Kalt vatn í skiptum fyrir heitt

Allt hófst þetta með því að Sláturfélag Suðurlands ákvað að setja nýtt sláturhús niður í Laugarási. Það var þá engin sameiginleg hitaveita eða kaldavatnsveita. Þann 10. september, 1960 sátu þrír fulltrúar SS, þeir Jón H. Bergs forstjóri, Árni Ögmundsson í Galtafelli og Guðmundur Guðmundsson á Efri-Brú, fund með oddvitanefndinni, til að falast efti landi undir fyrirhugað sláturhús.

Samþykkt var að láta SS í té land sem um er rætt, allt að 3 ha að stærð. Jafnframt var samþykkt að láta í té heitt vatn eftir þörfum, samkv. mæli. Samþykkt var að fela formanni, Jóni Eiríkssyni, að gangast fyrir stofnun vatnsveitufélags fyrir Laugaráshverfi.

Ásgeir L. Jónsson
(1894-1974)

Á fundi nefndarinnar ári síðar kom fram að Ásgeir L. Jónsson vatnsvirkjaráðunautur “hefði komið og mælt fyrir vatnsveitu sunnan úr Vörðufelli og væri skýrsla frá honum væntanleg nú í haust. Formanni falið að vinna áfram að framgangi þess máls.”

Svo leið eitt ár og á fundi oddvitanefndar í janúar, 1962 var þetta bókað:

Þar sem komið hefur í ljós við athugun á vatnsveitu úr Vörðufelli í Laugaráshverfi, að ýmsir örðugleikar eru á fyrir Laugarásnefndina að koma á vatnsveitufélagi til þess að hrinda verkinu í framkvæmd, m.a. vegna þess að veitan þarf að vera  við vöxt með tilliti til aukinnar byggðar og sérstaklega uppbyggð vegna mikillar vatnsnotkunar sláturhúss um stuttan tíma og þá hætta á að hún nyti ekki styrks frá ríkissjóði nema að nokkru leyti.
Þá skorar læknisbústaðarnefnd Laugaráshéraðs á hreppsnefnd Biskupstungnahrepps að taka að sér forgöngu um stofnun vatnsveitufélags.

Þegar þarna var komið var föst búseta á 9 bæjum í Laugarási og garðyrkjustöðvarnar voru þrjár, í Hveratúni, á Sólveigarstöðum og Laugargerði. Að vísu komu Páll Dungal og Hólmfríður Sigurðardóttir og stofnuðu Ásholt um þetta leyti, en þau voru ekki með gróðurhúsarækktun.

Þar með var boltinn kominn til úrlausnar hjá hreppsnefnd Biskupstungnahrepps og á fundi sínum í nóvember sama ár, ítrekaði oddvitanefndin áskorun sína til Biskupstungnahrepps um að hafa forgöngu í málinu. Þetta tók hreppurinn að sér og í upphafi árs, 1964 greindi Skúli Gunnlaugsson, oddviti, frá því að það “væri ráðgert að leiða vatn frá Vörðufelli og væri fengið leyfi fyrir nægilegu vatni þar, gegn ½ l af heitu vatni í Laugarási.
Lausleg kostnaðaráætlun lægi fyrir og næmi kr 575.000 auk rafmagnsheimtaugar.”
Mánuði síðar, 9. febrúar, var svo samþykkt í oddvitanefndinni þessi ályktun:
“Stjórnarnefnd Laugaráshéraðs fellst á, fyrir sitt leyti, að eigendur jarðarinnar Iðu, fái allt að ½ sek/l frá væntanlegri hitaveitu Laugaráss, eftir þeim reglum sem ákveðnar verða í reglugerð og gjaldskrá hitaveitunnar, þó þannig, að ekki verði krafist gjalds fyrir hitaréttindi, enda fái vatnsveitan fullan rétt á köldu vatni úr Vörðufelli án frekari greiðslu.”

að blanda saman heitu vatni frá Hitaveitu Laugaráss, í skiptum fyrir kalt vatn frá Vatnsveitufélagi Laugaráss, gæti orðið tilefni til einhverra árekstra,

