Með Ólafsbörnum inn í sumarið

Í ágúst á síðasta ári átti ég fund með börnum Sigurlaugar Einarsdóttur og Ólafs Einarssonar, læknis, í sumarhúsi Sigríðar, dóttur þeirra, í Laugarási. Þarna voru fjögur barna hjónanna, en þau eru á aldrinum frá 78-92 ára. Tveir bræður þeirra, þeir Hilmar og Grétar eru látinir.

Ég skráði síðan niður frásögn þeirra af því hvernig æska þeirra í Laugarási var á árunum sem Ólafur faðir þeirra var læknir hér, sem var frá 1932 til 1947.

Þó svo Ólafur hafi látið af starfi í Laugarási, lauk sögu þessarar fjölskyldu á þessum stað hreint ekki. Þau eiga öll sumarhús í Laugarási og dvelja þar eins oft og kostur er.

Fjölskyldan lét mér einnig í té allmikið af myndum frá tíma þeirra í Laugarási og þær er að finna í frásögninni, sem ber heitið Fjölskyldan sem fór, en fór samt aldrei, en hana er að finna undir hlekknum BYGGÐIN/Frumbyggjar og einnig undir hlekknum MYNDEFNI, sem er að finna efst á þessari síðu.

Ég er þeim systkinum, Einari, Jósef, Sigríði og Sigurði, afar þakklátur fyrir að rifja upp með mér þá sögu Laugaráss sem birtist í frásögn þeirra, en Litli Bergþór birtir hana einnig í vorblaðinu þetta árið.

————————————-

Nú hef ég ekki lengur búsetu í Kvistholti, heldur höfum við Dröfn fundið okkur ból á Selfossi. Þaðan hyggst ég halda áfram að fást við að skrá ýmislegt sem lýtur að Laugarási í fortíð og nútíð - jafnvel freista þess að skyggnast inn í ókomna tíð, hver veit.