Hitaveitan í Laugarási frá 1964 til 1980

Framhald af: Hitaveita til 1964

Hér er fjallað um hitaveituna í Laugarási frá þeim tíma sem hún var stofnuð formlega og fram undir það þegar oddvitanefndin sleppti henni í hendur Biskupstungnahrepps árið 1981. Þessi samantekt fjallar um veituna eins og hún og málefni hennar þróuðust. Hún byggir á fundargerðum oddvitanefndarinnar, framkvæmdanefndar/stjórnar veitunnar og Hagsmunafélags Laugaráss.

Þegar Sláturfélag Suðurlands fékk keypt land undir sláturhús, var auðvitað ljóst að til þyrfti að koma hitaveita til að sú starfsemi gæti farið af stað. Samningur SS og Laugaráshéraðs um kaupin var undirritaður árið 1961.

Eiríkur Eyvindsson (1917-2000) og Rögnvaldur Þorkelsson (1916-2019)

Þann 5. ágúst, 1963 samþykkti oddvitanefndin “að láta gera áætlun um heildar hitaveitu fyrir Laugarásbyggðina hið allra fyrsta, ..” og jafnframt að ráða verkfræðing og Eirík Eyvindsson á Laugarvatni til að vinna áætlunina. Rögnvaldur Þorkelsson, byggingaverkfræðingur var fenginn til verksins ásamt Eiríki og síðla þetta ár gerðu þeir grein fyrir lauslegri áætlun um hitaveituna, að meðtöldum heimæðum. Formaður nefndarinnar og Eiríkur höfðu fundað með gróðurhúsaeigendum í hverfinu og þeir höfðu lagt “höfuðáherslu á að rekstraröryggi veitunnar yrði sem best tryggt og áætlaður kostnaður við reksturinn yrði ekki óhóflega hár. Sé þetta hvorttveggja sæmilega tryggt töldu þeir sig fúsa að skipta við veituna, þótt þeir væru ekki skuldbundnir til þess af samningi.”

Oddvitanefndin valdi oddvita Skeiðhrepps og Biskupstungnahrepps, Eirík Eyvindsson og einn fulltrúa væntanlegra notenda, í nefnd til að vinna málið áfram.
Á fundi sem var haldinn í húsnæði Rauða krossins 19. janúar, 1964, voru samankomnir, auk hitaveitunefndarinnar, flestir þeirra sem þá höfðu heitt vatn á leigu. Þar voru kynnt drög að reglugerð fyrir væntanlega veitu, svo og gjaldskrá. Eiríkur gerði grein fyrir tæknilegum hliðum uppbyggingar veitunnar, kostnaðaráætlun upp á kr. 650.000 og rekstraráætlun.

Fyrstu viðbröð “gróðurhúsamanna” lofuðu ekki sérstaklega góðu, en þeir “töldu rekstraráætlunina sér óhagstæða. Einnig lögðu þeir áherslu á, að hitaveitan legði á sérstök fjarlægðargjöld í einhverri mynd.”

Á fundi í oddvitanefndinni í byrjun febrúar greindi formaður frá “þungum viðbrögðum þeirra sem samninga hafa um hitaréttindi á staðnum, nema Rauða krossins og SS.”
Á öðrum fundi sem haldinn hafði verið með notendum varð samkomulag um reglugerð og gjaldskrá væntanlegrar veitu og undirbúningi því haldið áfram og Eiríki falið að sjá um framkvæmd verksins “að svo miklu leyti sem hann getur við komið,” ásamt Jóni Eiríkssyni.

Í mars 1964 hafði verið gerð áætlun sem “gerði ráð fyrir kr. 850.000 stofnkostnaði og fyrir lágu meðmæli meirihluta íbúanna í Laugarásbyggðinni” og oddvitanefndin gerði þar þessa samþykkt:

Þar sem fyrir liggja meðmæli meirihluta aðila í Laugarási um að stjórnarnefndin stofnsetji og reki hitaveitu fyrir byggðasvæði Laugaráss og samkomulag um reglugerð og gjaldskrá liggur fyrir, lýsir stjórnarnefndin hér með þeim vilja sínum, að koma hitaveitunni á.
Til þess að svo geti orðið, samþykkir nefndin að leita frekar eftir framlagi úr atvinnubótasjóði og lánum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Framkvæmdabankanum.
Nefndin vill miða við að hitaveitan geti tekið til starfa á næsta hausti.

Þar með kom hitaveitan

Hverasvæðið (mynd PMS)

Þann 24. janúar, 1965 var veitan tekin í notkun og höfðu þá allir notendur veitunnar nema fjórir, verið tengdir við hana og almenn ánægja var sögð ríkja með þetta skref.
Framkvæmdir við veituna hófust í september, 1964, með byggingu dæluhúss og vinna við leiðslur hófst 6. nóvember.
Um haustið lágu fyrir umsóknir frá öllum íbúum í Laugaráshverfi um aðild að veitunni, en Rauði krossinn óskaði eftir afslætti frá gjöldum veitunnar, þar sem starfsemi barnaheimilisins næði aðeins yfir sumartímann.

Á árinu 1965 var lagt veitukerfi sem nam 629 metrum og í árslok 1966 var það orðið 1.567 m.
Það kom strax í ljós, að halli yrði á rekstri veitunnar og nam gjaldahækkun fyrir árið 1966, 20%. Þá þurfti að taka lán til að halda áfram framkvæmdum, en meðal annars var nauðsynlegt að kaupa varadælu.

Í byrjun ársins 1967 lá fyrir að allur búnaður dæluhúss væri “kominn í það horf sem ætlað var, svo að tryggt má telja að starfsemin geti orðið án truflana, þar sem rafdælur eru tvær og varadæla drifin með bensínmótor.”
Allt kostaði þetta sitt og enn þurfti að hækka gjöldin. Þar sem um var að ræða gjald eftir vatnsmagni, þurfti að fara í allt að kr. 8.000 fyrir sek/l og fastagjald af hverjum rúmmetra í íbúðarhúsum varð allt að kr. 6,00 og af iðnaðar- og verkstæðishúsum kr. 4,50. Þetta var nú bara byrjunin, en dælingargjaldið fór í kr. 10.000 vegna ársins 1968 og önnur gjöld til samræmis við það.

