Bjarni Harðarson (mynd af vef NEMEL)

Í Árnesingi - riti Sögufélags Árnesinga (II, 1992) birtist fyrri hluti ritgerðar Bjarna Harðarsonar um Laugarás í Biskupstungum sem hann samdi árið 1981, þegar hann var nemandi í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Hér á eftir er sá hluti sem var birtur í
Árnesingi III, 1994. Hann var einnig skrifaður á menntaskólaárum Bjarna. Rakin eru nöfn ábúenda í Laugarási og fyrstu heimildir um staðinn.
Þær breytingar hafa verið gerðar á upprunalega verkinu eru, að einungis er birt umfjöllun Bjarna fram til þess tíma er læknir settist að í Laugarási 1923. Er það gert þar sem sögunni eftir þann tíma eru gerð skil annarsstaðar á þessum vef.

Þetta verk Bjarna er birt með góðfúslegu leyfi hans.


Bjarni Harðarson

Laugarás í Biskupstungum til 1923

Ábúendatal og glefsur úr sögu

I

Laugarás í Biskupstungum er ekki einn þeirra staða, sem geyma merka sögu, og hægt er að skrifa um langa bók. Er þar ólíku við að jafna, Laugarási og næsta bæ við, Skálholti. Það helsta, sem hægt er að skrá niður um venjulega sveitabæi, er ábúendatal og örnefnaskrá. Svo og sögur og sagnaþætti, sem tengjast bænum.

Hvenær Laugarás byggðist, er ekki fullljóst, a.m.k. ekki af þeim heimildum, sem ég hef. Næstu nágrannabæir, Höfði og Skálholt, byggðust um 900, og eru taldar landnámsjarðir neðri hluta Biskupstungna, þó þær hafi verið teknar úr landnámi Ketilbjarnar gamla á Mosfelli. Fyrsta heimild, þar sem nafnið Laugarás kemur fyrir, er Hungurvaka, en þar er sagt frá andláti Ketils biskups í laug í Laugarási, 7. júlí 1145. Þó þar sé ekki tekið fram, að búið sé í Laugarási, þá er líklegt að svo hafi verið, fyrst nafnið var orðið til. Ef Laugarás hefði þá einungis verið örnefni, skýtur það skökku við að segja laugina vera í ásnum, því umrædd laug er að mínu áliti þar, sem nú heitir Launrétt; er það niður við Hvítá, spölkorn frá Skálholtshamri.

Það er því líklegt, en engan veginn öruggt, að Laugarás hafi byggst á tímabilinu frá 900 til 1145. Aðeins er minnst á Laugarás sem fundarstað í Þorgils sögu skarða, þar sem fundað var út af vígi Þorgils árið 1258. En ekki er sú sögn heldur örugg staðfesting fyrir því, að byggt ból hafi verið í Laugarási. Fundir voru oft haldnir á bersvæði, sbr. Áshildarmýri á Skeiðum, þar sem Áshildarmýrarsamþykkt var gerð 1496, svo sem alkunna er.

Fyrsta örugga sögnin um byggð í Laugarási er frá um eða eftir 1540. Þá var biskup í Skálholti Gissur Einarsson. Til gamans birti ég hér orðrétt þessa sögn úr Biskupasögum Jóns Halldórssonar, þar sem Laugarás kemur örlítið við sögu:

... en áður en herra Gizur fékk þessa Katrínu (Gissur kvæntist Katrínu Hannesdóttur 1543, innskot mitt, B.H.), var honum handlögð Guðrún Gottskálksdóttir, systir Odds Gottskálkssonar, og keypti hann hana og sigldi með það nokkra sinna erinda, en setti Eystein prest Þórðarson officialem hér og kirkjuprest, að sjá til á stólnum með móður biskupsins Gunnhildi; en Eysteinn prestur lá með þeim báðum um veturinn og barnaði Guðrúnu, svo hún ól þríbura um sumarið eptir, var herra Gizur þá út kominn, því hún varð léttari á liðnu sumri. Þá Gizur spurði það skyldi hann hafa sagt: ,,Það var hlaup og það var hoffmannshlaup; ég skyldi taka Gunnu mína í sætt aptur”; en hún vildi aldrei; fór hún þá hingað og þangað, því hún vildi ekki heldur aðhyllast hann bróður sinn, var hún þversinnuð kona; dó hún þó á Reykjum, hjá Oddi heitnum Gottskálkssyni í Ölvesi, og erfði Pétur Oddsson hana. En þessi síra Eysteinn Þórðarson var skemdur í stórustofunni í Skálholti, undir borðum, fám dögum eptir það biskup var út kominn, þá hann spurði hið sanna. Voru að því verki bræður biskupsins, Þorlákur Einarsson og síra Jón Einarsson og Halldór Einarsson - hann var þá ekki enn vígður - ; varðist prestur vel og lengi við borðið, þar til hann fékk taparhögg í höfuðið; hafði hann síra Eysteinn uppi á sér höggsleddu, stökk þá um síðir fram á gólfið, og þar fékk hann skemdirnar mestar, þar til hann var sem dauður og féll, gengu þeir þar frá honum. Var hann hafður þaðan til Laugaráss, og greri allvel, en aldri tók biskup hann í sætt; þó komst hann seinna til prestastéttar, og giptist vestra; ekki átti hann börn við konu sinni, erfðu hann bræður hans.
(Biskupasögur, gefnar út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, annað bindi. Khöfn 1862-1878, bls. 249-250).

Samkvæmt sömu bók hefur verið bóndi í Laugarási einhvern tíma á 16. öld, Þorbjörn Árnason (Brandssonar, Símonarsonar), og kona hans var Guðrún Þorsteinsdóttir (frá Skriðu í Hörgsdal, Rögnvaldssonar). Þetta eru þá fyrstu ábúendurnir í Laugarási, sem mér eru kunnir; hverjir búa svo þar næstu hundrað og fimmtíu árin, hefi ég enga hugmynd um. En frá 1703 til vorra daga eru til nokkuð góðar heimildir um búendur þar.

II

Árið 1703 var hér tvíbýli, og hélst svo mestalla átjándu öldina, en á þeirri nítjándu og fyrst á þeirri tuttugustu var ýmist, að einn eða tveir bændur yrktu jörðina í senn. Hvenær það fólk, sem var hér 1703, kom, veit ég ekkert um, og yfirleitt gildir, að tímasetningar á búsetu manna fram til 1780 eru mjög óáreiðanlegar og hlaupa oft á um það bil 5 ára óvissubili.


1703-1729: Guðmundur Magnússon, f. um 1662, og k . h . Aldís Jónsdóttir, f. um 1667.

1703-1709: Þorlákur Jónsson, ekkjumaður, f. um 1665, og móðir hans, Borghildur Jónsdóttir, f. um 1633.

1729-1760: Magnús Grímsson, f. um 1685, og k.h . Rannveig Jónsdóttir, f. um 1689.

1729-1735: Loftur Ásbjörnsson, f. um 1699, og k.h. Halldóra Bjarnadóttir, f. um 1689.

1740-1775: Jón Gíslason og k. h. ónafngreind.

1760-1775: Brynjólfur Jónsson hreppstjóri og k.h. ónafngreind.

1773-1782: Jón Knútsson, f. um 1734, og k. h. Halla Einarsdóttir, f. um 1740. Þau eru svo í húsmennsku í Laugarási frá 1782 til 1784.

1775-1782: Jón Jónsson , f. um 1699, og k.h. Guðrún Jónsdóttir, f. um 1717.

1782-1784: Páll Jakobsson, rektor í Skálholti, f. 1733, d. 19. júlí 1816, og k. h. ,,madame" Þórunn Brynjólfsdóttir, f. um 1741, d. 19. ág. 1824.

