Fólk við ferjur

Rætt við Jón Bjarnason í Auðsholti. 

Viðtalið tók Geirþrúður Sighvatsdóttir og það birtist í Litla Bergþór í mars 1995

Biskupstungur hafa frá alda öðli verið umluktar torfærum ám, og áður en vegir og brýr nútímans komu til sögunnar upp úr síðustu aldamótum, voru ferjustaðirnir lífæð Tungnamanna.
Lögferjur voru á Hvítá við Iðu og Auðsholt. Aðrar ferjur voru á Brúará við Spóastaði og á Tungufljóti við Krók. Þeim fækkar nú óðum, sem aldir eru upp við ferjurnar og muna notkun þeirra.
Einn þeirra er Jón Bjarnason í Auðsholti, ern unglingur á níræðisaldri.

Ekið yfir Hvítá á ís, frá Laugarási yfir í Auðsholt. (mynd úr Litla Bergþór)

Fréttamaður Litla-Bergþórs brá sér í heimsókn til hans einn bjartan en kaldan vetrardag í byrjun mars, til að spjalla við hann um lífið við ferjustaðinn og fleira. Eins og flestum mun kunnugt liggur Auðsholt austan Hvítár, gegnt Laugarási og eru aðeins nokkur hundruð metrar milli staðanna, yfir ána. Ef aka á þjóðveginn, eru hinsvegar um 30 km frá Laugarási í Auðsholt. Fréttamaður var svo heppinn að Hvítá var á traustum ís og sótti Borgþór, sonarsonur Jóns, hann yfir ána á jeppatrölli sínu. Ferðin gekk vel og tók ekki nema nokkrar mínútur að aka yfir, þrátt fyrir skafrenning og þæfings færi.

Jón Bjarnason

Jón Bjarnason

Þegar við höfum komið okkur vel fyrír í stofunni hjá Jóni, liggur fyrst fyrír að spyrja um ætt og uppruna að íslenskum sið.

Ég er ættaður úr Tungunum í báðar ættir. Foreldrar mínir voru Bjarni Jónsson og Vigdís Pálsdóttir. Forfeður mínir í beinan karllegg hétu reyndar Jón hver fram af öðrum og bjuggu áður á Brú, Kjarnholtum, Galtalæk og víðar. Langafafaðir minn, Jón Jónsson, flutti að Skálholti 1808 og bjó þar á móti Johnsen, bróður biskupsfrúarinnar, sem er forfaðir Sveins í Tungu og þeirra systkina. Sonur hans, Jón langafi minn, flutti að Iðu og bjó þar. Hann giftist Elínu Hafliðadóttur, laundóttur ríks manns á Skeiðunum. Hún átti ekki arf eftir föður sinn, en hann gaf henni samt part úr Auðsholti um 1841.
- Það voru því ekki allir ríkir bændur vondir við launbörn sín, eins og mætti halda eftir þáttunum hans Baldurs Hermannssonar!

Nemendur í Reykholtsskóla fóru í vettvangsferð til að kynna sér ferjur í Biskupstungum 1980. Á myndinni kemur Einar Tómasson (1912-1988) í Auðsholti yfir ána til að ræða við krakkana, á ferjubátnum. (mynd pms)

- Og þannig vildi það til að ættin settist að í Auðsholti og það er 5. ættliðurinn, sem nú er að vaxa hér úr grasi.

Vettvangsferð 1980. Á myndinni kemur Einar Tómasson (1912-1988) í Auðsholti á ferjubátnum. (mynd pms)

Amma mín í móðurættina, Auðbjörg Runólfsdóttir var fædd og uppalin að Miðhúsum en átti reyndar ættir að rekja norður í Þingeyjarsýslu. Langafi hennar, Hallgrímur Jakobsson bóndi í Böðvarsnesi í Fnjóskadal (aths. blm. Þannig vill til, að á móti Hallgrími á jörðinni Böðvarsnesi í Fnjóskadal bjó á þessum tíma Jón nokkur Kolbeinsson. Hann var ekki skyldur Hallgrími, en hann er hinsvegar foríaðir Sighvatar Arnórssonar, þess er nú býr á Miðhúsum. Það er því tilviljun, að afkomendur beggja skuli koma við á Miðhúsum í Biskupstungum), var uppi í móðuharðindunum. Það var þröngt í búi og börnin mörg og hafði talast svo til að Þorsteinn Magnússon sýslumaður Rangæinga, sem eitthvað var venslaður honum, tæki dóttur hans Margréti í fóstur. Fór faðir hennar með hana suður Kjöl. En þegar suður kom var sýslumaður látinn og endaði Margrét í fóstri hjá hjónunum í Austurhlíð, þeim Guðmundi Magnússyni og Kristrúnu Gísladóttur. Nokkru síðar kom systir hennar, Guðbjörg, einnig í Austurhlíð sem vinnukona og það er þessi Guðbjörg, sem er formóðir mín, amma Auðbjargar.

