Starfsfólkið

Lengst af var starfsmannafjöldinn í Krossinum svipaður því sem var þegar starfsemin hófst árið 1952, en þá störfuðu á barnaheimilinu, auk forstöðukonunnar, eftirlitskennari, af karlkyni, átta barnfóstrur, vökukona, þrjár stúlkur í þvottahúsi, fjórar í eldhúsi þar af ein ráðskona, tvær ræstingakonur, vélamaður og þrjár stúlkur sem störfuðu við afleysingar. Helsta breytingin sem varð fólst í því að barnfóstrum var fjölgað hin síðari ár úr tveim í þrjár í hverjum svefnskála. Þá lagðist starf eftirlitskennarans af, líklegast þegar Jóna Hansen kom til starfa 1961.


Eftirlitskennarinn var karlmaður og eini starfsmaðurinn þess kyns sem kom að vinnu með börnin. Hlutverk hans var að stórum hluta að sinna málefnum sem snertu piltana sérstaklega, en alltaf var eitthvað um það að börnin þyrftu á að halda kennslu og þjálfun í að sinna ýmsum frumþörfum. Hlutverk hans var einnig að vera forstöðukonu til aðstoðar við daglegan rekstur. Hann var eiginlega varaforstöðumaður, sem sést á því, að þegar forstöðukona forfallaðist og hætti störfum sumarið 1957, tók eftirlitskennarinn við starfi hennar. Eftirlitskennarar voru nýútskrifaðir kennarar eða guðfræðingar.

Vökukona var, eins og starfsheitið ber með sér, konan sem vakti þegar aðrir sváfu. Hún aðstoðaði börnin ef á þurfti að halda á nóttunni, en svefnskálar barnanna voru fjórir og 30 börn í hverjum. Drengir sváfu í skálum 1 og 2 (sjá mynd) en Barnfóstrur störfuðu saman tvær og tvær og síðar þrjár og þrjár. Hvert par sá um börnin í einum skála, eða um 30 börn að jafnaði. Fóstrurnar höfðu afdrep, eða gistiaðstöðu í tengigöngum milli skálanna. Það var í það minnsta svo á einhverjum tíma, Að öðru leyti voru herbergi starfsfólks í skála 7 (sjá mynd).

Fóstrurnar voru alla jafna á aldrinum 16 - 20 ára og þetta starf var talsvert eftirsótt og nokkrar viðmælenda höfðu sagt rangt til um aldur til að fá vinnu í Krossinum. Þannig voru fóstrur stundum allt niður í 15 ára gamlar. Það sem þótti einna eftirsóknarverðast við þetta starf var tækifærið til útivistar.

Uppfært 12/2018