Að ýmsu þurfti eðlilega að hyggja á fyrstu árum hitaveitunnar. Meðal annars tók Ingólfur á Iðu að sér að girða um hverasvæðið árið 1968, einnig var hugað að því að héraðið tryggði sig vegna hugsanlegra brunaslysa.

Á fastari grunn

Gústaf Sæland

Í lok ár 1967 var ákveðið að fela framkvæmdanefnd (sérstakri stjórn) rekstur hitaveitunnar og skyldu sitja í henni formaður og varaformaður oddvitanefndarinnar, ásamt fulltrúa kosnum af notendum veitunnar. Þá var formanni falið að ráða gæslumann sem skyldi annast daglega gæslu og innheimta hitaveitugjöld. Til þessa starfs var Gústaf Sæland á Sólveigarstöðum ráðinn.
Áfram var halli á rekstrinum og gjaldskráin því hækkuð.

1968
Hvort kemur fyrr, eggið eða hænan. Skiptar skoðanir voru í nefndinni um hvort rétt væri að leggja hitalagnir að óleigðum, en skipulögðum lóðum. Páll Diðriksson og Magnús Böðvarsson vildu að væntanlegir notendur yrðu tryggðir fyrirfram, en niðurstaða varð um að leggja að lóðunum og auglýsa jafnframt eftir leigjendum.

Páll Diðriksson

Í lok ársins var halli á veitunni tæplega kr. 30.000, eignir voru orðnar tæplega 1.7 milljónir og skuldir ríflega 1.5 milljónir. Framundan var að koma málum þannig fyrir að dælubúnaðurinn veitti fullnægjandi öryggi. Endurskoðandi reikninga veitunnar, Páll Diðriksson, “taldi rekstrarafkomuna óforsvaranlega slæma og afskriftir allt of litlar. Hitagjöldin væru allt og lág og hann taldi sanngjarnt að Biskupstungnahreppur legði veitunni til 20% af þeim útsvarstekjum sem hann hefði af hverfinu.” Reyndar greinir frá því í aðalfundargerð Neytendafélags Laugaráshverfis, frá 1969 (sem er eina fundargerð þess félags sem rekið hefur á fjörurnar) að Páll Diðriksson “hafi neitað að skrifa undir reikninga hitaveitunnar, vegna veiks fjárhagsgrundvallar félagsins.”
Leitað var leiða til að létta reksturinn, meðal annars að hækka hitaveitugjöld um 20%.

Stækkun, útþensla, aðhald á áttunda áratugnum

Það er svo, að þegar eitthvað vex hratt, fylgja því vaxtarverkir og hitaveitan í Laugarási fór ekki varhluta af því. Saman fór, fjölgun garðyrkjustöðva og stækkun þeirra sem fyrir voru. Undir lok sjöunda áratugarins voru þeir hverir sem nýttir voru, komnir að þolmörkum. Af þessum sökum var stjórn veitunnar falið að hefja vinnu við að virkja fleiri hveri. Auk þess að afla meira vatns þótti nauðsynlegt að koma upp varaaflstöð, en ekki þurfti að fara í grafgötur um afleiðingar þess ef rafmagn færi af um hávetur, í miklum frostum.
Þarna var orðið örlítið bjartara yfir rekstrinum og því óhætt að fara í framkvæmdir.

Árið 1971 fór stjórnin í að leita fjármögnunar vegna virkjunar hvera, en málið var orðið brýnt. Áætlaður kostnaður var kr. 200.000. Í hönd fór tími famkvæmda og aukinnar verðbólgu.

Verðbólga á Íslandi 1918-2017 Mynd: Hagstofan

Í upphafi 8. áratugarins þótti það varla geta gengið lengur að læknishéraðið og Biskupstungnahreppur styrktu rekstur veitunnar og ljóst að viðvarandi halla yrði að mæta. Þar með hófst hækkunarhrina sem stóð allan áratuginn. Hún var ekki til kominn bara vegna framkvæmda, heldur ekki síður vegna verðbólgu, sem fór stöðugt vaxandi og vegna þess að ráðinn var maður í fullt starf til að sinna daglegum störfum við veituna og sinna ýmsum framkvæmdum.

Gjöldin til hitaveitunnar hækkuðu á hverju ári.

1972 um 20%
1973 um 20%
1974 um 50%
1975 um 50%
1976 um 62%
1977 um 76%
… og svo framvegis, sem skýrist auðvitað að stórum hluta af fordæmalausum verðbólgutíma sem stóð fram á 9. áratuginn (sjá mynd).

Ekki fór hjá því að þessar hækkanir á hitaveitugjöldunum bitu notendur. Innheimta á vegum hitaveitunnar virtist ekki ganga sem skyldi og því fól stjórn veitunnar Landsbankanum á Selfossi að innheimta hitaveitugjöldin. “Innheimtuaðferð þessi hefur reynst vel, en gjöldin greiðast illa.”

Breytingar á rekstrinum

Hverasvæðið (mynd PMS)

Þeirri skoðun óx fylgi, að hitaveitan yrði gerð að sjálfstæðu fyrirtæki með einhverjum hætti. Fram til þessa hafði framkvæmdanefnd séð um reksturinn í umboði oddvitanefndar, sem tók allar ákvarðanir. Í þessari framkvæmdanefnd sátu formaður oddvitanefndar og varaformaður auk eins fulltrúa notenda. Á fundi í oddvitanefndinni kom fram sú skoðun árið 1973, að rétt væri að kanna hvort annað rekstrarfyrirkomulag væri heppilegra á hitaveitunni.

