Styrkur oddvitanefndar

Þegar ég hóf vinnu við þetta verkefni fyrir 10 árum, gerði ég mér ekki grein fyrir hvar það myndi enda, eða hve langan tíma það kynni að taka. Fljótlega varð mér ljóst, að Laugarás væri flóknara fyrirbæri en svo, að hægt væri að afgreiða það með því að fjalla bara um húsin og íbúana, eins og upphafleg áætlun hljóðaði upp á.
Til þess að reyna að átta mig á hvort ég væri hugsanlega að gera eitthvað sem skipti máli, sótti ég um styrki hjá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, sem sá ástæðu til að verða við umsóknum frá mér og það efldi mig í því að halda áfram ótrauður.
Síðla árs 2018 var mér boðið til fundar við oddvitanefndina þar sem hún lýsti áhuga á þessu verki, ekki síst vegna þess að nefndin hafði áhuga á að skráð yrði saga hennar. Hún tjáði sig tilbúna til að styrkja verkefnið með fjárframlagi. Ég afþakkaði það hálfpartinn, vegna þess að mér fannst að með því yrði ég með einhverjum hætti skuldbundinn til að vinna þetta með einhverjum ákveðnum hætti. Ég hef hinsvegar alla tíð unnið þetta á mínum forsendum og þannig vil ég hafa það.
Það var svo í fyrri hluta mars sem mér barst tölvupóstur frá formanni nefndarinnar, svohljóðandi:

Eftirfarandi var bókað á fundi oddvitanefndar uppsveita Árnessýlu þann 3. mars síðastliðinn:

Saga nefndarinnar og Laugaráss – vefurinn www.laugaras.is.

Á fundi oddvitanefndar í október 2018 lýsti nefndin yfir áhuga á að skoða nánar sögu og verkefni nefndarinnar og var rætt við Pál M. Skúlason varðandi verkefnið. Hann hefur nú samtvinnað sögu nefndarinnar við sögu Laugarás á vefsíðunni www.laugaras.is og má þar finna mikið af fróðlegum upplýsingum. Nefndin þakkar Páli fyrir hans góða starf og ákveður að styrkja vefinn www.laugaras.is um 500.000.- krónur.

Ég þáði styrkinn og vil hér bera fram þakklæti mitt til oddvitanefndarinnar og lít svo á, að hún telji vinnu mína að verkinu skipta máli. Auk þess er því ekki að neita, að þessi vinna hefur haft ýmsan kostnað í för með sér, svo sem vegna hýsinga, ferða, tölvubúnaðar og aðstoðar við uppsetningu og viðhald á vefnum. Ég hef ekki gert ráð fyrir því, að hafa af þessu tekjur, en það er sannarlega gott að þurfa að greiða minna úr eigin vasa en orðið hefði án þessa.

Takk fyrir mig.