Gagnrýni

Það fór ekki hjá því að einhverjir kæmu fram á sjónarsviðið til að gagnrýna starfsemi Krossins og reyndar sumardvalir ungra barna, svona yfirleitt. Þrátt fyrir að aðsóknin færi fremur vaxandi en hitt og þörfin virtist mikil á að börn kæmust úr borginni á sumrin. Hvort sem þar réðu frekar hagsmunir þeirra eða foreldranna, fór uppeldis- og sálfræðimenntað fólk að setja spurningamerki við sumardvalirnar.

Sigurjón Björnsson

Sigurjón Björnsson

Sigurjón Björnsson, sálfræðingur stígur fram.

Fyrsta greinin sem ég fann um þetta var eftir Sigurjón Björnsson, sálfræðing, sem birtist í Vísi, 2. júlí, 1963. Í greininni, sem er að stærstum hluta gagnrýni á sumardvalirnar, veltir hann fyrir sér hvað veldur mikilli ásókn og kemst einna helst að þeirri niðurstöðu að þær séu að verða að tísku.

Sú tízka er, eins og öll önnur tízka, nokkuð varasöm, því að í henni felst, að fólk framkvæmir athafnir, án þess að íhuga hvort gildar ástæður eru fyrir hendi eða ekki, heldur vegna þess að svo margir aðrir gera þetta sama og „þá hlýtur það að vera rétt". Tízkan er notuð sem  réttlæting og skálkaskjól.

Sálfræðingurinn varar við mögulegum sálrænum áhrifum á svo ung börn sem þarna eru um að ræða, niður í 4 ára gömul.

Vitum við nokkuð um, hvað gerist í sál slíks barns? Höfum við tryggingu fyrir því, að ekki myndist þar meiðsli og kaun, sem erfitt kann að vera að græða?

Sigurjón kallar eftir því að, séu börnin á annað borð send frá foreldrum sínum í svo langan tíma,  sé aðbúnaður barnanna með þeim hætti, að aðeins fólk sem til þess er hæft, vegna þekkingar á og reynslu af börnum og sem býr yfir nægilegri mannúð og hjartagæsku, sinni ummönnun þeirra, við góðar aðstæður. Svo heldur hann áfram: 

Engum sem til þekkir getur dulizt hugur um, að í þessum efnum eru miklir misbrestir. Og það er sannarlega mál til komið að fyrirkomulag og rekstur sumardvalarheimila verði tekin til gagngerrar athugunar. Þau mál eru á það mikilli ringulreið, að nálega hver sem er getur sett á stofn barnaheimili, ef hlýtt er vissum lágmarksskilyrðum. Og mér skilst að þessi skilyrði gangi helzt út á það, að tryggja að ekki sé of mikil hætta á að börnin fari sér að voða, að þau fái nóg að borða og að þeim sé þjónað sæmilega.  

Aðsókn í sumardvalir var með mesta móti þetta vor og í Alþýðublaðinu um miðjan maí birtist grein undir fyrirsögninni: Gífurleg aðsókn að sumarbúðum. Þar segir að fleiri hundruð börn séu á biðlista um pláss. Síðan segir í greininni:

Er nú hvert sæti skipað á öllum stöðum og á biðlista eru mörg hundruð börn. Virðist þörfin fyrir sumarbúðir barna á aldrinum 4-7 ára vera mjög brýn, og er aðkallandi verkefni að leysa á næstu árum úr vanda allra þeirra mörgu, sem ekki geta komið börnum sínum út úr borginni einhvern hluta sumarsins. Verkakvennafélagið Framsókn og Mæðrafélagið reka sumardvalarheimili fyrir börn á aldrinum 4—7 ára. Er það að Rauðhólum, og rúmar 86 börn. Er þar þegar hvert sæti fullskipað. Samt streyma enn inn beiðnir og eru þær komnar hátt á þriðja hundrað alls. Verður börnunum veitt öll umönnun í tvo mánuði, frá 20. júní  til 20. ágúst, og er gjaldið krónur 1300 á mánuði.
Rauði Kross Íslands rekur sumardvalarheimili fyrir börn í Laugarási, og munu þar dveljast 180 börn í þremur flokkum, á tímabilinu 11. júní til  27. ágúst.
 

