Vatnsveitufélagið

Vatnsveitufélagið

Það safnast efni inn á þennan vef. Mörgu af því sem þangað er komið, er ólokið og því ekki birtingarhæft enn. Nú þykist ég hafa gert grein fyrir Vatnsveitufélagi Laugaráss, að svo miklu leyti sem mér er unnt. Ég byggi á fundargerðum og öðrum gögnum, frá Oddvitanefndinni, hreppsnefnd Biskupstungnahrepps, Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitufélagi Laugaráss. Auk þessa leyfi ég mér að byggja nokkuð á eigin upplifun, enda var ég íbúi í Laugarási stærstan hluta þess tíma sem félagið starfaði, auk þess sem ég sat í stjórn þess í ein 8 ár og meðal þeirra voru síðustu ár félagsins.

Sannarlega þætti mér vænt um að fá ábendingar frá þeim Laugarásbúum sem þekkja sögu félagsins og gætu gert efnislegar athugasemdir við umfjöllunina.

Talsvert hérað, þetta læknishérað

Talsvert hérað, þetta læknishérað

Þó svo fátt birtist á þessum vef þessa mánuðina, þýðir það ekki að vinna við hann liggi niðri. Þvert á móti. Einhver stærsti hluti vefsins er saga læknishéraðsins, Grímsneslæknishéraðs sem síðan varð Laugaráslæknishérað. Ekki neita því, að ef læknissetrið hefði alltaf verið í Laugarási, væri þetta einfaldara viðfangs, en vegna þess að fyrstu tvo áratugi læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu var læknisseetrið í Skálholti og eins og við vitum öll, þá er saga þess staðar umfangsmeiri en svo að ég leggi í að taka hana saman.

Hagsmunafélaginu gerð nokkur skil.

Hagsmunafélaginu gerð nokkur  skil.

Hagsmunafélag Laugaráss fæddist lifði og dó síðan. Sannarlega var þetta hið merkasta félag og kom ýmsu góðu til leiðar. Kannski má segja að það hafa haldið Laugarásbúum saman og skapaði heimikla samkennd, allavega meðan fólkið var sæmilega ásátt um hvert stefnt skyldi.

Nú er ég sem sagt búinn að taka saman það efni sem ég hef komið höndum yfir, um Hagsmunafélag Laugaráss. Þar sem verkefni félagsina voru af ýmsum toga hef ég kosið að skipta umfjölluninni um það í þrennt: BÖRN OG LEIKVÖLLURINN, FRAMFARAMÁL og HITAVEITAN. Þá ákvað ég að taka saman í einn þátt upplýsingar um stjórnar- og nefndafólk.

Ég hef reyndar áður birt þættina um börnin og leikvöllinn og stjórnar- og nefndafólkið, en nú bætist við þáttur um önnur mál sem félagið beii sér í og kallast hann Framfaramál. Ég á alveg eftir að fjalla um hitaveitumálin og aðkmu hagsmunafélagsins að þeim. Það hyggst ég gera með sértökum kafla um hitaveituna, sem ég læt falla undir yfirflokkin sem ber nafnið “STARFSEMIN”.

Tvennt vil ég nefna í þessu sambandi:

  1. Mér finnst áríðandi, að þau Laugarásbúa sem muna þá tíma sem um er fjallað, hafi samband við mig ef þau muna hluti öðruvísi en ég hef greint frá, eða þá þau langar að bæta einhverju við. Netfangið mitt er pallsku hjá gmail.com og síminn 8989152.

  2. Ég hef valið myndir af handahófi til að lífga upp á textann og hef reynt að hafa þær sem næst umfjöllunarefninu hverju sinni. Þessar myndir eru úr því samfni sem ég á eð hef fengið frá öðrum. Ég hef áður beðið fólk að leyfa mér að komast í myndir sem það á frá Laugarási og ítreka þá beiðni ennþá.

Með Ólafsbörnum inn í sumarið

Með Ólafsbörnum inn í sumarið

Í ágúst á síðasta ári átti ég fund með börnum Sigurlaugar Einarsdóttur og Ólafs Einarssonar, læknis, í sumarhúsi Sigríðar í Laugarási. Þarna voru fjögur barnanna hjónanna, en þau eru á aldrinum frá 78-92 ára. Tveir bræður þeirra, þeir Hilmar og Grétar eru látinir.

Ég skráði síðan niður frásögn þeirra af því hvernig æska þeirra í Laugarási var á árunum sem Ólafur faðir þeirra var læknir hér, sem var frá 1932 til 1947.