Á stofnfundi Hagsmunafélags Laugarás árið 1974, kynnti Jón Eiríksson hugmyndir um breyttan rekstur veitunnar. Þar kom fram, að gert væri ráð fyrir að í stjórn hennar sætu 2 garðyrkjuubændur og einn frá oddvitanefnd. „Fram kom í umræðunni að hitaveitan væri ekki í sem beztu lagi og mörgu væri ábótavant og að ógerningur væri að taka við rekstri  hitaveitunnar nema þá með nákvæmri úttekt“.

Á aðalfundi oddvitanefndar árið eftir, var hitaveitan eitt stóru málanna og má segja að þar hafi menn verið farnir að huga að breytingum í rekstri hennar. Formaður framkvæmdastjórnar lýsti þeirri skoðun sinni, að eðlilegast væri að notendur hitaveitunnar tækju við rekstri hennar og jafnvel Biskupstungnahreppur. Fleiri oddvitanefndarmenn tóku undir þá skoðun og lýstu því jafnframt að hitaveitugjöldin yrðu að vera það há að þau stæðu undir rekstrinum. Hörður Magnússon í Varmagerði, fulltrúi notenda í framkvæmdanefnd veitunnar, taldi hinsvegar fráleitt að notendur tækju við rekstri veitunnar, þar sem þeir ættu hana ekki.

Ekki var fjallað frekar um mögulega breytingu á rekstrarfyrirkomulagi veitunnar næstu árin. Án efa hafa menn þó hugsað sitt og rætt saman óformlega um þetta mál. Það var ekki fyrr en árið 1978, að aðalfundur oddvitanefndar beindi þeim tilmælum til hreppsnefndar Biskupstungnahrepps að hún athugi möguleika á því að hreppurinn yfirtaki  hitaveituna og rekstur hennar og sjái um allan undirbúning frekari byggðar í Laugarási. Verði undirtektir hreppsnefndar jákvæðar, verði teknar upp viðræður um hvernig þessi breyting geti átt sér stað.”

Þarna var komin fram hugmyndin um að oddvitanefndin fjarlægði sig ekki aðeins frá rekstri hitaveitunnar, heldur einnig frá frekari uppbyggingu í Laugarási. Þetta var svona undanfarinn að því sem koma skyldi.

Um þessi mál er nánar fjallað hér: Starf og verkefni oddvitanefndar

Efling veitunnar

Hverasvæðið. Rakel Jara Þorvaldsdóttir. (mynd PMS)

Ætli megi ekki segja, að mestar hafi framkvæmdir verið við veituna á árunum 1973 og 1974. Á árinu 1973 var, samkvæmt skýrslu Jóns Eiríkssonr, lögð “ný stofnlögn frá dæluhúsi I að nýbýlahverfinu í mýrinni – 8“ asbestleiðsla af stað, að greiningu í vesturstofn, en síðan 6“ járnrör, einangrað með 5 cm plasthólkum, vafnir striga og bikað. Þá hefur hliðarstofn til austustu garðyrkjubændanna verið víkkaður í 4“ og síðan 3“ járnrör – og kerfin hringtengd.
Alls eru leiðslur þessar um 540 m.
Er veitukerfið miðað við að garðyrkjubændur í mýrinni geti fengið dælda 3 sek/l hver.
Umsjón með framkv. hafði Úlfar Harðarson og virðist hann hafa leyst verkefni sitt vel af hendi.”

Veitukerfið
Árið 1974 hafði komið í ljós að notendur nyrst í hverfinu, töldu sig ekki fá það vatn sem þeir áttu rétt á og var það skrifað á of granna stofnlögn. Við þessu var brugðist með þessum hætti: Var lögð ný stofnæð, 4“ víð, einangruð og með plastkápu, frá dæluhúsi II upp í stofnæð og lagnir í dæluhúsi I víkkaðar og þeim breytt. Guðmundur á Iðu vann lögnina úti, en Sigmar í Laugarási inni.
Er talið að kerfið sé til muna léttara eftir þessar breytingar.”

Siggi Gíslason (Myndasetur)

Dælur og dæluhús
Það lá fyrir að dælur myndu vart duga fyrir notkunina veturinn 1974-5 og var ráðist í að bæta úr því og keypt dæla sem dældi 7 sek/l. Hún var tengd í janúar 1975, en vegna galla í henni dróst þó nokkuð að hún kæmist í fulla notkun.
Um veturinn var unnið að því að gera dælurnar sjálfvirkar, þannig að þær gengju eftir því hvert álag var á kerfinu hverju sinni. Siggi Gíslason, rafvirki á Selfossi, annaðist þessa aðgerð, eins og annað það sem laut að rafmagnsmálum í dæluhúsinu. Þarna var einnig lögð ný raflögn að dæluhúsinu. Þá var rekstraröryggið tryggt enn frekar með því að koma fyrir varamótor í dæluhúsi I, en Guðmundur Ingólfsson á Iðu sá um það verk.
Haraldur Agnarsson vann við frágang dæluhúsanna og fyrir lá að klæða loft þeirra og mála að utan.
Sigmar Sigfússon yfirfór allar dælur og Þröstur Leifsson sá um daglegar framkvæmdir og efnisútvegun í samráði við Jón Eiríksson.

Vatnsöflun

Hverasvæðið í Laugarári. Hildarhver og Draugahver í skyggðum hring.

Þegar hér var komið, var talið að virkjanlegt vatn úr hverunum í Laugarási væri um 23 sek/l. og það stefndi í að það dygði ekki. Því voru tveir hverir, Hildarhver og Draugahver, hreinsaðir upp með skurðgröfu. “Þau undur skeðu, að með því að grafa um 3 m niður og hreinsa upp hverina, komu upp 32 sek/l af rúmlega 100°C heitu vatni, skv mælingu Orkustofnunar, til viðbótar við 23 sek/l sem fyrir voru úr hverunum.” segir í skýrslu Jóns Eiríkssonar á aðalfundi oddvitanefndar árið eftir.