Það er reyndar til saga af því hvernig Auðbjargar-nafnið er til komið. Miðhús áttu þá kirkjusókn í Úthlíð, en presturinn sat í Miðdal. Það stóð til að skíra barnið í höfuðið á ömmu sinni, Guðbjörgu, en þegar til kom hafði prestinum misheyrst nafnið, svo hún var skýrð Auðbjörg. Og þar við sat. "Það er ei vandskírt fátækra manna barn" eins og máltækið segir! (Svona var oft tekið til orða þegar um ábyrgðarlítil eða slæleg vinnubrögð var að ræða).

Vettvangsferð 1980. Á myndinni kemur Einar Tómasson (1912-1988) í Auðsholti á ferjubátnum. (mynd pms)

Auðbjörg giftist Páli Stefánssyni í Neðra-Dal, en hans ætt hafði þá búið þar í fjóra ættliði, frá því er Stefán Þorsteinsson, langafi hans, keypti jörðina af stólnum árið 1790. Páll, afi minn dó í Neðra-Dal 1890.

Ein formóðir mín í móðurætt var Guðrún dóttir presta-Högna á Breiðabólsstað, en hún kom til bróður síns, sr. Páls Högnasonar, sem var prestur á Torfastöðum í 47 ár, (frá 1753-1800). Hún giftist að Syðri-Reykjum.

Nú tilheyrði Auðsholt Biskupstungum til ársins 1978, þrátt fyrir það, að landfræðilega heyri það til Hrunamannahrepps. Veist þú hvers vegna svo var og sfðan hvenær?

Biskupsstóllinn í Skálholti er örugglega ástæðan og ég býst við að svo hafi verið alla tíð síðan biskupstóll kom í Skálholt. Auðsholt hefur alltaf verið tengt Skálholti vegna heynytja. Þeir heyjuðu hér á sumrin en treystu svo á ísinn á ánni á veturna til að flytja heyið yfir. Svo er miklu styttra í Laugarás yfir ána en til næstu bæja í Hrunamannahrepp, sem eru Hvítárholt annarsvegar og Bjarg, sem áður hét Bolafótur, hinsvegar. Mýrarnar eru líka toríærar, helst er að fara með bökkum ánna.

Er Auðsholt landnámsjörð?

Vettvangsferð 1980. Einar Tómasson (1912-1988) í Auðsholti. (mynd pms)

Ekki held ég það. Auðsholts er fyrst getið í Sturlungu, að því er ég best veit, þar sem Þórður Kakali biður Sigvarð biskup um að hitta sig "suður af Auðsholti". Annað Auðsholt er reyndar í Ölfusi, og svo vill til að landfræðilegar aðstæður eru mjög svipaðar. Þar stendur bærinn á hæð nálægt Ölfusá og mýrlendi í kring. - Hvort sem bæjarnafnið má rekja til þess eða ekki. - Það má geta þess, að samkvæmt fornu mati var Auðsholt ein af 12 hæst metnu jörðum í Árnessýslu. Í þá daga var talið mest um vert að slægjur væru góðar.

Nú hefur ekki verið hægt um vik að reka fé á afrétt Tungnamanna frá Auðsholti?

Nei, Auðsholt hefur alltaf rekið á Hrunamannaafrétt og ég veit ekki til annars en það hafi alltaf verið talið sjálfsagt mál. En helstu ástæður þess að skipt var yfir í Hreppinn voru, að þegar tæki til jarðræktar komu til sögunnar hjá búnaðaríélögunum var hentugra að tilheyra Hrunamannahrepp en Biskupstungum eins og gefur að skilja og svo það, sem reið baggamuninn, þegar heimkeyrslan byrjaði í skólanum.

Hvernig var ferjumannsstarfinu háttað?

Þar sem lögferjur voru, eins og hér og á Iðu, voru menn bundnir lagabókstaf að hafa alltaf mann til taks til að ferja fólk yfir. Ferjutollur var ákveðinn af stjórnvöldum og fór eftir því hvort menn voru lausir, ríðandi, með farangur o.s.frv.
Ef ferja þurfti hóp ríðandi manna, var yfirleitt einn hesturinn teymdur úr skutnum á bátnum og síðan reynt að láta hina hestana synda á eftir honum yfir. Hægt var að teyma tvo hesta, ef þeir voru þægir. En það varð að gæta þess að það mátti ekki strekkja á taumnum. Oftast gekk þetta vel. Hestar voru þó ekki sundlagðir eftir veturnætur, það var talið óhollt fyrir þá og þá þurfti að taka þá fyrr á gjöf.

Vettvangsferð 1980. Á myndinni kemur Einar Tómasson (1912-1988) í Auðsholti fræðir nemendur um Auðsholtsferju. (mynd pms)

Var mikil umferð hér yfir Hvítá?

Það hafa alltaf verið mikil samskipti við Laugarás þar sem það var næsta byggða ból. Þegar Grímsneslæknishérað var stofnað um aldamótin 1900 bjó Skúli Árnason læknir í Skálholti, þar til Laugarás var keyptur undir lækni- og heilsugæslustöð árið 1923. Þá fóru allir Hrunamenn, sem fara þurftu til læknis, hér um. Þar áður var næsti læknir að Laugardælum.

