Biðtími

Svo var farið að standsetja

Skálaranir 10 voru fluttir í Laugarás 1945. Þar var þeim raðað upp með tileknum hætti og vinna hófst við að standsetja þá, en þrátt fyrir að á hverju ári síðan væri sagt frá því í blöðum, að búist væri við að næsta sumar tæki barnaheimilið í Laugarási til starfa, var það ekki fyrr en sumarið 1952 sem það gerðist. Töfinni olli skortur á fjármagni og meiri vinna við standsetninguna en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi.

Nokkuð var fjallað um þetta fyrirhugaða barnaheimili í blöðum. Þannig var greint frá þessu í Tímanum í febrúar 1945:
Hefir Rauða krossinum verið afhentir 10 setuliðsskálar úr timbri endurgjaldslaust, og verða þeir fluttir að Laugarási og reistir þar sem sumardvalarheimili, væntanlega á vori komanda. 

Í mars 1946 segir í Alþýðublaðinu:
Enn er þó mikið óunnið og þarf mikið átak fjárhagslega og verklega, ef takast á að starfrækja heimilið næsta sumar.

Ingólfur á Iðu 1980  (mynd pms)

Ingólfur á Iðu 1980
(mynd pms)

Haustið 1946 var tekið fyrir hjá framkvæmdanefndinni tilboð Ingólfs Jóhannssonar á Iðu um að hann tæki að sér að sjá um alla innanhússmíð frá áramótum 1946-7.

Í maí 1948 stóð nefndin frammi fyrir því að nánast ekkert hafði verið gert í Laugarási í um tvö ár.

Gunnar Andrew

Gunnar Andrew

Í ágúst 1949 segir í Morgunblaðinu:
Að lokum barst talið að barnaheimili Rauða Krossins að Laugarási í Biskupstungum. Sagði Gunnar Andrew skrifstofustjóri, að það myndi taka til starfa næsta vor. Væri nú unnið að því að koma fyrir allskonar heimilisvélum. Verður þetta mjög fullkomið barnaheimili, sem á að geta rúmað um 200 börn. 

Haustið 1949 var ákveðið að taka lán vegna framkvæmdanna og farið í að panta ýmsa innanstokksmuni frá Bandaríkjunum.

Á fundi nefndarinnar í byrjun árs 1950 er lýst ýmsum göllum sem fram höfðu komið á húsunum, bagalegast reyndist þaksig sem kostnaðarsamt var að bæta. 

Reykjavíkurdeild RKÍ

Í júní 1950 var stofnuð Reykjavíkurdeild innan Rauða krossins. Hún fékk meðal annars það verkefni að halda utan um sumardvalir reykvískra barna. Ákveðið var að Reykjavíkurdeildin tæki að sér rekstur barnaheimilisins í Laugarási þegar það yrði tilbúið.  Þetta gerðist síðan á fyrri hluta árs 1952. Þar með hætti Rauði Kross Íslands að annast sumardvalir.  Þegar þarna var komið var Kristinn Stefánsson, læknir, formaður Laugarásnefndarinnar og með honum í nefndinni voru þeir dr. Bjarni Jónsson og Óli J. Ólason, stórkaupmaður.

 

Í mars 1952 birtist þetta í Morgunblaðinu:

Barnaheimilið í Laugarási tekur til starfa næsta sumar.

Hið veglega sumardvalarheimili fyrir börn, sem Rauði kross Íslands hefur um alllangt skeið haft í smíðum austur í Laugarási í Biskupstungum, mun verða fullgert á sumri komanda. Þar eiga 120 börn að geta eytt sumarleyfi sínu, í hinu fegursta umhverfi, við hinn bezta aðbúnað.

Sumardvalarheimili þetta hefur verið Rauða krossi Íslands æði kostnaðarsöm stofnun. Þegar hefur úr sjóði RKÍ verið varið til dvalarheimilisins 900 þús. kr.

Staðhættir, húsnæðið 

Barnaheimilið í Laugarási, “Krossinn” 1960. Mynd frá Hallfríði Konráðsdóttur, líklega tekin af Matthíasi Frímannssyni.

Loftmynd af Laugarási tekin 1964. Mynd fengin hjá Landmælingum.

Til þess að komast að barnaheimilinu var ekið upp brekku frá Skálholtsvegi, þar sem nú er afleggjari að Asparlundi (Kirkjuholtsvegi 1) og Kirkjuholti. Efst í holtinu var hlið. Fyrir innan það tók síðan við allbrött brekka niður á opið svæði fyrir framan húsin, en aðaldyrnar snéru í austur, að Kirkjuholti.  Vinstra megin þegar komið var niður, í brekkurótunum, stóð stakur skáli, sem nýttur var sem geymsla fyrir leikföng, ferðatöskur og annað sem geyma þurfti. Sunnan hans hafði verið settur upp kofi með rafstöð. Að öðru leyti voru skálarnir 9, en þeir mynduðu sambyggða þyrpingu. Hver skáli var 100 fm.

 

Uppfært 12/2018