Nýtt læknissetur

Skúli Árnason

Skúli Árnason sagði embætti sínu lausu árið 1921 og skyldi það taka gildi þann 1. janúar, 1922. Þá blasti augljóslega við, að finna yrði nýjum héraðslækni stað til að búa á. Skúli hugðist halda áfram búskap í Skálholti, sem hann gerði síðan til ársins 1927, þegar hann flutti til Reykjavíkur.

Ekki hef ég fundið mikið um aðdragandann að því að ákveðið var að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum undir læknissetur. Frá þeim tíma þegar hrepparnir sem stóðu að Grímsneshéraði fóru að vinna að því að leysa málið, eru ekki til umtalsverð gögn, enn, í það minnsta. Oddvitar hreppanna mynduðu nefnd sem vann þetta mál. Það kom ekki mikið inn á fundi hreppsnefnda og verður því að líta svo á að oddvitarnir hafi, frá upphafi haldið gjörðabók um fundi sína. Gjörðabók um fundi oddvitanna frá upphafi samvinnunnar um læknissetrið í Laugarási og allt til ársins 1935, hefur ekki fundist og helst talið líklegt að hún hafi glatast á einhvern hátt, t.d. í einhverjum bruna, en þekkt dæmi eru um það.

Eftirfarandi fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps lýsir því, að á síðari hluta ársins 1921 var ekki enn búið að komast að niðurstöðu um staðsetningu.

Fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 12. nóvember, 1921.

Fundargerð hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 12. nóvember, 1921.

Hreppsnefndarfundur var haldinn að Torfastöðum 12. nóv. 1921. Meiri hluti nefndarinnar var mættur.

Fundarefni var að ræða um fast læknissetur í hjeraðinu eftirleiðis. Fjelst fundurinn á að nauðsynlegt væri að læknir í hjeraðinu hefði fast, ákveðið setur, og að hjeraðið í því skyni þyrfti að festa kaup á jörð og koma upp íbúð, eða á annan hátt tryggja læknir sínum bústað. En sjálfsagt þótti nefndinni, að heimili læknisins yrði utan Hvítár, og þótti ekki fært að öðrum kosti að hreppurinn, eða þá hjeraðið legði í kostnað við bústað hans.

Til þess að mæta á fundi, sem halda á að Torfastöðum 15. þ. m., til að ræða nánar um þetta efni, af fulltrúum úr hreppum hjeraðsins, var sr. Eiríkur Þ. Stefánsson kosinn fyrir þennan hrepp.

Undir þessa fundargerð rituðu þeir Eiríkur Þ. Stefánsson, Ögmundur Guðmundsson, Jón Ág. Jónsson og Þorsteinn Þórarinsson.

Sr. Eiríkur Þ. Sefánsson

Þarna var sr. Eiríkur Þ. Stefánsson á Torfastöðum oddviti Biskupstungnahrepps.

Umræddur fundur oddvitanna var haldinn þann 15. óktóber, 1921, en fundargerðin hefur ekki fundist og því er ekki fyrir hendi fullvissa um hvað þar fór fram, utan þess sem fram kemur í fundargjörðum hreppsnefndanni í kjölfar hans. Þarna voru uppi efasemdir um hvort rétt væri að kaupa Laugarásjörðina. Þær komu allavega fram hjá Grímsnesingum og þá ekki síst vegna þess, að árin þarna á undan var farið að krefjast þess, að læknishéruðum í Árnessýslu yrði fjölgað og niðurstaða um lyktir þess lágu ekki fyrir.
Hér er reiknað með því, að menn hafi séð fyrir sér, að í uppsveitum yrðu tvö læknishéruð, annað vestan Hvítár og þá líklegast með læknissetri í Grímsnesi og hitt austan árinnar, mögulega með aðsetri í Hrunamannahreppi.

Hér er innsýn í umræðuna í Grímsnesi í kjölfar oddvitafundarins á Torfastöðum:

Ár 1921, þann 23. nóv., var niðurjöfnunarfundur haldinn að Klausturhólum. Allir hreppsnefndarmenn mættir.