Þar kom einnig fram, að þáverandi notendur veitunnar teldu að þeir ekki að þurfa að greiða kostnað við þessa framkvæmd og virkjun þessa viðbótarvatns, enda myndu þær færa héraðinu miklar leigutekjur, yrði það virkjað.
Þá var samþykkt á fundinum, að þáverandi garðyrkjubændur skyldu sitja fyrir um vatn.
Fundurinn samþykkti að Laugaráshérað skyldi standa undir kostnaði við endurbætur á hverunum, en hitaveitan síðan taka við vatninu úr hverunum og kosta lagnir og dælingu.

Eftir að grafið hafði verið í hverina þurfti að ganga frá þeim þannig að unnt yrði að virkja þá. Í mars 1976 greindi Jón Eiríksson þannig frá: “Að höfðu samráði við Rögnvald Þorkelsson verkfræðing, var ákveðið að fylla skurðinn af stórgrýti og annaðist Úlfar Harðarson það einnig. Pétur Guðmundsson tók að sér að steypa þró eftir hveraskurðinum, sem er um ...... [ekki skráð í fundargerð] löng.”

Úlfar Harðarson (Myndasetur)

Þarna var einnig tekin fyrir áætlun Úlfars Harðarsonar á Flúðum um “kostnað við virkjun hvera og lagningu safnæðar. Áætlunin er vinnulaun, vélavinna og akstur of sundurliðast þannig:
Virkjun hvera                  108.900
Lagning á asbeströrum 207.700
                         Samtals   339.100

Fundarmenn lögðu áherslu á að í þessa framkvæmd yrði ráðist og að fela Úlfari umsjón hennar.”
Haustið 1975 lagði svo Úlfar Harðason nýja 10“ safnæð frá hverunum að dæluhúsi I.

“Með aukningu vatnsmagns um 32 sek/l úr hverunum, hafa möguleikar á dælingu frá dæluhúsi I stóraukist, nýting á dælum batnað og þar með öryggi.” sagði Jón.

Eftir þessar aðgerðir var ekki annað að sjá en allir garðyrkjubændur fengju það vatn sem þeir þurftu.

Gæslumaður verður ráðsmaður og síðan hitaveitustjóri.

Pétur Guðmundsson
(mynd af facebook)

Eftir því sem veitan stækkaði kallaði hún að meiri daglega umsýslu og árið 1971 sagði gæslumaðurinn, Gústaf Sæland upp starfi sínu, en féllst þó á að starfa eitthvað áfram, enda kæmi til allmikil kauphækkun. Hann sagði endanlega upp frá árslokum 1974. Þá tókst að framlengja við hann um nokkra mánuði og var Þröstur Leifsson á Birkiflöt þá ráðinn til starfa með honum.
Ljóst þótti að til þyrfti að koma sérstakur starfsmaður og var formanni veitt heimild til að auglýsa starfið, sem hann síðan gerði. Á fundi sínum í maí 1975 fór stjórnin yfir þær 5 umsóknir sem borist höfðu og ákveðið var að ganga til samninga við Pétur Guðmundsson, sem var trésmiður og starfaði sem leiktjaldasmiður hjá sjónvarpinu. Hann var talinn uppfylla best kröfur um ráðsmann á staðnum til viðhalds og nýtingar á eignum héraðsins og honum fylgdu bestu meðmæli frá vinnuveitanda til margra ára. Þarna var Pétur 29 ára, kvæntur og átti 3 börn.

Fljótlega fór að verða vart samstarfsörðugleika, sem ekki verður fjölyrt um hér, en samningi Péturs var sagt um eftir fimm ára starf hans við hitaveituna, eða frá 1. júní 1980. Starfið var jafnframt auglýst laust til umsóknar.

Benedikt Skúlason

Á stjórnarfundi hitaveitunnar í nóvember 1979 fjallaði stjórnin um þeir 15 umsóknir sem höfðu borist um starf hitaveitustjóra. Þar var ákveðið að ganga til samninga við Benedikt Skúlason, blikksmið, frá Hveratúni. Hann sinnti síðan starfi hitaveitustjóra allan þann tíma sem hún átti eftir að vera sjálfstætt fyrirtæki.

 

Viðhald, fjárhagsvandi og hemlar

Hverasvæðið (mynd PMS)

Vorið 1975 kynnti Jón Eiríksson þá hugmynd í stjórn veitunnar, “að komið verði á hemlum til þess að takmarka útrennsli úr húsum í hverfinu, þannig að vatnið renni ekki of heitt út úr húsunum aftur. Þetta myndi bæta mjög nýtingu vatnsins.” Stjórnin samþykkti að stefnt skyldi að því að koma þessu fyrirkomulagi á.

Þó svo hitaveitugjöldin hefðu hækkað um 70% á árinu 1975 var rekstur veitunnar þannig, að ekkert var til afskrifta. Nú var kominn tími á heilmikið viðhald á lögnum og var Pétri ráðsmanni falið að fá mann með sér í það verk. Mikið vantaði á að veitan ætti verkfæri til að sinna viðhaldi af þessu tagi og var ákveðið að, hitaveitan og læknishéraðið keyptu saman helstu verfæri til pípulagna.
Það kom í ljós, við mælingu á vatni til garðyrkjubænda, að ekki fór alltaf saman, magn þess vatns sem keypt var og raunverulegt magn og því sá stjórn veitunnar ástæðu til að árétta, “að mönnum sem breyta hjá sér  hitalögnum beri að tilkynna það stjórn hitaveitunnar.”

