Skata í Hvítá

Heimildamenn mínir kunnu engar sagnir af kynjaverum í ánni við Laugarás utan þá sem Ólafur Einarsson sagði mér af skötu sem synti upp á móti straumi. Sagnir um slíkar skötur eru algengar og taldi Ólafur að sú trú hefði einnig verið hér.

Enda var það eitt sinn er Helgastaðabóndi ferjaði hann yfir ána snemma vors að þeir sáu kvikindi þetta. Ólafur bað ferjumann að nema staðar sem hann og gerði og gættu þeir að skepnunni, sem leit út til að sjá sem marglit skata sem syndir upp á rönd, á móti straumi. Jakaruðningur var í ánni. Kom nú í ljós að skatan var skítugur jaki sem vegna óhreinindanna var þyngri öðru megin og reis þess vegna upp á rönd . Vegna lögunar sinnar og þess hvernig jakinn sneri náði straumurinn litlu taki á honum og hann bar því mun hægar niður ána en aðra jaka og sýndist þess vegna fara á móti straumi.

Jakar geta verið “skítugir” á Hvítá. (mynd pms 2018)

Uppfært 01/2019