1. Oddviti lagði fram fundargjörð frá fundi er haldinn var að Torfastöðum, 15. þ.m., til að ræða um útvegun á lækni og læknissetri í Grímsneshéraði. Eftir allmiklar umræður um málið, kom fram tillaga, svohljóðandi:
Með því að læknamálið í upphreppum Árnessýslu er enn óundirbúið, við þing og stjórn, neitar hreppsnefndin í Grímsneshreppi að ákveða læknissetur eða gera skuldbindandi ákvarðanir fyrir sitt leyti, meðan engin vissa er fengin fyrir því að skifting héraðsins geti ekki komið til framkvæmda á næstu árum, eins og óskir héraðsbúa og kröfur hafa staðið til. En fáist ekki skifting á héraðinu á næstu árum hefur hreppsnefndin ekkert á móti því að Laugarás komi til greina sem læknissetur, ef sú jörð fæst með viðunandi kjörum.

Hreppsfundur eða íbúafundur var haldinn í Grímsnesi í mars árið eftir og þar varð niðurstaða varðandi þátttöku Grímsneshrepps svona: Rætt var um tilvonandi læknisbústað í Laugarási fyrir Grímsneshérað. Eftir nokkrar umræður kom fram tillaga, svohljóðandi: „Fundurinn neitar því algjörlega fyrir hönd Grímsneshrepps, að taka nokkurn þátt í kostnaði við kaup á læknissetri handa væntanlegum lækni, hér í Grímsneslæknishéraði“
Tillagan var samþykkt með 10 atkv. gegn 7.

Svo kom apríl og þá var nokkuð annað hljóð í strokknum:

1. Var lesið upp bréf frá oddvitanum í Biskupstungnahreppi sem skýrði frá ákvörðun fundar er nýlega hafði verið haldinn í Skálholti um sama efni og ennfremur skýrði bréfið frá samtali oddvitans við læknirinn sjálfan og samkomulagi þeirra um ódýrari byggingu til bráða birgða, en ráðgert hafði verið í fyrstu. Var málið mikið rætt og eftir að margar tillögur höfðu komið fram og verið ræddar, var eftirfarandi tillaga borin undir atkvæði og samþykkt, svohljóðandi: Fundurinn samþykkir að Grímsneshreppur greiði að tiltölu við fólksfjölda læknishéraðsins, afborgun af allt að 30.000 kr. láni, til kaupa á jörðinni Laugarási og bygginga á henni, sem læknissetri.”

Ekki er vikið orði að oddvitafundinum 15. nóvember, 1921, í fundargerðum Biskupstungnahrepps þennan vetur. Það sama er að segja um hreppsnefnd Skeiðahrepps, sem einbeitti sér að áveitumálum og andstöðu við að héraðsskóli yrði byggður á Laugarvatni. Þetta bendir til jákvæðrar afstöðu þessara hreppa til málsins. Þann 14. júni, 1922 er þetta bókað í fundargerð Skeiðahrepps:

Á hreppsnefndarfundi sem haldinn var að Húsatóftum 14. júní, 1926, var áréttuð áður gjörð samþykkt, að heimila hreppsnefndinni að taka lán í útibúi Landsbanka á Selfossi, alt að 22.000 krónur og ábyrgjast að sínum hluta, í sameiningu við aðra  hreppa í Grímsneslæknishéraði, til greiðslu á andvirði jarðarinnar Laugarás í Biskupstungum, þar sem héraðslækni er ákveðinn staður, til greiðslu á byggingarkostnaði þar o.s.frv.