Þá var ákveðið að settir yrðu hemlar við öll hús sem ekki væru í eigu garðyrkjubænda, en þarna var verið að innleiða nýja stefnu við sölu á heita vatninu. Jón Eiríksson greindi frá þessu í skýrslu: “Ég lagði fram og skýrði tillögu að nýrri gjaldskrá fyrir hitaveituna. Aðalbreyting frá fyrri gjaldskrá er sú, að lagt er til að stefnt sé að því að setja hemla á öll íbúðarhús, auk gróðurhúsa, sem þegar er búið að setja hemla á, fasteignagjöld falli niður og gjöldin fari eftir hámarksstillingu hemils. Þá yrðu gjöldin eftir mín/l á mánuði, til samræmis við gjaldskrá annarra hitaveitna.
Þar til hemlar eru komnir áætli hitaveitan vatnsnotkunina með tilliti til stærðar og hitaþarfar húsa.”

Á almennum fundi um málefni hitaveitunnar í júní 1976 beindi Jón Eiríksson því til manna “að þeir spöruðu rafmagn hitaveitunnar með því að takmarka vatnsnotkun yfir sumartímann. Um þessa tillögu urðu miklar umræður og voru menn ekki á eitt sáttir. „Margir töluðu samtímis og mátti ritari ekki vel greina á tímabili hvað hver hafði fram að færa“.  Samþykkt að lokum að láta á þetta reyna, a.m.k. júlímánuð. (ritari á fundinum var Skúli Magnússon). Málefni hitaveitunnar gátu sannarlega verið hitamál.
Þarna var einnig fjallað um það hvort rétt væri að gera hitaveituna að hlutafélagi og þá hugmyndir um að hver aðili legði fram kr. 100.000 á sek/l og að læknishéraðið greiddi jafnt á móti. Þetta var lagt til í þeirri von að það “yrði til þess að treysta fjárhagsgrundvöll veitunnar, sem „sannast sagna er geigvænlega slæmur“. Ákveðið að menn lægju á meltunni varðandi þetta um sinn.”

Þarna var rekstur veitunnar sem sagður erfiður og ljóst að það þyrfti að hækka hitaveitugjöldin enn og eftir þá hækkun sem þarna varð, sem var ríflega 70%, komst veitan að rólegri sjó. Við næsta uppgjör var rekstrarafgangur upp á 1,2 milljónir króna.

Hverasvæðið 2014 (mynd PMS)

Síðar þetta ár, í nóvember, var annar hitafundur haldinn um málefni veitunnar. Þar var Hörður Magnússon, formaður hagsmunafélagsins, harðorður nokkuð. Hann gagnrýndi að viðhaldi á hitakerfi væri ekki haldið áfram, en fjárskorti var kennt um.
Þá lagði Hörður til “að við tækjum að okkur viðhald og viðgerðir á hitalögnum um hverfið og skiptum starfinu milli býla, með vissum skilyrðum“.  Þessi tillaga fékk blendnar viðtökur, en Hörður hélt áfram “og átaldi það mjög harðlega (ef rétt væri) að Biskupstungnahreppur legði í viðaukastofna vegna garðyrkjubýla hér og kvað bráða nauðsyn bera til að láta hreppstjórn vita hug okkar í þeim efnum og standa öfluglega gegn því að hreppurinn legði í slíkt fyrirtæki. Almennt munu menn hafa verið sammála hvað þetta snerti, þó heyrðust raddir sem vildu slaka til vegna eins sérstaks aðila sem gjarnan vildi byggja sér gróðrarstöð á þessum sælureit. H.M. kvað spjót sín ekki beinast að neinum sérstökum einstaklingi, heldur taldi hann sig bera hag hitaveitunnar fyrir brjósti og vildi að hún næði sér upp úr skuldafeninu áður en hugað væri að frekari útþenslu“. Stjórninni var falið að kynna sér þessi mál og gera viðeigandi ráðstafanir.

Þessum hitafundi lauk með því að áhersla var lögð á að dælukerfi hitaveitunnar yrði tekið út í þeim tilgangi „að finna möguleika á því að spara rafmagn verulega. Stjórninni var falið að fylgja þessu máli fram sem öðrum og ýta á ráðamenn læknishéraðsins og stjórn hitaveitunnar.”

Á stjórnarfundi hagsmunfélagsins í janúar 1977 lagði Hjalti Jakobsson til “að neytendur yfirtækju hitaveituna”. Sú tillaga var ekki afgreidd.

Þannig greindi Jón Eiríksson frá viðhaldsmálum á aðalfundi oddvitanefndarinnar árið 1977: “Talsvert var unnið að viðhaldi á veitukerfi. Var elsti hluti kerfisins 4“ rörin, skafin og bikuð, einangruð með plasti og vafin. Stór hluti kerfisins liggur þó enn undir skemmdum. Elsta dælan, 14 sek/l varð ónýt.

 Á aðalfundi hitaveitunnar 1977 voru hemlarnir enn til umræðu og voru menn missáttir um fyrirkomulagið. Samþykkt var að setja hemla á hitaveitulagnir annarra en garðyrkjubænda, þar með þrjá hemla vegna notenda sunnan Hvítár.

Einar Arnórsson - Fjarhitun hf.

Á fundinum var kynnt samstarf við Fjarhitun, en samið hafði verið við fyrirtækið um að “vera ráðgefandi  í málum hitaveitunnar.”

Árið 1977 voru keyptar, að ráði Einars Arnórssonar frá Fjarhitun, tvær Grundfos dælur, sem dældu 8-9 sek/l hvor og einnig, að ráði Fjarhitunar, ákveðið að vinna að því að einangra hitalagnir með steinull og klæða þær með blikkkápu.

Þegar hér var komið þótti staða veitunnar orðin slík, að óhætt væri að staldra við og undirbyggja framhaldið. Á fundi garðyrkjubænda í janúar 1978 var samþykkt að óska eftir því að Hitaveita Laugaráss “láti ráðgjafa sína, Fjarhitun h/f gera:
1. úttekt á hitaveitunni í heild – fyrirkomulagi dælingar – dælukosti – sjálfvirkni í dælingu, vatnsmagni og þrýstingi.
2. Tillögur um endurbyggingu veitukerfisins, þar á meðal, hvernig veitukerfið verði byggt upp
a) Nýlagnir
b) Viðgerðir á núverandi kerfi.
Sé miðað við að hver garðyrkjustöð í núverandi byggð, eigi kost á:
a) 4 sek/l
b) 5 sek/l
3. Gera tillögur um eðlilega (hæfilega) mótstöðu í gróðurhúsalögnum.

