Vonir um endurreisn

Þrátt fyrir að börnum hefði frekar farið fækkandi í sumardvöl á vegum Reykjavíkurdeildar, var engan bilbug á rauðakrossfólkinu að finna.

Stefán Hirst, sr Jón Auðuns, Jónas B. Jónsson og Arinbjörn Kolbeinsson.

Á sameignlegum fundi stjórna RKÍ og Reykjvíkurdeildar, sem var haldinn í Laugarási um miðjan júlí 1971 var fjallað um framtíð Krossins og eins og svo oft áður, lélegt ástand húsa og búnaðar. Þarna var samþykkt að ljúka endurbótum á raflögnum, kaupa inn tæki í þvottahúsið og endurskipuleggja vinnu þar, setja sérstaka kvoðu á gólfið til að einfalda þrif og síðan að gera endurbætur í samræmi við kröfur sem brunavarnaeftirlitið myndi setja fram, en þarna lá ekki fyrir hverjar þær væru.
Þarna var einnig fjallað um hvernig staðið skyldi að framhaldinu “Þar sem augljóst er, að barnaheimilið að Laugarási verður ekki nothæft í nörg ár enn”.
Nefndur var sá möguleiki að “hefja athugun á nýju heimili t.d. í sambandi við einhvern heimavistarskóla, var sérstaklega rætt um fyrirhugaðan skóla í Biskupstungum”. Þá var ákveðið að stefna að því að nýja barnaheimilið verði tilbúið til notkunar þegar það gamla þyrfti að hætta.

Þarna var kosin sérstök nefnd til að kanna möguleika á endurbyggingu í Laugarási. Nefndarmennirnir voru þeir Stefán Hirst, hd., formaður, sr. Jón Auðuns dómprófastur, Jónas B. Jónsson, fræðslustjóri og Arinbjörn Kolbeinsson, læknir.
Nefndin skilaði greinargerð þar sem lagt var til að byggt yrði í Laugarási fyrst og fremst fyrir rekstur sumardvalarheimilis  fyrir börn.  Stjórn Reykjavíkurdeildar samþykkti einróma það sama á stjórnarfundi 1973. Þá lýsti stjórn RKÍ samskonar áhuga, en þó þannig að ný hús í Laugarási yrði hægt að nýta í lengri tíma en yfir sumarmánuðina.

.... uppbyggingin í Laugarási verður því meðal helztu verkefna næstu stjórnar.

Í skýrslu Reykjavíkurdeildar um málið segir:

Rekstur sumardvalarheimila fyrir Rvíkurbörn hefur verið einn meginþáttur í starfi deildarinnar á umliðnum árum og hefur sennilega aflað henni meiri vinsælda en nokkurt annað starf, sem hún hefur innt af hendi. Foreldrar barnanna svo og borgaryfirvöld hafa metið þetta starf og hafa þessir aðilar sýnt það í verki með því að greiða hallann á rekstri barnaheimilanna. Þörfin fyrir þessa starfsemi er enn fyrir hendi og það í vaxandi mæli í borg sem vex eins ört og R.vík, þessvegna álítur stjórn deildarinnar rétt að vinna áfram af alúð að þessum málum, uppbyggingin í Laugarási verður því meðal helztu verkefna næstu stjórnar. 

Svo mörg voru þau orð. Þeim fylgdu síðan athafnir, með því gerður var sameignarsamningur milli RKÍ og Reykjavíkurdeildar. Hann fól í sér að eignarhaldi skyldi þannig háttað að Reykjavíkurdeildin eignaðist 2/3 hluta Laugarásheimilisins en RKÍ héldi 1/3.