Ekki er ólíklegt að grein Sigurjóns hafi haft áhrif og þá helst í þá veru að lágmarksaldur þeirra barna sem send voru til sumardavalar hækkaði og dvalartíminn var styttur. 

Ályktun barnaverndarnefndar

Barnaverndanefnd Reykjavíkur ályktaði um þessi mál vorið 1967 og beindi þeim tilmælum til foreldra og annarra uppalenda, að þeir sendu ekki yngri börn en 6-7 ára á sumardvalarheimili, nema brýna nauðsyn bæri til. Nefndin taldi, að börn innan 6 -7 ára aldurs hefðu yfirleitt alls ekki öðlast nægilegan þroska til að þola margra vikna nauðsynjalausan aðskilnað við foreldra sína og heimili. Loks taldi nefndin:

... að þróun sú, sem átt hefur sér stað hérlendis varðandi sumardvöl ungra barna sé óheppileg frá uppeldislegu sjónarmiði, en stefna beri að því að auka skilning foreldra á nauðsyn þess, að þeir annist börn sín sem mest sjálf og veiti þeim þá vernd og umhyggju, sem þau þarfnast.

Bænaskrá Valborgar

Valborg Bentsdóttir

Valborg Bentsdóttir

Það er ekki óvarlegt að halda því fram að kveikjan að ályktun barnaverndanefndarinnar sé grein sem Valborg Bentsdóttir (1911-1991), birti í Tímanum nokkrum vikum fyrr, sem bar heitið Bænaskrár á barnadaginn. Í bænaskránni fjallaði hún um ýmislegt sem laut að velferð barna og hluta greinar sinnar beindi hún til kvennadeildar Rauða krossins með þessum orðum:

Fyrst ég sit hér í sólskininu á sumardaginn fyrsta að lesa bænir mínar varðandi velferð barna í Reykjavík, get ég ekki látið hjá líða að senda ykkur línu.

Rauði krossinn hefur um allmörg ár haft forgöngu um flutning á börnum burt úr bænum. Þetta hófst á stríðsárunum og þótti nauðsyn vegna styrjaldarhættu. Heimstyrjöldinni lauk 1945, en í rúm 20 ár enn gengst Rauði krossinn fyrir hópflutningum barna úr bænum eins og Reykjavík sé eitthvað hættusvæði. Slíkur flutningur smábarna í fjöldabúðir er þeim sjaldan til farsældar og miklu oftar til tjóns. Rekstur heimilanna hefur líka farið versnandi vegna þess að mjög hefur skort hæft starfsfólk. Mjög oft hefur kornungum stúlkubörnum verið ætlað að hafa veg og vanda af gæzlu barnanna úti og það allstórum hópum. Alltof mörgum börnum hefur verið hrúgað saman í þröng húsakynni. Heimilin hafa verið snauð af leikföngum og fleira mætti telja til. — En ef þið viljið vita hvers vegna ég beini orðum mínum til ykkar er ástæðan, að „skrifleg kvörtun" send „réttum aðilum" hefur ekki borið árangur.

— Og bænin er:

Beitið áhrifum ykkar til dæmis til þess að frelsa 120 smábörn úr Reykjavík frá því að að vera send í einum hópi eins og fráfærulömb að Laugarási á vegum Rauða krossins í sumar.

Valborg skóf sem sagt ekki utan af því, en á þessum tíma var hún framámanneskja í stjórnmálum og kvenréttindamálum meðal annars.  Reykjavíkurdeild Rauðakrossinn, sem rak barnaheimilið í Laugarási sá sig knúið til að  svara skrifum Valborgar og ályktun barnaverndarnefndar og greinargerð deildarinnar birtist í dagblöðum í júní.

Greinargerð frá Reykjavíkurdeild RKÍ

Það fer ekkert á milli mála, að viðhorf til sumardvala barna breyttust talsvert á þeim tíma sem Krossinn starfaði, ekki síst að því er varðaði aldur barnanna, fjölda starfsmanna og dvalartíma. Við þessu var brugðist smátt og smátt og síðustu árin  dvöldu helst ekki yngri börn en sex ára í Laugarási. Efri aldursmörkin voru þá 8 ár.  Þá þróaðist dvalartíminn þannig að börnin dvöldu að jafnaði ekki lengur en sex vikur í senn.

Uppfært 12/2018