Svo var Vatnsveitufélag Laugaráss stofnað um sumarið og ekki búist við öðru en þetta gengi allt eftir. Það mátti hinsvegar vera ljóst, að með því að blanda saman heitu vatni frá Hitaveitu Laugaráss, í skiptum fyrir kalt vatn frá Vatnsveitufélagi Laugaráss, gæti orðið tilefni til einhverra árekstra, sem raunin varð. Oddvitanefndin hafði hitaveituna á sinni könnu, en Biskupstungnahreppur og aðrir félagar réðu vatnsveitufélaginu.

Iðumálið

Kortið sýnir lögnina frá Stekkatúni í dæluhús vatnsveitufélagsins, í stórum dráttum. Hringirnir gefa til kynna hvar Iða 1 og 2 eru, en mörk jarðahlutanna eru ekki sýnd.

Á fundi oddvitanefndar í september 1964 var lesið upp bréf frá eigendum Iðu 1 og Iðu 2, dags 1. sept., þar sem nýrra skilyrða var krafist. Oddvitanefndin áréttaði samþykkt sína frá 9. febrúar “um að láta eigendur Iðu fá ½ sek/l af heitu vatni frá Hitaveitu Laugaráss og að fella niður gjald fyrir vatnsréttindi, enda taki þeir við vatninu við greiningu í læknisbústað og gangist undir ákvæði reglugerðar og gjaldskrár hitaveitunnar, gegn því að Vatnsveita Laugarásshverfis fái, án frekara gjalds, réttindi til töku vatns, eftir þörfum, úr Vörðufelli.
Náist ekki samkomulag á þessum grundvelli, verði vatnsréttindin metin skv. landslögum.”

Eigendur Iðu fóru síðan fram á að fá leiðslu fyrir heitt vatn vestur að Iðubrú. Samþykkt var að verða við þeim tilmælum, að því tilskyldu að vatnveita Laugaráss fengi kalt vatn í Vörðufelli eftir þörfum.”

Ekki náðust samningar við eigendur Iðu og 1967 var upplýst á oddvitafundi, að “Iðumenn neituðu að borga venjuleg hitaveitugjöld”

Svona hélt þetta samningsleysi áfram, en á fundi í júlí 1973 kom fram að, samið hafði verið við eiganda Iðu 1 um greiðslur fyrir heitt vatn. Að öðru leyti varð framhald á málinu. Aðilar höfðu sest saman á fund “til þess að koma á endanlegum samningi um skipti aðila á heitu og köldu vatni, sbr. yfirlýsingu eigenda Iðu 1 og 2, dags. 1. sept. 1964. Samkomulag varð ekki um það samningsuppkast sem fulltrúar Laugaráshéraðs lögðu fram.
Samþykkt var að fela lögfræðingi stjórnarnefndarinnar, Agli Sigurgeirssyni, að innheimta ógreidd hitaveitugjöld, eigenda Iðu 2 og [formaður] telur ekki fært að standa í frekari samningagerð við þá að svo komnu.”

Árið eftir var greint frá því að “eigendur Iðu hefðu ekki greitt leigu fyrir heitt vatn í nokkur ár og samningsumleitanir við þá hefðu ekki borið árangur, en yrði haldið áfram.

Eigendur, stjórnir og nefndir: Eins og áður er nefnt þá voru samningaumleitanir ekki einfaldar þar sem ekki var bara um tvo aðila að ræða, heldur fjóra: eigendur Iðu á annan veginn en Laugaráshérað, Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitufélag Laugaráss á hinn. Vissulega var formaður Laugaráshéraðs einnig formaður hitaveitunefndarinnar en aðrir stjórnarmenn voru ekki þeir sömu. Vatnsveitufélagið laut eigin stjórn, sem í áttu sæti notendur, eða félagar í vatnsveitufélaginu.
Oddvitanefndin var í forsvari fyrir samningaumleitunum við Iðumenn. Vatnsveitufélagið kom ekkert að þeim.