Á árunum 1780-1784 var orðið alveg óverandi í Skálholti vegna lélegra húsakynna og hungurs. Það voru ekki bara nemendur, sem þurftu að þola þetta, það var líka hlutskipti rektors og annarra fyrirmanna. Því var það, að Páll Jakobsson, þá - árið 1782 - nýhækkaður í tign úr stöðu konrektors í stöðu rektors, settist að í Laugarási, en gegndi embætti sínu eftir sem áður. - Dæmið hafði aldeilis snúst við, þegar fyrirmenn flúðu Skálholtsstað vegna lélegra lífsskilyrða og settust að á hjáleigum hans, en Laugarás var eign stólsins fram undir aldamótin 1800. - Páll fluttist svo til Reykjavíkur 1784, þegar Skálholtsskóli lagðist endanlega niður í kjölfar jarðskjálfta, eins og alkunna er.

1785-1820: Jón Jónsson, f . 1760, titlaður í manntalinu 1801: Bonde, fattiges forstander (fátækrastjóri, hreppstjóri), sölv og kobbersmed, snikker (smiður), skildrer (málari, myndgerðarmaður), bildhuggur (bíldhöggvari, myndskeri)”. Kona Jóns var Guðrún Bjarnadóttir, f. um 1761. Jón var sonur Jóns Jónssonar, sem bjó í Laugarási næst á undan Páli rektor. Auk þessa, sem hér er talið, var Jón vel gáfaður og skáld gott, að því er segir í sagnaþáttum Guðna Jónssonar. Þar er hann titlaður signetsmiður og birtar eftir hann nokkrar vísur, þar á meðal:

Hefir lengi hrumur karl
hírst við ásinn Lauga,
en nú steypist afgamall
ofan í kotið Hauga.

Jón bjó síðar í Haugakoti í Flóa, og hefur ort þessa vísu í ellinni, en hann varð allra karla elstur, dó 20. mars 1856, 96 ára að aldri, og hafði þá verið blindur í 20 ár. Guðrún kona hans dó 13. sept. 1836, 75 ára gömul.

1792-1805: Einar Jónsson, f. um 1750, og k. h. Ingveldur Jónsdóttir, f. um 1740. Hjá þeim er Halla Einarsdóttir, ekkja Jóns Knútssonar, sem fyrr er getið.

1820-1847: Diðrik Stephansson, f. um 1790, og k.h. Kristín Gissurardóttir, f. um 1788. Diðrik dó 14. mars 1831 og dánarorsök sögð slag (í kirkjubók). Kristín bjó áfram á jörðinni ásamt börnum sínum fram til 1847. Hjá henni var, fram til 1845 Jón Árnason, f. um 1799, skráður fyrirvinna heimilisins.

1845-1868: Guðmundur Diðriksson , f. um 1818, sonur Diðriks hér að ofan, og fyrri k.h., Ástríður Guðmundsdóttir, f. um 1811, d . 1855. 1862 giftist Guðmundur Vilborgu Guðmundsdóttur, vinnukonu sinni, sem hafði þá áður alið honum nokkur börn. Hún var fædd um 1832.

1868-1883: Guðmundur Pálsson, f. um 1817, og k.h. Guðrún Jónsdóttir, f. um 1816.

1881-1884: Jón Guðmundsson, f. um 1850, fyrrum húsmaður hjá nýnefndum Guðmundi, og bústýra hans (og barnsmóðir), María Guðmundsdóttir, fyrrum bústýra hjá Guðmundi, f. um 1853.

Guðmundur Vigfússon, hómópati. (mynd úr Árnesingi ii 1994)

1883-1901: Guðmundur Vigfússon, f. 4. júní 1852, d. 10. ág. 1927, og frá 1885 k.h. Guðfinna Erlendsdóttir, f. 12. mars 1859. Fyrstu ár Guðmundar í Laugarási var ráðskona hjá honum móðir hans, Auðbjörg Þorsteinsdóttir, f. 11. nóv. 1831, d. 20. jan. 1924.

Guðmundur var jafnan nefndur hómópati (smáskammtalæknir), og hafði hann lært hjá Magnúsi Andréssyni frá Syðra-Langholti . Þótti Guðmundur mjög fær í sinni grein, og eftir að hann fór frá Laugarási, sneri hann sér alveg að lækningum í Reykjavík[*]. Hann var fæddur í Stekkholti, Bisk., og ættaður að mestu úr uppsveitum Árnessýslu og úr Landsveit. Guðfinna kona hans var úr Skálholti, ættuð úr Laugardal og víðar. Guðmundur keypti Laugarásinn 1883 og átti hann fram til ársins 1917. Í raun má líta á Guðmund sem fyrsta lækninn í Laugarási.