Sameignarsamningurinn:

Laugarás
Sameignar og samvinnusamningur.
1. Laugarás og eignir þar eru í eign R.K.Í að 1/3 og Reykjavíkurdeildar að 2/3.
2. Stjórn R.K.I. skipar af sinni hálfu einn mann í stjórn Laugaráss en Reykjavíkurdeildin tvo.
3. Stjórn Laugaráss sér um rekstur staðarins og hefur yfirumsjón með allri starfsemi þar. Hún sér um byggingarframkvæmdir og viðhald eigna og lands. Allar áætlanir um framkvæmdir, fjárþörf og notkun staðarins skulu lagðar fyrir stjórnir R.K.Í. og Reykjavíkurdeildar til staðfestingar.
4. R.K.Í. og Reykjavíkurdeild sjá um fjáröflun til framkvæmda í samræmi við samþykktar áætlanir og fjármagn til rekstrar.
5. Byggingaframkvæmdir skulu við það miðaðar, að hægt sé að hafa starfsemi í Laugarási allt árið.
6. Að Laugarási skulu vera sumardvalir barna 4 – 5 mánuði ár hvert og annast Reykjavíkurdeildin rekstur þeirra og ber ábyrgð á þeim. Starfsemi á öðrum tíma árs fer eftir ákvörðun stjórnar Laugaráss, en stjórn R.K.Í. og deildir R.K.Í. hafa forgangsrétt þar að.
 

Jónas B. Jónsson, Jóna I. Hansen og Svanbjörn Frímannsson

Jónas B. Jónsson, Jóna I. Hansen og Svanbjörn Frímannsson

Í stjórn Laugaráss voru síðan valin þau  Jónas B. Jónsson, formaður og Jóna Ingibjörg Hansen frá Reykjavíkurdeild og Svanbjörn Frímannsson frá RKÍ. 

... mikil áhugamanneskja um framtíð Krossins


Það held ég að fari ekki á milli mála, og það kemur fram beint og óbeint í gögnum frá RKÍ og Reykjavíkurdeildinni, að Jóna Hansen var eins konar „primus motor“  í þeirri vinnu sem í hönd fór. Þar fór mikil áhugamanneskja um framtíð Krossins.

Í skýrslu um starfsemina sem unnin var 1969 segir:

Framkvæmdar voru verulegar breytingar og endurbætur á húsunum í Laugarási til að bæta þar dvalarskilyrðin bæði fyrir börnin og fólkið sem annast þau. Í svefnskálununum voru áður rúm fyrir 120 börn, en vegna skilrúma sem sett voru í skálans eru þar nú rúm fyrir 112 börn í einu. Aðsókn að sumardvölunum hefur heldur minkað undanfarin ár og hefir því ekki þurft að neita eins mörgum og áður, en börn sem að einhverju leyti búa við erfiðar heimilisástæður eru að sjálfsögðu látin ganga fyrir um aðgang.

Eins og áður hefir Reykjavíkurborg styrkt þessa starfsemi, þannig að nú fáum við greiddan allan útlagðan kostnað, þó að það valdi okkur nokkrum erfiðleikum hve mikið af þessum greiðslum koma eftirá og stundum seint.

Eins og að líkum lætur liggur mikil vinna á bak við þetta starfs, sem engin sérstök greiðsla kemur fyrir. Við höfum átt því láni að fagna að hafa sömu forstöðukonurnar undanfarin ár, Jónu Hansen að Laugarási og Danfríði Ásgeirsdóttur að Efri Brú, sem báðar hafa gegnt þessum störfum með miklum ágætum. Vil ég í þessu sammbandi sérstaklega geta hins mikla og ágæta starfs Jónu Hansen þar sem hún hefur alla umsjón með lagfæringum og viðhaldi Laugaráss og er hægri hönd og raðgjafi stjórnarinnar í þessu sumardvalarstarfi. 

Árið eftir er, á aðalfundi Reykjavíkurdeildarinnar, fjallað um lélegt ástand húsanna og að vangaveltur hefðu verið um hvort eða hvernig staðurinn verði byggður upp „..en það mun kosta stórfé, sem ekki er á valdi deildarinnar“. 

Barnaheimilið í Laugarási, Krossinn, var starfrækt sumarið 1971 og síðan ekki söguna meir.
Það var ekki vegna þess að vilji eða metnaður Reykjavíkurdeildar stæði ekki til þess að halda rekstrinum áfram. Það virðist einfaldlega hafa verið deildinni og Rauða krossinum ofviða fjárhagslega að ráðast í mikla verk sem uppbyggingin myndi vera.

Það er áhugavert að fylgjast með því hvað var reynt og gert til þess að endurreisa Krossinn og því er fjallað um það undir kaflanum: Hugmyndir um uppbyggingu.

Uppfært 12/2018