Á fundi hitaveitunefndarinnar í júlí 1975 komu þessi mál til umræðu eftir að formaður hafði kynnt síðasta samningstilboð oddvitanefndarinnar (stjórnarnefndarinnar), “en sumarbústaðaeigendur í Reykjavík hafa ekki greitt gjöldin síðan 1970 – þó hafa aðrir, sem ekki eru samningsaðilar, greitt gjöldin. Lögfræðingur stjórnarnefndarinnar hefur sett eigendum frest il 25. þ.m. til að ganga frá samningum, að öðrum kosti verði lokað fyrir vatnið.” Nefndin tók enga afstöðu til þessa, en það gerði oddvitanefndin á fundi sínum skömmu síðar, en þar var boltanum varpað til vatnsveitufélagsins: “Horfur eru á að samningar takist með því skilyrði að þeir fái kalt vatn í sína sumarbústaði úr stofni Vatnsveitufélags Laugaráss. Þar sem stjórnarnefndin lítur svo á að eigendum Iðu sé þetta rétt samkvæmt 25. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þá skorar stjórnarnefndin á stjórn vatnsveitunnar að verða við þessari kröfu, enda kæmi viðbótarvatn til, sem notkuninni nemur.”

Vatnsveitufélaginu var sent bréf með þessari áskorun og árið eftir lá svar aðalfundar félagsins fyrir, á fundi oddvitanna, en það hljóðaði svo:

Stjórn VL heimilar að eigendum Iðu sé heimilt að fá kalt vatn úr dælustöð veitunnar, með sömu réttindum og skyldum sem aðrir notendur hennar. Stjórnin telur óframkvæmanlegt að leyfa þeim vatnstöku úr stofnæð veitunnar.

Stofnæðin frá Stekkatúni að dælustöð veitunnar var asbestpípa, sem ekki taldist gerlegt með góðu móti að setja stút á og þar með varð ekkert úr samningi í þessari tilraun, en málið hélt áfram að vera til nokkurra vandræða, þó svo Laugarásbúar héldu áfram að fá kalda vatnið og Iðumenn það heita á móti.

Enn var haldið áfram að reyna að ná samningum og á aðalfundi hitaveitunnar 1979 var rætt um hugsanlega samninga við sumarbústaðaeigendur á Iðu og var formanni, Jóni Eiríkssyni veitt umboð til að ganga frá samningi sem byggðist á þessum höfuðatriðum:
1. Hitaveitan endurnýjar lögnina út að Iðubrú.
2. Laugaráshérað kostar lögn yfir brúna.
3. Hitaveitan leggi 2“ leiðsu frá Iðubrú að greiningu við sumarbústaðina og hafi á henni viðhaldsskyldu, gegn því að Iðubændur og sumarbústaðamenn greiði kostnað við lögnina.

Samningsuppkast var samþykkt í oddvitanefndinni og vonir stóðu til að bjartari tímar væru framundan, en sú varð ekki raunin, því eftir fund aðila og bréf Iðumanna í framhaldi hans, samþykkti oddvitanefndin þetta:

Stjórnarnefnd Laugaráshéraðs hefur sent stjórn Vatnsveitufélags Laugaráshverfis bréf eigenda Iðu I og II dags 3. júlí, ásamt drögum að samningi um makaskipti á heitu og köldu vatni.
Stjórn VL samþ. á fundi 18. þ.m. að hafna kröfu eigenda Iðu um að þeir fái rétt til að leiða til sín, án endurgjalds vatn úr kaldavatnsveitunni og að settur verði hemill á leiðsluna.
Fyrir því vísar stjórnarnefndin kröfum á hendur vatnsveitunnar frá og lýsir því yfir að hún muni ekki hafa frekari afskipti af hugsanlegri aðild eigenda Iðu að Vatnsveitunni.