Það er svo einkennilegt að þó að síminn væri kominn hér 1907 upp að Kiðjabergi, var hann ekki lagður upp í Tungur fyrr en 20 árum seinna, 1927. Það hefði þó verið mikið hagræði vegna læknisins.

Nú, svo meðan skemmtanirnar voru haldnar á Álfaskeiði á sínum tíma var mikil umferð hér um af fólki úr Tungum og Grímsnesi í sambandi við þær.

Hvernig leit ferjan út?

Þetta voru bara ósköp venjulegir árabátar og ekki mjög stórir. Tóku kannski 4-6 menn með ferjumanni. Það eru enn til bátar hér, en upp úr 1960 voru þeir komnir með utanborðsmótor. Nú orðið eru þeir aðallega notaðir við veiðiskap.

Er einhver veiði í ánni?

Hún er nú upp og ofan. Laxveiði er sögð í Hvítá upp að Bergsstöðum, samkvæmt manntalinu 1801.

Eru ekki vöð á Hvítá?

Jón: Hvítá er hvergi reið eftir að Tungufljót kemur í hana. Næsta vað fyrir ofan Auðsholt er við Kópsvatn. Séð yfir ármót Stóru-Laxár og Hvítár frá Auðsholti að sumri til.

Séð yfir í Auðsholt í vóvember 2017 (mynd PMS)

Voru fleirí ferjur á Hvítá en sú við Iðu?

Það var lögferja við Laugadæli, en það voru náttúrlega fleiri sem áttu báta. Það er til dæmis til skemmtileg saga af Ófeigi ríka á Fjalli, sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar. Hann sendi vinnumenn sína í kaupstað og hafði gert áætlun um það hversu lengi þeir væru í ferðinni. Þeirra ferð gekk vel, svo þeir voru komnir til baka einum degi fyrr en ráð var fyrir gert. Koma þeir nú að Hvítá, en báturinn var hinu megin. Ófeigi voru gerð boð um að þeir væru komnir að ánni. En hann skipti sér ekkert af því og fengu þeir að dúsa á hinum árbakkanum til næsta dags, er sá tími var kominn, sem Ófeigur hafði ákveðið að þeir kæmu heim á! - Þetta er svona dæmi um hvað sumir þessir ríku menn gátu verið sérlundaðir.

Gerist það á hverjum vetrí að ána leggur svona eins og nú er?

Oftast leggur hana eitthvað, en mis lengi. Ég man að veturinn 1945-46 lagði ána aldrei, en veturinn 1950-51 lagði hana í nóvember og leysti ekki fyrr en í byrjun maí.

Kannt þú einhverjar sögur af ferjumannsstaríinu?

Nei, það get ég varla sagt. Á sumrin var oftast fært, en stormurinn á haustin gat verið varasamur. Þegar bylgjurnar urðu of miklar, réðist ekki við bátinn. Oftast var aðeins einn maður sem réri.

Ég veit ekki til þess að það hafi orðið slys á ánni, nema þegar bóndinn í Auðsholti fórst árið 1676. Hann var víst orðinn aldraður þá, en annar maður, sem var með honum komst af.

Það var miklu meira rætt um ána á veturna og fylgst vel með ísnum. Þegar frost hafði verið nokkra daga, var talað um að komið væri "ísskrið" í ána, það er þunnur ís, sem flýtur niður ána. Þegar frost herðir, stoppar ísinn og frýs saman. Þá var kallað að áin væri "lögð" eða að "áin væri komin saman" og hægt að fara yfir með gát. T.d. var sagt: "Hún er ekki nema einhögg", sem þýddi að ekki þurfti nema eitt högg með broddstaf til að fara niður úr ísnum. Það voru "ísskildirnir", sem voru traustir, en á milli þeirra var svokallað "skrof", sem var hærra en skildirnir, en mjög ónýtt. Því þurfti að "þræða sig eftir skjöldunum, en forðast skrofið".

Skarir myndast þegar ísinn nær ekki að frjósa saman. Á vorinn var svo talað um að "nú væri hún að fara fram" þegar ísa leysti og jakaburður kom í ána. Þannig voru ýmiskonar orðatiltæki, sem tilheyrðu umgengni við ána, en sem ef til vill þekktust ekki annarsstaðar.

Séð yfir Austurbyggð í Laugarási og Auðsholt, af Vörðufelli 2016 (mynd pms)

Að lokum, kannt þú einhverjar sögur af fyrrí ábúendum í Auðsholti?

Ættfróðir menn hafa sagt mér að hér hafi búið Vopna-Teitur hinn sterki. Hann var fæddur 1529, dugnaðar maður en ekki lærður. Hann var enn á lífi 1605. Hann hafði þann sið að bera alltaf vopn þegar hann fór til mannafunda, en sá siður mun annars hafa lagst af uppúr siðaskiptum.

Það hefði verið hægt að sitja lengi enn og ræða við Jón, því hann er fróður og hefur frá mörgu að segja. En Litli-Bergþór lætur hér staðar numið í þetta sinn og þakkar Jóni fyrir góðar viðtökur og ánægjulegt spjall. G.S.

uppf. 09.2018