[*Í Alþýðublaðinu 11. ágúst, 1927 birtist þessi dánarfregn: Guðmundur Vigfússon frá Laugarási, fyrrum smáskamtalæknir, varð bráðkvaddur síðdegis í gær á heimili sínu, Laugavegi 105. Hann var 75 ára að aldri. Hingað fluttist hann fyrir aldamótin, en átti um sex ára skeið, 1918 til 1924, heima norður á Þórshöfn. Eftir það fluttist hann hingað í annað sinn og hefir átt heima hér í Reykjavík síðan. Hann var mörgum að góðu kunnur. (innskot pms)]

1901-1902: Kjartan Vigfússon, f. um 1877, og k.h . Þórunn Björnsdóttir, f. um 1869.

1901-1902: Ögmundur Gíslason, f. um 1871, d . veturinn 1901-1902, og k.h. Helga Einarsdóttir, f. 1872.

1902-1907: Guðmundur Ófeigsson frá Fjalli á Skeiðum, f. um 1866, og k.h. Guðríður Erlingsdóttir, f. um 1872, systir Þorsteins Erlingssonar skálds. Þau fluttu svo aftur á Skeiðin 1907, en seinna að Galtastöðum í Flóa.

1904-1909: Magnús Halldórsson, f. um 1858, ógiftur, bjó með föður sínum, Halldóri Sveinssyni, f. um 1826, og tveimur systrum sínum, Ragnhildi, f. um 1854, og Kristínu, f. um 1866.

1907-1916: Gísli Guðmundsson, f. 1876, og k. h. Sigríður Ingvarsdóttir , f. um 1882. Þau fluttu 1916 að Úthlíð í Biskupstungum.

1916-1917: Guðmundur Guðmundsson, f. um 1888, og k.h. Ingibjörg Gunnarsdóttir, f. um 1891. Þau bjuggu síðar að Neistastöðum, Flóa.

1917-1923: Guðmundur Þorsteinsson, f. um 1878, og k. h. Steinunn Ögmundsdóttir, f. um 1877. Guðmundur var sonur Þorsteins bónda í Höfða og k. h. Guðrúnar Guðmundsdóttur. Systir Guðmundar var Jóhanna, sem bjó í Höfða, móðir Guðrúnar Víglundsdóttur, sem þar bjó til ársins 1980 og er heimildamanneskja mín við örnefnaskrá Laugaráss.

Guðmundur keypti Laugarás af Guðmundi Vigfússyni árið 1917 fyrir 5000 krónur og seldi jörðina héraðinu 1922 fyrir 11000 krónur.
Þau hjón fluttu að Þórarinsstöðum í Ytrihrepp.

III
Laugarás kemst í eigu Grímsneshéraðs.

Er hér, í þessum hluta ritgerðarinnar, stuðst við ýmsar þær ritaðar heimildir, sem getið er hér að aftan, svo þá heimildarmenn, sem upp eru taldir á fyrstu síðu örnefnaskrár.

Læknishérað Árnessýslu var stofnað með lögum 15. okt. 1875, og náði þá yfir alla sýsluna. En 3. sept. 1896 var Magnús Ásgeirsson frá Seyðisfirði (f. 1863, d. 1902), settur aukalæknir í aukalæknishéraði Árnessýslu skv. heimild í fjárlögum fyrir árin 1896-1901. Magnús sat á Kiðjabergi í Grímsnesi, en héraðið taldi Skeið, Hreppa, Tungur, Þingvallahrepp og Grímsnes.
Læknishéraðið var svo formlega stofnað með lögum 13. okt. 1899 og hét þá Grímsneshérað, enda hafði þá setið læknir í Grímsnesi, og líklegt, að menn hafi verið farnir að kenna aukalæknishéraðið við Grímsnesið. Grímsnesnafninu hélt það svo fram til 1944, en er frá þeim tíma kennt við Laugarás.