Þó svo Ólafur hafi látið af starfi í Laugarási, lauk sögu þessarar fjölskyldu á þessum stað hreint ekki. Þau eiga öll sumarhús í Laugarási og dvelja þar eins oft og kostur er.

Fjölskyldan lét mér einnig í té allmikið af myndum frá tíma þeirra í Laugarási og þær er að finna í frásögninni, sem ber heitið Fjölskyldan sem fór, en fór samt aldrei.

Ég er þeim systkinum, Einari, Jósef, Sigríði og Sigurði, afar þakklátur fyrir að rifja upp með mér þá sögu Laugaráss sem birtist í frásögn þeirra, en Litli Bergþór birtir hana einnig í vorblaðinu þetta árið.

Bara svona um stöðu mála

Bara svona um stöðu mála

Í sannleika sagt er hér ekki um að ræða neinar stórfréttir, enda hefur hugur minn verið talsvert bundinn við annað undanfarið ár eða svo. Þessi biðtími þýðir þó engan veginn að ég hafi gefist upp á rólunum, þvert á móti hefur tíminn nýst nokkuð vel í vangavelturu um ýmislegt sem að þessum vef lýtur, en því munu verða gerð skil síðar.

Þrennt vil ég nefna hér og nú um vefinn:

  1. Ég er langt kominn með að flytja inn efni um Hagsmunafélag Laugaráss, sem var og hét, en er ekki kominn svo langt enn að unnt sé að opna fyrir efnið. Þetta var safaríkt félag að mörgu leyti, og söknuður að félagsskap af því tagi.

  2. Ég hef fengið tvær myndir af byggingu Hvítárbrúar haustið 1957. Myndirnar tók Þorsteinn Eiríksson frá Löngumýri, en hann var skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum. Það var barnabarn konu hans, Sólveigar Hjörvar, Baldur Vilhjálmsson sem fann þessar myndir í fórum ömmu sinnar. Myndirnar eru komnar á vefinn HÉR.

  3. Ég hef einnig fengið loftmynd af Laugarási frá 1993 (allavega meðan enginn heldur öðru fram með rökum). Það var Guðbjörg Runólfsdóttir sem tók þessa mynd og leyfði mér að nota og hana læt ég fylgja þessu innleggi, en hana er einnig að finna HÉR.

Svona í aðdraganda Þorra

Svona í aðdraganda Þorra

Stöðugt verður saga þorrablóta í Biskupstungum lengri og vegna þess að þorrablótsnefndir Skálholtssóknar hafa verið einkar duglegar að halda fundargerðir í undirbúningi blótanna á fjögurra ára fresti, fannst mér tilvalið að taka saman yfirlit yfir þessa árlegu gleði, þau ár sem hún hefur verið í umsjá fólks í sókninni.

Við undirbúning skemmtiatriða fyrir þorrablót kynnist fólk hvert öðru með allt öðrum hætti en í hversdagslegum samskiptum. Reyndin er sú, að í hverjum og einum leynist eitthvað sem ekki var á allra vitorði áður. Samvinna af þessu tagi þjappar fólki saman, á árstíma sem það þarf kannski frekar en á öðrum tímum, að sleppa fram af sér beislinu og kalla fram aðrar hliðar á sjálfu sér, jafnvel einhverjar sem það vissi sjálft ekki að væru þarna.

Hér er hlekkur á upphafssíðu þar sem ég hef gert lauslega grein fyrir upphafi þess að haldin voru þorrablót eða vetrarskemmtanir í Biskupstungum. Inni á þessari síðu eru síðan hlekkir á einstök þorrablót sem Skálholtssókn hefur staðið fyrir frá 1963 til 2019.

Þorrablót Skálholtssóknar 1963 - 2019

Iðuferja 1946

Iðuferja 1946

Það er er verða tímakorn síðan ég bætti síðast inn nýju efni á þennan vef, en það á sínar skýringar, sem ég mun mögulega greina frá síðar.

Ég hef leitað töluvert að myndum af ferjustaðnum við Iðu, en ekki haft erindi sem erfiði fyrr en ég fann þrjár myndir, sem Geir Zoega, vegamálastjóri tók 1946. Myndirnar eru varðveittar á þjóðminjasafninu og ég fékk leyfi til að birta þær á þessum vef.. Þær eru afar skýrar eftir að ég er búinn að lagfæra þær aðeins.

Ég er nú búinn að koma myndunum fyrir á vefnum á hentugum stað, þar sem fjallað er um aðdragandann að byggingu brúarinnar. Slóðin á síðuna sem geymir myndirnar er: https://www.laugaras.is/fyrstu-tillgur

Með því að smella á myndirnar má sjá þær stærri.

