Mánudagur til mynda

Það verður að teljast alveg upplagt að opna, á svona degi, fyrir myndasafn, þar sem fjallað eru um vígslu heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási, þann. 21. júní, 1997. Þessar myndir rötuðu til mín fyrir nokkru og ég hef nú lokið að gera við þær það sem ég vildi áður en þær birtust hér.

Ljósmyndarinn var Jónas Yngvi Arngrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri stöðvarinnar, en Jón Eiríksson (1921-2010) í Vorsabæ, fékk hjá honum filmur, setti í framköllun, kom fyrir í plastvösum í albúmi og skrifaði síðan texta með hverri mynd. Á þessum tíma var Jón orðinn fyrrverandi flest, enda löngu orðinn eftirlaunamaður. Hann var oddviti Skeiðahrepps í áratugi og formaður oddvitanefndar Laugaráshéraðs, einnig í áratugi. Eitt stærsta baráttumál hans, og sem líkja mætti við maraþonhlaup, var að fá þessa heilsugæslustöð byggða.

Jón átti soninn Eirík, sem varð mér samferða í gegnum nám á Laugarvatni og Reykjavík. Hann var svo vinsamlegur að leyfa mér að nota myndirnar hér, á þessum vef, með loforði um að frumgögnin rati síðan á Héraðsskjalasafn Árnessýslu.

Myndirnar er að finna undir hnappinum hér efst til hægri, en til hægðarauka er hægt að smella hér.