Læknir og kennari í Laugarási í aldarþriðjung

Viðtal við hjónin Pétur Skarphéðinsson lækni og Sigríði Guttormsdóttur kennara.

Viðtal þetta tók Geirþrúður Sighvatsdóttir og það birtist í Litla Bergþór, 38. árg, 1. tbl. júlí 2017

Blaðamaður Litla Bergþórs er mættur í Kópavoginn, síðla vetrar 2017. Tilefnið er að ræða við þau Pétur Skarphéðinsson fyrrverandi heilsugæslulækni í Laugarási og konu hans Sigríði Guttormsdóttur kennara, um árin þeirra í Laugarási, ættir, uppruna og fleira. Þau hjónin hafa nú komið sér vel fyrir í fallegri blokkaríbúð í vesturbæ Kópavogs. Áður bjuggu þau í þrjátíu ár í Launrétt 3, í öðrum læknisbústaðnum í Laugarási og síðustu þrjú árin í húsi sem þau byggðu í Langholti, á sumarbústaðarlóð í útjaðri Laugaráss, norðan við þorpið.

Sísa og Pétur á góðri stund

Læknarnir Pétur Zóphónías Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson eru goðsögn meðal uppsveitunga, enda þjónuðu þeir íbúum uppsveita Árnessýslu af einstakri alúð, samviskusemi og samheldni í yfir þrjátíu ár, eða þar til þeir náðu báðir sjötugs aldri árið 2016, og má það teljast einstakt. Það eru ekki mörg byggðarlög á landinu, sem hafa notið jafn mikils og stöðugs öryggis í læknisþjónustu og þessar sveitir. Í kveðjuhófi sem haldið var þeim til heiðurs 12. janúar 2017 í Aratungu mátti sjá að íbúar læknishéraðsins mátu langa og góða þjónustu þeirra mikils. Eins hlutu þeir fyrir nokkrum árum „Uppsveitabrosið“, sérstaka viðurkenningu íbúanna, fyrir góð störf í þágu samfélagsins.

Frá Kveðjuhófi læknanna Péturs og Gylfa þ. 12. janúar 2017. Á myndinni eru f.v. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, Pétur, Gylfi og Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga HSU

Að margra mati var það kostur hversu ólíkir læknar þeir voru. Gylfi rólegur og alvarlegur, Pétur alltaf með spaugsyrði á vör og til alls líklegur. En báðir voru þeir frábærir læknar hvor á sinn hátt. Ef mönnum líkaði ekki við annan þeirra, fóru þeir bara til hins og allir sáttir. Að mörgu öðru leyti voru þeir þó líkir, enda báðir „hrútar“ eins og Sísa benti á, báðir skipulagðir og lentu því ekki í árekstrum út af rugli eða skipulagsleysi.

Pétur starfaði í Laugarási frá 1. júlí 1983 til ársloka 2016 í rúmlega 33 ár og Gylfi frá 1. október, 1984 til júlí 2016, í 32 ár. Tilviljun réði því að þeir lentu saman á þessum stað, þótt þeir hefðu þekkst lítillega áður í gegnum námið í læknadeild og síðar í framhaldsnámi í Svíþjóð.

„Vilt þú heyra afhverju ég sótti um í Laugarási?“ spyr Pétur. „Best að Sísa segi þér frá því“. Sísa segir að fyrstu kynni hennar af þessu landssvæði hafi verið í ferð um uppsveitir Árnessýslu, vorið 1973 þar sem keyrt var um Laugarás og Skálholt. Henni fannst þetta grösug og falleg sveit. Hún þekkti líka til Jósefínu og Guðmundar læknis, sem voru í Laugarási á árunum 1973 til 1983, og voru að hætta þegar þau Pétur komu heim frá Svíþjóð. Hún þekkti einnig Gylfa Jónsson, þáverandi rektor Skálholtsskóla, sem var skólabróðir hennar úr MA. Hún hringdi í hann þegar fjölskyldan var að undirbúa komuna til Íslands og fékk kennslustarf við Skálholtsskóla. Það var því Sísa sem lagði til að Pétur sækti um læknisstöðuna í Laugarási og tæki við af Guðmundi. Konráð læknir var þá farinn fyrir ári síðan og hafði annar læknir, Þórir, verið þar í eitt ár.

Um störf þeirra Gylfa í Laugarási vísaði Pétur í viðtöl við þá félaga í Læknablaðinu og Mogganum. Blaðamaður fann þessar greinar og vitnar til þeirra þegar honum finnst þurfa.