Stjórn vatnsveitufélagsins ákvað að leita til lögfræðinga varðandi réttarstöðu sína varðandi þau makaskipti sem þarna var um að ræða á heitu og köldu vatni. Í álitsgerð lögfræðingsins, fór hann yfir ýmsa þætti sem þarna er um að ræða. Hér er gripið niður í hana á nokkrum stöðum:

Ég fæ ekki séð, að eigendur Iðu geti blandað saman málefnum Vatnsveitufélagsins og Hitaveitunnar.

Menn hafa ekki verið sáttir við það, að enginn samningur væri um vatnsnotin, og hafa verið gerðar tilraunir án árangurs til að koma á skriflegum samningum milli eigenda Iðu annars vegar og Vatnsveitufélagsins, Hitaveitu Laugaráss og Laugarásshéraðs hinsvegar.
Í þeim umræðum hafa eigendur Iðu óskað eftir því að mega leiða til sín án endurgjalds vatn úr kaldavatnsleiðslunni og jafnframt, að settur verði hemill á leiðsluna úr Stekkjartúnslæk og fari um hann einungis 4 l/sek.
Ég fæ ekki séð, að eigendur Iðu geti blandað saman málefnum Vatnsveitufélagsins og Hitaveitunnar. Eigandi heita vatnsins hefur þegar greitt fyrir kalda vatnið með þvi að láta endurgjaldslaust heitt vatn af hendi og því vatni hefur verið komið suður fyrir brú.
Hitt er annað mál, að eigendur Iðu eiga rétt til að gerast aðilar að Vatnsveitufélaginu skv. 34. gr. vatna laga, enda sé nægjanlegt vatn og það valdi ekki eigendum veitunnar verulegu óhagræði. Jafnfram verða eigendur Iðu að hlíta þeim ákvæðum sem sett verða um notkun vatnsins og greiða eðlilegt eftirgjald fyrir vatnsnotin. Um nóg vatn mun vera að ræða í landi Iðu, svo það er ekki vegna vatnsskorts, sem óskað er eftir því að verða aðilar að vatnsveitunni.
Ef eigendur Iðu óska eftir því að gerast aðilar að Vatnsveitufélaginu verða þeir að greiða þann aukakostnað, sem af því leiðir, sbr. 28. gr. vatnalaganna. Ég skil vatnalögin svo, að þeir geti aðeins farið inn á leiðsluna, þar sem Vatnsveitufélagið heimilar, þannig að þeir geti ekki rofið aðalæð veitunnar frá lind að dælustöð.

Stjórn hitaveitunnar tók harða afstöðu á fundi sínum í september þetta sama ár:

Nefndin samþykkir, að þar sem ekki hillir undir samkomulag við eigendur sumarbústaða í landi Iðu um hitaveitumálefni, þar á meðal um mælingu á vatni, verði þeim ekki gefinn afsláttur vegna lokunar eftir 1. okt. næstkomandi.
Jafnframt verði Landsbankanum á Selfossi falið að innheimta hitaveitugjöld þeirra hér eftir, eins og annarra notenda hitaveitunnar, með hæstu dráttarvöxtum ef vanskil verða. Lögfræðingi falið að innheimta eldri skuldir.

Yfir eða að brú
Í júní 1980 lagði formaður oddvitanefndar fram drög að samningi á aðalfundi nefndarinnar, svohljóðandi:

1. Hitaveita Laugaráss lætur, svo fljótt sem auðið er og við verður komið, leggja nýja hitaveitulögn yfir Iðubrú og að greiningu sumarbústaða og Iðubænda. Lögnin yfir Iðubrú sé úr einangruðum stálrörum með hlífðarkápu úr plasti frá Reykjkalundi. Lögnin sé 2“ víð.
Á vesturenda leiðslunnar skal komið fyrir tengibrunni og þar settur innsiglaður hemill fyrir hvern notanda. Notendum er heimilt að sameinast um hemil, enda lýsi þeir því yfir, að þeir beri ábyrgð á greiðslu hitaveitugjalda, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Við gerð og fyrirkomulag leiðslunnar og tengibrunns skal farið eftir fyrirmælum Fjarhitunar h/f.