Stjórn hitaveitunnar samþykkti að fela Fjarhitun að vinna þetta verk og jafnframt að lækka hitaveitugjöldin um helming, meðan beðið er eftir úttekt á hitaveitunni, þ.e.a.s. veita 75% afslátt frá taxta.” Niðurstaða Fjarhitunar lá fyrir á stjórnarfundi hitaveitunnar í júní 1978 og var kynnt í stjórn hitaveitunnar. Þarna var um að ræða tillöguuppdrætti að hitaveituframkvæmdum miðað við 4 og 5 sek/l á hvert garðyrkjubýli og svo í þriðja lagi hæðarkort af öllu svæðinu. Á þessum tillöguuppdráttum kom fram, að aðalstofnar veitunnar, nema stofninn að Iðu, ættu að geta flutt þetta vatn, miðað við núverandi notkun. Miðað við 4 sek/l var vatnsþörfin 85 sek/l.

Stjórnin samþykkti að miða framkvæmdir við 4 sek/l áætlunina og að fela verkfræðingunum að fullvinna þá áætlun og gera úttekt á dæluhúsunum og dælum.

Viðhald var stöðugt á dagskrá og á þessu sumri var meðal annars um að ræða að “ganga frá austurstofni og stofni frá austurstofni að þjóðvegi með hlífðarkápu og ennfremur að ganga frá 3“ stofni meðfram þjóðvegi og gera við aðrar lagnir.”

Á aðalfundi oddvitanefndarinnar í júli, 1978, áttu sér stað miklar umræður um framtíðarfyrirkomulag á rekstri hitaveitunnar. Þar var ennfremur fjallað um svokölluð Iðumál, en sumarhúseigendur á Iðu neituðu að borga hitaveitugjöld. Það var samþykkt að Laugaráshérað greiddi endurnýjun hitaveitulagnarinnar fram yfir Iðubrú, en síðan [tækju] Iðubændur, Ingólfur og Guðmundur við.

Loks var samþykkt “að núverandi garðyrkjubændur í Laugarási, [ættu] forgang að allt að 4 sek/l af heitu vatni á býli. Hitaveitan [kostaði] endurnýjun allra lagna fram að Iðubrú.”

Helstu verkefnin sem lágu fyrir þarna árið 1978 og kostnaðaráætlun vegna þeirra, voru þessi:
a) Lögn í nýtt byggðarhverfi [Vesturbyggð], sem er áætlað að kosti kr 6.602.000
b) Kostnaðaráætl fyrir lögn frá greiningu í læknisbústað og að Iðubrú kr. 2.120.000
c) Kostnaðaráætlun fyrir nýja lögn yfir Iðubrú og að greiningu að sumarbústöðum kr 3.600.000.

Þessi mál voru til umræðu á stjórnarfundi í hitaveitunni í ágúst og þar áttu sér stað miklar umræður vegna endurnýjunar á lögninni yfir brúna. Stjórnin taldi að Iðumönnum bæri að að taka við lögninni framan Iðubrúar.

Hverasvæðið (mynd PMS)

Á þessum tíma var að renna upp nýr tími í lagnamálum: hitaveitulagnir úr plasti. Athugað var með hitaþolið plast sem Reykjalundur var að hefja framleiðslu á, en á fundi stjórnar í september, hafði komið í ljós, að “framleiðsla á því [hefði] reynst gölluð. Innflutt plast [væri] hinsvegar svo dýrt að það [væri] ekki álitlegt. Samþykkt var að leggja nýja lögn úr stálrörum í nýja hverfið.” Það var ákveðið, “að húseigendur [kostuðu] sjálfir heimæðar úr götulögn, en hitaveitan [legði] til hemla gegn gjaldi, sem [skyldi] vera kr 1000 á mán.”
Loks var þarna ákveðið að að Iðulögninni yrði frestað til næsta árs í þeirri von að framleiðsla hitaþolna plastsins á Reykjalundi yrði þá komin af tilraunastigi og því yrði hægt að fá þar lögn sem væri mikið ódýrari.

1979 Rafmagn og díselvél

Eftir framkvæmdir og viðhald á árinu 1978 var fjárhagsstaða veitunnar orðin nokkuð erfið og skuldir námu 8 milljónum króna.

En fyrst um ljósavélina:
Í janúar 1979 skráði Skúli Magnússon í Hveratúni, eftirfarandi frásögn í fundagerðarbók hagsmunafélagsins:

Aðfaranótt 5. janúar varð rafmagnslaust hér og víðar. Þurfti þá að sjálfsögðu að keyra díselstöð hitaveitunnar. En svo óheppilega tókst til, að eftir nokkurn tíma  bilaði dæla í kælikerfi vélarinnar og varð því vatnslaust í hverfinu um alllangan tíma meðan Iðubræður, Guðmundur og Loftur unnu að viðgerðum. Ekki varð þó stórfellt tjón í gróðurhúsum svo vitað væri, en tæpara mátti varla standa.
Um 5°C frost var, en mjög stillt og var það okkar bjargræði.
Um kl. 4 síðdegis 6. jan. kom rafmagnið aftur, var þá lokið viðgerð línu sem slitnað hafði yfir Brúará. Það var nokkuð samtímis að díselstöð hitaveitunnar gafst svo til upp og skilaði ekki nema sáralitlum afköstum. Töldu fróðir menn að hér gæti verið um ýmiskonar  bilanir að ræða og að sennilega væri varhugavert að treysta alfarið á þennan mótor til frambúðar, einkum þar sem lítill eða enginn varahlutalager muni vera til í landinu fyrir svo gamlar vélar.