1899 taldi héraðið sömu hreppa og áður, að Þingvallahrepp undanskildum og Grafningi viðbættum. Grafningur var svo settur utan héraðsins 1907, um leið og Þingvallahreppur var tekinn inn á ný, en frá 1932 hefur hann ekki tilheyrt því og stærð héraðsins verið óbreytt síðan. Það voru þessir fimm hreppar, sem í upphafi voru nefndir, og Laugardalshreppur sá sjötti, en hann var tekinn út úr Grímsnesi.

Magnús á Kiðjabergi fékk lausn frá embætti á svipuðum tíma og héraðið var stofnað, og fyrsti læknir þess var ráðinn vorið eftir, 6. apr. 1900. Hann hét Skúli Árnason, fæddur á Kirkjubæjarklaustri 16. ág. 1865, d. 17. sept. 1954. Kona hans var Sigríður Sigurðardóttir, f. 29. okt. 1872, d. 21. maí 1911, frá Kópsvatni í Ytrihrepp, og þar sat Skúli rúmlega eitt ár hjá Sigurði tengdaföður sínum.

1901 tók hann svo Skálholt á leigu og bjó þar stórbúi fram til ársins 1927, en lausn frá embætti fékk hann 21. maí 1922.

Um kaup á Laugarási og byggingu fyrsta læknisbústaðarins vitna ég beint í ræðu Jóns Eiríkssonar (sjá heimildaskrá):

Eftir að Skúli sagði starfi sínu lausu árið 1921, komu oddvitar saman til þess að athuga um kaup á jörð. Fundurinn líklega haldinn hjá Magnúsi oddvita í Klausturhólum. Kosnir voru í framkvæmdanefnd Helgi Ágústsson frá Birtingaholti, Páll Stefánsson á Ásólfsstöðum og Eiríkur Stefánsson á Torfastöðum.
Helgi var í framkvæmdanefndinni í 10 ár, eða til 1931 ...

Framkvæmdanefndin keypti jörðina Laugarás árið 1922 af Guðmundi Þorsteinssyni, bónda þar, fyrir krónur 11 þúsund. Guðmundur mun hafa fengið bakþanka af sölunni, hafði verið bent á hvað jarðhitinn væri mikils virði, og vildi rifta kaupunum. En samninginn var þá búið að færa í veðlánabækur og sýslumaður búinn að skrifa upp á samninginn, svo að honum varð ekki rift. Afsali var þinglýst 16/12 1924.

Það var mikið happ fyrir héraðið, að jörðin var keypt, og verður framkvæmdanefndinni seint fullþakkað. Bæði er jörðin miðsvæðis í héraðinu, jörð er frjósöm og mikill jarðhiti, eins og síðar mun verða vikið að.

En nú vantaði læknisbústað. Helgi fékk boð frá Magnúsi Jónssyni, ráðherra og prófessor frá Úlfljótsvatni, um að héraðið gæti fengið keypt hús, sem reist var við Geysi fyrir konungskomuna 1907. Það var járnklætt að utan, en panelklætt að innan.
Magnús ráðherra lét rífa húsið, en Helgi sá um flutninga á því frá Geysi í Laugarás. Fékk hann Tungnamenn þrjá til þess, og var það flutt á útmánuðum á klaka. Lentu þeir í rigningatíð, panellinn skemmdist , og húsið var svo gisið, að varla varð líft í því.

Jóhann á Iðu reisti svo húsið. Var það byggt uppi á Laugarásnum, fram á brekkubrúninni.

Fyrsti læknisbústaðurinn (mynd Ólafur Einarsson, myndin er tekin úr grein BH í Árnesingi)

Helgi fékk Jón Erlendsson frá Sturlureykjum til þess að leggja hitalögn frá hverunum í húsið, en þá var Jón búinn að leggja hitalögn í hús heima hjá sér. Verkfræðingur var Benedikt Gröndal.
Jón lagði einfalda gufuleiðslu úr járnrörum og steypti í kringum hverina. Ofna smíðaði hann úr sléttu, galvaniseruðu járni og lóðaði. Ofnarnir entust illa, vildu springa.
Einnig þurfti að endurbæta lagnir. En þá þekktist ekki annað. Gufan var notuð til eldunar og upphitunar.
Helgi vann með Jóni við að leggja hitann og við frágang á húsinu. Einnig segist Helgi hafa unnið blett kringum húsið með handverkfærum og sáð í það grasfræi. Enginn valtari var til, og stigu læknirinn og fjöskylda hans grasfræið niður. Fyrir þetta stúss fékk Helgi 2-3 krónur á dag.
Óskar læknir Einarsson sat einn vetur í Birtingaholti, meðan verið var að byggja húsið.


