búskapinn á tíma Skúla, en ætli sé ekki best að gefa honum orðið, en fyrst kemur hann að tilefni greinarinnar:

Enginn, sem fylgzt hefir nokkuð með því, sem um jörðina hefir verið sagt og ritað, getur fundið annað út en jörðin hafi alltaf verið í sífelldri niðurníðslu síðan biskupsstóllinn var fluttur þaðan 1785 og ekki aðrir búið þar en erkibúskussar. Þetta hefir sí og æ verið sungið og kveðið, svo að jafnvel nánustu nágrannar við Skálholt virðast vera farnir að trúa þessu þótt þeir viti þó allt annað – eða að minnsta kosti verður ekki vart við annað , - hvað þá um hina alla, víðs vegar um land, sem ekkert þekkja þarna til, og ekkert vita um búendur í Skálholti annað en það sem blöð og hver og einn hefur eftir öðrum um þennan stað.

Síðan fjallar Böðvar um nokkra bændur á 19. öld í Skálholti, áður en hann heldur áfram:

Svo búa þar upp úr aldamótunum Skúli Árnason læknir og kona hans, Sigríður Sigurðardóttir og Jón Bergsson, föðurbróðir Lárusar á Kirkjubæjarklaustri. — Fluttu þau hjón að Skálholti frá Hólmum í Landeyjum með 8 börn uppkomin, 4 syni og 4 dætur. Var þetta óvanagóður vinnukraftur, enda bjuggu þessir bændur báðir, Skúli og Jón, blómlegustu búunum sem til voru í sveitinni. Byggðu þeir sína hlöðuna hvor með 1000 hesta, sem þá var óvanalegt, og sléttuðu í túni, hvor um sig, eina dagsláttu á ári, sem líka var með því almesta, sem gert var á þeim árum, með skóflunni einni, og var það meira verk en þótt nú væru tekna 10-20 dagsláttur með þeim verkfærum sem nú eru notuð.

Einnig byggðu þeir önnur útihús og heyhlöður yfir allan sinn fénað, betri en þá var títt.

Íbúðarhús það, sem enn stendur, byggði Guðmundur Erlendsson fyrir aldamót og var það fyrsta hús af því tagi sem reist var í Biskupstungum.

Skúli læknir var annálaður ágætis búhöldur á sinni tíð, múraður í heyjum á hverju sem gekk og átti allra manna fallegastar skepnur og gagnsamar. Munu ekki hafa verið margir góðbændurnir hér á landi betri í þá tíð en hann.

Þegar þess er gætt, að allir þessir bændur voru leiguliðar og vitað er öllum skynbærum mönnum, hvað fráleitt var að geta haft út úr nokkrum jarðeiganda nokkurn styrk til jarðabóta á þessum árum. er ekki að ætlast til meira með réttu af leiguliðum, en það, sem þessir úrvalsbúmenn gerðu í Skálholti síðustu 70 árin. Þessir menn, sem ég hef hér talið upp, voru allir afbragðs búhöldar, og eiga ekki neitt skylt við fortíðar eða nútíðar búskussa. Þessa hefi ég viljað geta, því fremur, sem ég hefi þekkt alla þessa menn að góðu einu.


Samgöngumál

Skúli fór fljótt að berjast fyrir bættum samgöngum innan héraðs og í því efni hlutu lferjurnar að koma til skoðunar. Það var um að ræða þrjár lögferjur: Iðuferju og Auðsholtsferju á Hvítá og Reykjanesferju á Brúará. Í sérstökum þætti er fjallað um ferjurnar, en augljóslega skipti það lækninn miklu máli að ferjunum væri vel sinnt.

Á fyrsta ári sínu hans, var tekin fyrir tillaga á fundi sýslunefndar Árnessýslu, sem hafði yfirumsjón með ferjunum í sýslunni. Bókun í gjörðabók sýslunefndarinnar er svona:

Tillaga frá Skúla lækni Árnasyni um að taka ferjuna á Iðu af bændunum Sigmundi og Jóni, sökum þess hvað þeir hafa stundað ferjuna illa, en fela hana þriðja ábúandanum á Iðu, Runólfi Bjarnasyni, sem er reyndur að dugnaði, gat sýslunefnd ekki tekið til greina að svo komnu, eða ekki fyr en hin nýju ferjulög koma í gildi, en lét í ljós að hún myndi gjöra þetta síðar, svo framarlega sem ekki yrðu ráðnar verulegar bætur á misfellum þeim sem yfir er kvartað.

Tveim árum síðar lá fyrir beiðni frá Skúla um að komið yrði upp ferjulúðrum á ferjustöðunum. Niðurstaða nefndarnnar var: „.., gat sýslunefndin ekki sint [henni] að svo stöddu, sökum þess að henni er ekki ljós nytsemi þeirra, né hvernig ætti að nota þá; svo vantaði og upplýsingar um kostnaðinn“.

Til þess að gefa hugmynd um hvernig ferðalög um uppsveitirnar gátu verið á fyrstu áratugum síðustu aldar, er hér frásögn Gests Oddleifssonar frá Langholtskoti í Hrunamannahreppi, en hann þurfti að fara með pappíra heiman frá sér, að Haga í Grímsnesi, haustið 1913, en þá var Skúli Árnason læknir í héraðinu og því ferðalög hans vísast ekki ólík.

Frásögn Gests birtist í Tímanum 22. mars, 1964 og kemur hér:

Fjallkonan 08 12 1903

Aft jarðtabótum er unnið jafnt og mikið í þessum sveitum. Eftir síðustu jarðabótaskýrslum búnaðarfélaganna hefir búnaðarfélag Grímsnesinga, og Holtamanna flest dagsverk.

Mestir jarðabótamenn eftir seinustu skýrslunum eru þessir: Þorvaldur Björnsson á Þorvaldseyri með 212 dagsv., Guðm. ísleifsson á Háeyri með 211 dagsv., Eggert Páisson prestur á Breiðabólstað með 170 dagsv., Jóhannes Einarsson á Ormsstöðum með 146 dagsv., Hróbjartur Hannesson á Grafarbakka með 133 dagsv., Skúli Árnason læknir í Skálholti með 120 dagsv., Sigurður Ólafsson sýslumaður í Kaldaðarnesi með 114 dagsv. o. s. frv.

Ísafold 03 01 1905 auglýsing

Hálflenda Skalholts , sú er hr. héraðlæknir Skúli Árnason nú býr á, verður laus til ábúðar í fardögum 1905 að öllu eða mestu, þar sem héraðslækmrinn mun verða þar að áskildum nokkrum jarðnytjum. f>eir er óska ábúðar geri svo vel að 8núa sér fyrBt til héraðslæknisins tiJ samkomulags, og þar eftir til mín sem eiganda jarðarinnar. Eeykjavík 31. des. 1903. A. Thorsteinsson .