Jafnframt samþykkti fundurinn, og staðfesti þar með að því er hreppinn snertir, veðsetningarheimild hreppsnefndarinnar á jarðeign hreppa nefnds læknishéraðs Laugarás í Biskupstungum, ásamt öllum húsum þar, umbótum sem þegar eru framkvæmdar og framkvæmdar verða, hlunnindum, kúgildum og öðru er fylgi og fylgja ber, til tryggingar áðurnefndu bankaláni. Verður þar að ræða um 2. veðrétt og uppfærslurétt, næst á eftir áhvílandi veðdeildarskuld, upphaflega kr. 13.000,00.
Eiríkur Jónsson (fundarstjóri)

Skeiðamenn minnast ekki á Laugarás aftur fyrr en fyrir er tekin spurningin um einkasíma að Laugarási, árið 1927. Þar er þátttöku hreppsins í kostnaði vegna hans hafnað.

Brúin á Brúará hjá Spóastöðum, sem var byggð á árunum 1920-1922. Um brúna og sögu hennar er fjallað í Litla Bergþór árið 2006.

Ekki liggur fyrir gjörðabók frá Hrunamannahreppi frá þessum tíma, en þó eru nokkrar fundargerðir í Kassabók hreppsins, en þar er ekkert minnst á Laugarásjörðina eða læknamál

Rödd fólksins

Brúará og Spóastaðir. Árið 1921 kom brú á ána þar sem örin sýnir. Við austurenda brúarinnar var kröpp beygja til vinstri og þaðan lá vegurinn upp úr. Nákvæm staðsetning þessa vegar fyrir utan brúarstæðið, er teiknuð eftir minni, en ekki telst miklu skeika. Á þessum tíma lá vegurinn um hlaðið á Spóastöðum. (teikn.: Páll M Skúlason)

Það er ekki ólíklegt að skiptar skoðanir hafi verið meðal íbúa í uppsveitunum um kaupin á Laugarásjörðinni undir læknissetur. Vissulega var staðurinn miðsvæðis í héraðinu og þannig um að ræða staðsetningu sem flestir ættu að geta sætt sig við. Augljós galli á þessari ráðstöfun var hinsvegar sá, að stór hluti héraðsins var austan óbrúaðrar Hvítár. Brú kom á Brúará hjá Spóastöðum 1921 svo hún var ekki lengur farartálmi. Þarna var ekki enn komin brú á Tungufljót svo íbúar eystri tungunnar þurftu á reiða sig á ferjur. Tungufljótbrúin kom 1929.
Almennt má segja, að íbúar vestan Hvítár hafi verið betur settir varðandi aðgengi að læknisþjónustu.

Ekki fór mikið fyrir skoðunum íbúanna varðandi kaupin á Laugarásjörðinni á opinberum vettvangi. Vilji Grímsnesninga til þátttöku í þessu var blendinn, eins og kom í ljós á áðurnefndum fundi í mars 1922. Það er ekki ólíklegt að þeir hafi verið mótfallnir því að eitt læknishérað í uppsveitum yrði fest í sessi með þessari ráðstöfun. Sú rödd heyrðist nokkuð og kom fram í samþykktum sýslunefndar, að læknishéruðunum þyrfti að fjölga í Árnessýslu. Þau voru tvö, með samtals tæplega 4000 íbúa.

Í Morgunblaðinu birtist, í maí 1922, grein eftir Indriða Guðmundsson. Reikna má með að hann hafi tjáð skoðanir margra á þessum tíma.
Greinin ber yfirskriftina “Væntanleg breyting á embættisskipuninni o.fl.” Indriði var ekki ánægður með þau foréttindi sem hann taldi að embættismenn hefðu umfram aðra þegna. “Ríkið á að gera þegnum sínum öllum jafnt undir höfði, það er það jafnrjetti, er hver þegn þess á heimtingu á.
Þessi lífstíðar veiting og öryggi um afkomu sína gerir vafalaust sitt til að gera embættismenn tómláta og áhugalausa, þeir hafa ekki til neins að vinna og komast á þá skoðun, að það sje á ábyrgð þjóðarinnar að sjá þeim farborða, en ekki þeirra sjálfra.”