Eftir þetta fóru málin heldur betur á hreyfingu. Á stjórnarfundi í hagsmunafélaginu sem haldinn var í Vorsabæ, þann 7. janúar, var staðan rædd. Það var ákveðið að koma núverandi vél í lag ef þess væri kostur, en athuga jafnframt hvort “RARIK myndi verða fáanlegt til að skaffa rafstöð hingað til að drífa heitavatnsdælurnar þegar með þyrfti og með hvaða skilmálum slíkt gæti orðið ef til kæmi. Þá var rætt um að leita eftir að fá vél að láni hjá Ístak, en um slíkt munu vera góðar vonir.” Það kom svo í ljós að ekki var RARIK tilbúið þess arna.

Hvítá og hverasvæðið 2015 (mynd PMS)

Það var blásið til sérstaks fundar um málefni veitunnar þann 16. janúar þar sem farið var yfir fjárhagsstöðuna og ótryggt rafmagn. Jón Eiríksson og Hörður Magnússon, formaður Hagsmunafélagsins höfðu gengið á fund Baldurs Helgasonar hjá RARIK. “Ræddu þeir við hann um úrbætur í rafmagnsmálum Laugaráss. Ekki lofaði hann neinu nema nýrri línu yfir Brúará og styrkingu við Laxá.
Ekki vildi hann samþykkja að Rarik setti upp varastöð fyrir Laugarás eða tækju neinn þátt í rekstri hennar.”
Í framhaldi af þessari niðurstöðu heimsóttu þeir félagar vélaumboð sem fluttu inn ljósavélar “og leituðu tilboða í dieselljósavélar sem gætu fullnægt rafmagnsþörf hitaveitudælanna, þegar rafmagnsbilanir yrðu.
Þrjú tilboð bárust frá Caterpillar, Vélasölunni, sem er með Lister vélar og Birni og Halldór, sem er með Leyland vélar. Einnig auglýstu þeir eftir vél til leigu til bráðabirgða, ekki kom neitt jákvætt út úr því. Hinsvegar kvaðst Hörður M[agnússon] geta fengið lánaða vél eftir viku, en hún er svo stór að hún kemst ekki inn í húsið. Hinsvegar taldi Hörður ekki mikið fyrirtæki að byggja skýli yfir hana við dæluhúsið. Mikar umræður urðu um málið.
Allir voru sammála um nauðsyn þess að tryggja nýja varaflsstöð þar sem sú sem fyrir er hefur brugðist og er ekki nógu örugg sem varaaflsstöð.”
Það varð úr að þessi tillaga var samþykkt samhljóða:
Fundur garðyrkjubænda og annarra notenda Hitaveitu Laugaráss samþykkir að hitaveitan kaupi, eins fljótt og auðið er, 42kw Lister rafstöð, sem varastöð skv tilboði Vélasölunnar 9. þ.m. Jafnframt heimilar fundurinn stjórn hitaveitunnar að taka lán til kaupanna.

Lister generator frá 1975. Ekki tekin ábyrgð á að þetta sé samskonar vél og sú, sem keypt var í Laugarás.

Mönnum óaði greinilega við ótryggu rafmagni á komandi mánuðum og vildu úrbætur strax, enda miður vetur og allra veðra von.  
Herði var falið að athuga með lánsvélina sem hann nefndi og Gústaf Sæland bauðst til að lána hús undir hana. Hún kom svo og var notuð þar til Lister ljósavélin kom og hún kostaði kr. 7.188.000. Það voru uppi efasemdir um að platan í dæluhúsinu þyldi þunga hennar en það var álit verkfræðinga Fjarhitunar “að svo væri, þó væri rétt að setja undir hana eina stoð ú 3“ röri til að forðast víbrun.”

Sótt var um niðurfellingu tolla og söluskatt til fjármálaráðuneytis, en þeirri beiðni var hafnað. Heildarkostnaður við þessa miklu díeselvél og uppsetningu á henni reyndist verða 8,3 milljónir.

Það var ákveðið að hækka hitaveitugjöld um 50% frá 1. apríl 1979.

Árið 1980 blasti enn vandi við veitunni. Á aðalfundi hitaveitustjórnar í mars segir svo í fundargerð:

Ástandið hjá hitaveitunni er, eins og oftast áður peningavandræði og meiri peningavandræði. Þetta orsakast einkum af sífelldri þenslu og bólgu, ennfremur af vanskilum notenda.
Um þessar mundir taldi Jón að lokun vofði yfir hjá veitunni.
Heimild hafði fengist til gjaldskrárhækkunar um 60% vegna dælingar að gróðurhúsum og 80% á íbúðarhús.
Hörður M lagði á það áherzlu að ávallt yrðu til peningar til að greiða gæzlumanni.

Það voru ekki bara peningavandræði sem hrjáðu veituna. “Athugun formanns sýnir að vatn sé af skornum skammti til dælanna og gerir ekki betur en nægja þegar fullt álag er. Því ekki tímabært að leigja meira út.” Umsóknir um meira vatn urðu að bíða þess að aflað yrði meira vatns.
Loks kom fram á þessum fundi, að talsvert væri um að menn stæðu ekki í skilum á hitaveitugjöldum. Því var ákveðið að “Lokunum [yrði] beitt 1. maí fyrir eldri skuldir og á að tilkynna það með næsta reikningi.”

Í þessu andrúmslofti var unnið að samningi milli Biskupstungnahrepps og Laugaráshéraðs um yfirtöku/kaup þess fyrrnefnda á hitaveitunni. 


Breytt eignarhald

Hverasvæðið (Mynd PMS)

Á aðalfundi oddvitanefndar í júlí 1978 var þetta bókað:

Fundurinn beinir þeim tilmælum til hreppsnefndar Biskupstungnahrepps að hún athugi möguleika á því að hreppurinn yfirtaki  hitaveituna og rekstur hennar og sjái um allan undirbúning frekari byggðar í Laugarási.
Verði undirtektir hreppsnefndar jákvæðar, verði teknar upp viðræður um hvernig þessi breyting geti átt sér stað.