2. Eigendur Iðu 1 og Iðu 2 greiða, eða sjá um greiðslu á öllum kostnaði við framkvæmdir þessar og þannig að þeir greiða strax rörin, ásamt einangrun og annan kostnað þegar reikningi er fram vísað. Leiðslan verði ekki tekin í notkun fyrr en hún er að fullu greidd.

3. Hitaveita Laugaráss fær eignar og umráðarétt og þar með viðhaldsskyldu á hinni nýju lögn.

4. Eigendur Iðu og aðrir notendur sjá um að kosta heimæðar hver til sín og hafa á þeim viðhaldsskyldu.

5. Eigendur Iðu eiga rétt á 0,5 sek/l af heitu vatni frá Laugarási samkvæmt fyrra samkomulagi þeirra og stjórnarnefndar Laugaráshéraðs um skipti á 0,5 sek/l af heitu vatni og 4 sek/l af köldu vatni úr Stekkjartúnslæk.
Aðrir núverandi notendur eiga rétt til heits vatns frá hitaveitunni eins og verið hefur allt að 0,5 sek/l alls – enda greiði þeir fyrir hitaréttindin og geri þar um samning við stjórnarnefndina.

6. Sumarbústaðaeigendur í landi Iðu eiga rétt til afsláttar á hitaveitugjöldum, þó ekki hemlagjöldum, ef þeir láta loka fyrir vatnið að vetri til, en ekki fyrir skemmri tíma en 3 mánuði. Brot úr mánuði telst heill mánuður.
Séu hemlar sameiginlegir samkv. 1. gr. miðast hitaveitugjöld allra þeirra, sem fá vatn frá hemlinum, við þann tíma sem hemill er opinn.

7. Kröfur um greiðslu hitaveitugjalda s.l. vetur, meðan sumabústaðaeigendur höfðu lokað fyrir vatnið, falla niður.

8. Að öðru leyti gangast notendur á landi Iðu undir ákvæði reglugerðar og gjaldskrár hitaveitunnar á hverjum tíma.

9. Af samningi þessum eru gerð fjögur samhljóða eintök, eitt handa stjórnarnefnd Laugaráshéraðs, sitt hvort eintak hans eigendum Iðu 1 og Iðu 2 og eitt til þinglesturs. Skal stjórnarnefndin láta þinglesa og stimpla samninginn á sinn kostnað.

10. Til staðfestingar þessu eru nöfn aðila í viðurvist votta.

Ekki verður séð af gögnum, að náðst hafi samningar á þessum grundvelli, en núningur milli aðila hélt áfram. Stjórn hitaveitunnar átaldi eigendur Iðu fyrir slæmt ástand lagnarinnar til þeirra og lýsir þá ábyrga ef það verður til þess að ekki verður hægt að koma til þeirra vatni. Svo segir í samþykkt stjórnarinnar: “Aðrar hugmyndir sem ræddar voru varðandi Iðumenn skulu bornar undir lögfræðinga.”

Eigendur sumarhúsa í landi Iðu létu loka fyrir heitt vatn í bústaði sína yfir veturinn og óskuðu eftir því árið 1981 “að fá hálft árið frádregið á leigugjöldum vegna lokunar heita vatnsins.” Oddvitanefndin veitti formanni umboð til að semja við þá um þetta atriði.

Það síðasta sem finnst af gögnum um þau skipti á heitu og köldu vatni sem hér hefur verið fjallað um, er frá aðalfundi Laugaráshéraðs árið 1990. Þar var samþykkt að “fela stjórn Hitaveitu Laugaráss og VL að ganga frá samningum við eigendur Iðu um kaldavatnsréttindi á grundvelli upphaflegs samkomulags um þau. Formaður kalli nefndirnar saman.”

Þegar þarna var komið, var farið að fjara heldur undan Vatnsveitufélagi Laugaráss og stjórnir félagsins farnar að líta til Biskupstungnahrepps varðandi frekari vatnsöflun. En um það er fjallað í kafla sem ber heitið: Síðustu ár vatnsveitufélagsins.

Uppfært 08/2022