Þá lýsir hann þeirri skoðun, að það sé misvægi innan embættismannastéttarinnar og fjallar í framhaldinu um læknishéraðið og kaupin á Laugarásjörðinni:

Eitt af því sem stingur mjög í augun, er prestafjöldinn samanborið við læknafjöldann, læknarnir eru þeir einu embættismenn er rjettmætt geti verið að fjölga heldur en fækka, en prestarnir eru víða altof margir, sýnir það ljósast kirkjusóknin, væri sjaldnar messað er full ástæða til að vonast eftir að kirkja væri betur sótt í þau fáu skiftí, og hvernig er hægt að verja það að kosta prest í þau prestaköll þar sem mjög sjaldan er sótt kirkja? Hjer í Grímsneslæknishjeraði eru 6 prestaköll og jafnmargir prestar, en ekki nema 1 læknir, mjer virðist að vel mætti við það una, að hafa ekki nema 4 presta á þessu svæði, en að full þörf væri á að hafa 2 lækna, og hjeraðinu væri skift um Hvítá, bæði er, að hjeraðið er víðáttumikið og torsótt yfirferðar, og sundurskorið af vötnum, er oft eru ófær yfirferðar á vetrardag.

Sú skipun hefur verið gerð meir af kappi en forsjá, að hjeraðsbúar hafa brotist í að kaupa Laugarós [Laugarás] fyrir læknissetur og ætla að byggja þar læknisbústað heldur en að vera læknislausir. Það er ómótmælanleg skylda ríkisins að gera öllum þegnum þess mögulegt að njóta læknishjálpar og það hefur marg sinnis verið viðurkent að ríkið ljetti undir með þeim, er afskektir búa og noti til þess sumpart krafta þeirra, sem eru betur settir hvað snertir samgöngur, af því kostar ríkið póstferðir og vegi í fjarlæg, hjeruð og strandferðir á afskekta firði, án þess að taka sjerstakan skatt af þeim er þar búa, hvaða samræmi er þá í því að láta þá er búa í afskektum læknishjeruðum gjalda afstöðu sinnar, með því að láta þá taka á sig allan kostnað við læknissetur sín, nei, eftir viðtekinni reglu og heilbrigðri sanngirni ætti ríkið að eiga læknissetur og kosta þau, að svo miklu leyti sem læknarnir væru ekki látnir gera það sjálfir.

Þessi staður sem valinn hefur verið er illa settur ef hjeraðinn yrði skift, en það eru allar líkur til að ekki verði unað við núverandi skipun í framtíðinni, því er varhugavert að leggja í mikinn óhreyfanlegan kostnað á þessum stað.

Jeg hefi tekið saman í eitt, í þessari ritgerð, ástæður mínar gegn þeirri kenningu að þjóðin megi ekki gera breytingu á embættisskipuninni sjer í hag, og í sambandi við það drepið á mál er að vísu varðar að eins þetta hérað, en sem mjer virðist þó mætti athuga í þessu sambandi. Mjer virðist rjettmætt að almenningur láti í ljósi skoðun sína viðvíkjandi væntanlegri breytingu á embættisskipuninni og væri rjettmætt, að það mál yrði aðalumræðuefni blaðanna til næsta þings.

Indriði Guðmundsson (1885-1971)

Einna líklegast er, að höfundur þessarar greinar sé Indriði Guðmundsson (1885-1971), en hann bjó síðast austanfjalls á Kringlu í Grímsnesi. Árið 1926 flutti hann með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur, stundaði þar búskap og síðan verslunarrekstur.

Annar Indriði er mögulegur höfundur: Indriði Guðmundsson (1877-1950) bóndi í Arnarholti, fæddur í Kjarnholtum, yngsti sonur hjónanna Guðmundar Diðrikssonar og Vilborgar Guðmundsdóttur, sem bjuggu í Laugarási. Indriði var faðir Magnhildar, ljósmóður frá Drumboddsstöðum.

Ekki er tekin afstaða höfundarins að öðru leyti, nema fram komi betri upplýsingar.

Uppfært 02/2022