Í kjölfarið hófst ferli sem lauk með því að í júní 1981 yfirtók Biskupstungnahreppur veituna formlega.

Í fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps frá 21. janúar, 1981 er að finna þessa færslu:

Næst las oddviti drög að kaupsamningi þar sem Laugaráslæknishérað, það er hreppsnefndir Skeiðahrepps, Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Laugardalshrepps, Grímsneshrepps og Biskupstungnahrepps fyrir hönd hreppa sinna, selja Biskupstungnahreppi Hitaveitu Laugaráss ásamt öllu því, sem hitaveitunni fylgir og fylgja ber. Fram kemur, að Hitaveita Laugaráss á engin hitaréttindi. Hún er seld í því ástandi sem hún nú er í. Kaupandi á að greiða kaupverð hitaveitunnar með því að taka að sér allar skuldir hennar, eins og þær reynast 31. des. 1980 og tekur hann við henni frá þeim degi.
Í 6. grein samningsdraga þessara eru ákvæði um að hitaveitan skuli rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöðum fjárhag og sérstök hitaveitunefnd, þar sem hagsmunafélag Laugaráss á fulltrúa, færi með stjórn hennar undir yfirstjórn hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, og skuli kaupandi annast um að reglugerð fyrir hitaveituna verði breytt í samræmi við það.

Lögðu samninganefndarmenn Biskupstungnahrepps til að þessi grein yrði felld niður.

Stjórn hagsmunafélagsins fjallaði um samninginn um hitaveituna á fundi í mars 1981.
Samþykkt að taka skýrt og ákveðið fram að allar samþykktir hitaveitufunda og oddvitafunda um veituna, verði látnar standa varðandi framkvæmd og skipulag hitaveitunnar að öðru leyti.

Minnt sérstaklega á samþykkt sem var gerð á fundi í Varmagerði 1. jún 1978 um að hver gróðrarstöð hér geti fengið 4 sekl í framtíðinni og miða framkvæmdir við það varðandi hitaöflun og lagnir. (áætlað 85 sekl.)

Bent á að allir stjórnarmenn Hagsmunafélagsins hafa verið til kvaddir og virkir á hitaveitunefndarfundum undanfarin þrjú ár og er það skýlaus krafa að svo verði áfram. Það hefur ávallt verið leitað til stjórnar Hagsmunafélagsins varðandi meiriháttar mál, t.d. má nefna dælukaup, mannaráðningar, uppsagnir, kaup díselrafstöðva o.s.frv.

Þess ber einnig að gæta að það er fólkið í Laugarási sem hefur greitt rekstur og framkvæmd hitaveitunnar frá upphafi og á hana.

Á stjórnafundi hitaveitu þann 14. maí 1981 kynnti Jón Eiríksson og skýrði samninginn sem þá lá fyrir og um það segir svo:
Fulltrúar hagsmunafélagsins töldu að vel mætti við una og gerðu ekki athugasemdir við samninginn.
Jóni Eiríkssyni voru þökkuð störf í þágu hitaveitunnar og gott samstarf.
Þakkaði Jón  gott samstarf og árnaði væntanlegri hitaveitustjórn allra heilla.

Á aðalfundi Hagsmunafélags Laugaráss, þann 6. júní 1981, fjallaði formaður, Hörður Magnússon, meðal annars um yfirtöku Biskupstungnahrepps á hitaveitunni. Fundurinn samþykkti að formaður hagsmunafélagsins skyldi jafnframt eiga sæti í stjórn hitaveitunnar.

Þarna kom fram, að stjórnarmenn af hálfu Biskupstungnahrepps væru þeir Gísli Einarsson, Þorfinnur Þórarinsson og Skúli Magnússon til vara.

Sannarlega voru hitaveitumálin rædd allmikið, enda voru þau eitt meginviðfangsefni félagsins á þessum árum. Um þau var þetta bókað:

Form taldi ekki hjá því komist að afla meira fjár svo unnt væri að framkvæma bráðnauðsynlega hluti, svo sem viðhald á dælum og leiðslum ásamt sjálfvirknibúnaði við dælur ofl ofl.

Talið ógerlegt að safna meiri skuldum, heldur reyna að ná þeim niður. Töldu menn að hækka þyrfti um 80% svo lag geti komist á reksturinn.

Stungið var upp á að listi yrði látinn ganga milli bæja og leitað álits um hvort fólk vildi fúslega borga meira svo mögulegt væri að halda fyrirtækinu gangandi og gera eitthvað til endurreisnar.

Hverasvæðið (Mynd PMS)

Svo kom að fyrsta stjórnarfundi hitaveitunnar í Aratungu þann 19. júní 1981, en hann sátu, auk tveggja fulltrúa hreppsins, tveir fulltrúar Laugarásbúa, formaður hagsmunafélagsins Hörður Magnússon og ritari þess, Hilmar Magnússon á Ekru.

Talsverð umræða í upphafi fundar um veru stjórnarmeðlima Hagsmunafélags Laugaráss á fundinum og vildi Þorfinnur fá skýringu á setu fleiri en eins fulltrúa frá Laugarásbúum. Var gerð grein fyrir því og vísað til þeirrar venju er verið hefur undanfarin ár, að meðstjórnendur hagsmunafélagsins sætu alla fundi hitaveitunnar með fullu málfrelsi og tillögurétti. Fallist var á óbreytt fyrirkomulag funda.

Ekki verður hér fjallað um einstaka ákvarðanir um hitalagnir, viðhald og hækkanir á gjaldskrá, heldur helst það sem fréttnæmara má teljast. Þannig var það kynnt á aðalfundi hagsmunafélagsins árið 1982, að unnið væri að “hönnun á nýju dæluhúsi og að þar kæmu djúpvatnsdælur sem myndu spara mikið rafmagn miðað við þær gömlu.”

Framhald: Hitaveita Laugaráss frá 1980.







Uppfært 12/2023