Söguskilti og fleira

Söguskilti og fleira

Laugardaginn 24. ágúst, síðastliðinn, fögnuðum við því í aldeilis ágætu Laugarásveðri, að tvö söguskilti voru afhjúpuð við norðurenda Hvítárbrúar. fjölmargir núverandi go fyrrverandi Laugarásbúar, ásamt nágrönnum nær og fjær, komu þarna saman af þessu tilefni.

Nú hef ég tekið saman efni um aðdragandann og athöfnina á sérstaka síðu á vefnum, sem finna má með því að smella hér, en þessi síða fellur í flokkinn Mannlíf.

Það er nú ýmislegt annað sem ég hef unnið að og það helsta er þetta:

Hátíðirnar sem við höfum haldið í Laugarás frá aldamótum og þorrablót Skálholtssóknar gegnum tíðina. Þá fékk ég skemmtilegar myndir frá fjölskyldu Ólafs Einarssonar, sem var héraðslæknir hér frá 1932-1947.

Svona smá bætist við þetta, eftir því sem tími vinnst til.

Örnefni og saga á janúardegi

Örnefni og saga á janúardegi

Í dag kynni ég til sögunnar tvennt og hvorttveggja úr fórum Bjarna Harðarsonar, sem ólst upp í Lyngási og sem flestir sem þetta lesa, munu kannast við.

Í Árnesingi II (Árnesingur var eða er rit Sögufélags Árnesinga) árið 1992, birtist eftir Bjarna grein sem bar heitið: Laugarás í Biskupstungum - örnefnaskrá Laugarásjarðar.

Í Árnesingi III, sem kom út 1994 birtist svo nokkurskonar framhaldsgrein undir heitinu Laugarás í Biskupstungum þar sem Bjarni rekur sögu Laugaráss.

Bjarni veitti mér, fúslega, leyfi til að birta þessar greinar á vefnum og þangað eru þær nú komnar. Það sem ég hef bætt við, er aðallega myndefni eftir föngum, sem ég vona að geti orðið til nokkurrar aðstoðar lesendum.

Á næstsíðasta degi ársins

Á næstsíðasta degi ársins

Í dag opna ég á nýjan þátt á þessum vef og það er sannaralega tilefni til, en ég fjölyrði ekki um það.

Þessi þáttur hefur reynst heldur fjölbreyttari en ég átti von á þegar ég hélt af stað og mér segir svo hugur um, að enn eigi eftir að bætast við efni, bæði frásagnir og myndir.

Hér er um að ræða sögu barnaheimilisins sem Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands rak hér í Laugarási, Krossinn, í um tvo áratugi. Þetta var stórt barnaheimili, rúmaði 120 börn í einu og var starfrækt frá um það bil miðjum júní til síðari hluta ágúst ár hvert. Þetta þýðir að um eða yfir 3000 börn á aldrinum 3-8 ára áttu hér viðdvöl, í allt að átta vikur. Á síðari hluta starfstímans var dvalartíminn reyndar styttur hjá mörgum, en það þýddi að á hverju sumri voru mögulega um 180 börn í Krossinum einhvern tíma.

Á 100 ára afmæli fullveldisins

Á 100 ára afmæli fullveldisins

Til hamingju með daginn, við öll. Hann kann að vera að einhverju leyti litaður að atburðum undanfarinna daga, en er samt bara talsvert merkilegur.

Í dag opna ég fyrir umfjöllun um hús og íbúa í Laugarási frá 1971 til 1990.

Sem fyrr: ef þú rekst á eitthvað sem betur má fara eða réttara telst, treysti ég á að þú látir mig vita. (pallsku (hjá) gmail.com

Hús og íbúar 1961 til 1970

Hús og íbúar 1961 til 1970

Áratugurinn sem hér um ræðir markar hröðustu uppbygginguna í Laugarási og meginástæðuna má rekja til þess að hér var hægt að fá nóg land og hita. Auk þess var auðvitað búið að opna Hvítárbrúna.

Mér finnst við hæfi að taka þátt í hátíðahöldum vegna loka fyrri heimstyrjaldar, með því að opna fyrir aðgang að umfjöllun um húsin og íbúana í Laugarási frá 1961 til 1970.

Á þessum degi var faðir minn 43 daga gamall og bjó sig undir veturinn á Rangárlóni í Jökuldalsheiði ásamt fjölskyldu sinni, allsendis óvitandi um það, að loksins hafði stórgölluðu mannfólkinu tekist að hætta að drepa hvert annað í stríði, allavega í bili.