Heildarverð hússins var 26000 krónur, og greiddi ríkið 3000 krónur til byggingarinnar, auk hússins á Geysi, metið á 8000 krónur. Húsið var eitt hið fyrsta á Suðurlandi, sem hitað var með jarðhita, og fyrsti hverinn, sem var virkjaður var, Draugahver.
Gufuofnarnir, sem reyndust eins og fyrr sagði illa, voru fjarlægðir á áliðnu hausti 1926 og komið upp hringrásarkerfi um venjulega ofna og til þess virkjaður nafnlaus hver rétt ofan Bæjarhvers. En gufa til eldunar var notuð fram á fimmta áratug aldarinnar og gafst vel.

Eins og þegar er komið fram, var þessi fyrsti bústaður langt frá því að vera gott húsnæði, og hefði vafalaust verið óíbúðarhæfur, ef ekki hefði komið til mikil og góð upphitun. Bæði var húsið gisið og steypan í kjallaranum léleg. Því var það, að 25. mars 1938 samþykkja oddvitar að bjóða út byggingu nýs læknisbústaðar.

Lægsta tilboðið átti Jón Guðmundsson frá Blesastöðum og var samið við hann. Hafist var handa við að rífa gamla húsið í maí 1938 og voru innviðir þess notaðir í nýja húsið eftir föngum, en það var íbúðarhæft í október sama ár. Um sumarið bjó læknirinn, Ólafur Einarsson og fjölskylda hans, í skúr á hlaðinu framan við húsgrunninn, vinnustúlkur hans í öðrum skúr við hlöðuna og vinnumaðurinn í tjaldi. Hús þetta stendur á sama stað og gamla húsið stóð á áður. Verð þess var 22.500 krónur og greiddi ríkið rúman þriðjung þess.

Heimildaskrá:
Prentaðar heimildir:

Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók, 2. bindi, Khöfn 1918.
Biskupasögur, I bindi, Guðni Jónsson bjó til prentunar, Rvík. 1953.
Brynleifur Tobíasson: Hver er maðurinn - Íslendingaævir, Rvík. 1944.
Guðni Jónsson: Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur IV, Rvík . 1944.
Jón Eiríksson (Heimildarmaður hans er Helgi Ágústsson frá Birtingaholti): Ræða, flutt 19/11 77 í Aratungu í boði heilsugæslustöðvarinnar í Laugarási, prentuð jólablaði Þjóðólfs 1977.
Jón Halldórsson: Biskupasögur, 2. bindi, Khöfn 1862-78.
Lárus H . Blöndal og Vilmundur Jónsson: Læknar á Íslandi, Rvík 1970 (Önnur útg.).
Sigurbjörn Einarsson: Skálholtsstaður, stutt leiðsögn um staðinn og sögu, Rvík. 1963.
Sturlungasaga, III. bindi, Guðni Jónsson bjó til prentunar, Rvík 1953.
Suðri II, Bjarni Bjarnason ritstýrði , Rvík 1970.

Bækur úr Þjóðskjalasafni:

Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit.
Manntal á Íslandi 1703-1900. Manntalsbækur sýslumanns yfir Árnessýslu, Steindórs Finnssonar, 1742-1773.
Nafnlausar jarðalýsingar Biskupstungungna, samið af Birni Bjarnasyni, hreppstjóra, Brekku.
Prestsþjónustubækur og sálnaregistur Skálholts og Torfastaða 1750-1950.
Úttektarbækur Biskupstungnahrepps 1901-1907.

Uppfært 01/2019