En þá er best að byrja á upphafinu og pumpa þau hjónin um ættir þeirra og uppruna. „Best að frúin byrji“ segir Pétur. „Þá þarf ég minna að segja“.

Sigríður:

Ég er fædd á Sauðárkróki 19. nóvember 1947 og uppalin þar. Foreldrar mínir voru Ingveldur Rögnvaldsdóttir úr Blönduhlíð í Skagafirði og Guttormur Óskarsson, mikill Skagfirðingur, þó hann ætti ættir að rekja í Eyjafjörðinn. Hann vann lengst af sem gjaldkeri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki. Móðir mín var húsmóðir en vann síðar við kaffiveitingar hjá KS og í kvenfataverslun.

Á brúðkaupsdaginn

Við erum tvær alsystur, ég og yngri systir mín Ragnheiður Sigríður, sem býr á Króknum og svo ólu foreldrar mínir upp bróðurdóttur pabba, Elísabetu Bjarnfríði Vilhjálmsdóttur, en hún býr í Reykjavík.

Ég gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Króknum og lauk þar landsprófi. Fór síðan í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent 1967. Árið sem ég hefði átt að vera í 5. bekk (3. bekk) fór ég sem skiptinemi til Pennsylvaníu í Bandaríkjunum í eitt ár á vegum þjóðkirkjunnar. Þar bjó ég hjá yndislegri fjölskyldu sem ég held enn sambandi við. Þrettánda mánuðinn var ég hjá ættingjum í Kaliforníu, í Los Angeles og vinafólki í Norður-Hollywood. Bandaríkjadvölin var mikið ævintýri og margt nýtt sem maður upplifði þar. Ég las svo 5. bekkinn utanskóla þarna úti og útskrifaðist því með mínum árgangi frá MA.

Síðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem ég tók BA í ensku, sögu og dönsku og í framhaldi af því tók ég uppeldis- og kennslufræði í tvö ár. Við Pétur kynntumst meðan við vorum í háskólanámi, en við bjuggum bæði á Nýja Garði á sama gangi, Pétur á herbergi nr. 11 og ég á nr. 13. Með námi vann ég sem flugfreyja öll árin, einnig fyrstu sumrin með kennslu í Hagaskóla, eða í 6 sumur alls. Ég var í æfingakennslu í Hamrahlíð og hafði mjög gaman af því, en kennsluferillinn hófst svo í Hagaskóla þar sem ég kenndi ensku og íslensku í 4 ár.

Flugfreyjustarfinu fylgdu fríðindi í formi frímiða, eða ódýrra miða, svo við notuðum tækifærið og ferðuðumst þó nokkuð á þessum árum, svo mikið að sögn Péturs, að honum seinkaði um eitt ár í námi! Við flugum m.a. til Hong Kong og Bangkok með Cargolux eitt haustið og urðum strandaglópar í Bangkok. Cargolux var ekki með fastar ferðir til Bangkok, en þar sem það hittist svo á að þeir þurftu að lenda þar, sögðu þeir okkur að þessu mættum við ekki missa af og hentu okkur út! Það endaði svo með því að við þurftum að bíða í 4 daga eftir flugi, þar til næsta vél frá Cargolux lenti þar fyrir tilviljun. Við vorum ekki með mikinn gjaldeyri og lifðum síðustu dagana aðallega á banönum. Áhöfn annarrar vélar, sem lenti vegna bilunar, þurfti að bíða í viku eftir varahlutum, svo við vorum fegin að hafa ekki beðið eftir þeim. Ég mætti þá í annað sinn of seint til kennslu í Hagaskóla vegna seinkunar á flugi og lofaði Birni skólastjóra því, að ég myndi ekki fara út fyrir Elliðaár fyrir skólasetningu framvegis!

Pétur lauk læknanámi við HÍ 1975 og tók kandídatsárið sem læknir á Sauðárkróki 1976. Í september 1977 lá leiðin síðan til Svíþjóðar í framhaldsnám í heimilislækningum í Borås í Suður Svíþjóð, þar sem við vorum í sex ár, eða þar til við komum heim til Íslands og beint í Laugarás, 1. júlí 1983.

Í Svíþjóð kenndi ég ensku í fullorðinsfræðslu hjá námsflokkum í Borås og íslenskum börnum móðurmál.

Það voru viðbrigði að koma í Laugarás, sem dæmi má nefna að þá voru ekki komnir neinir rafmagnsstaurar í Laugarás, bara ljós utan á húsunum. Þegar dimmdi varð því algjört svartamyrkur. Manni stóð ekki á sama þegar krakkarnir voru úti einhversstaðar í heimsókn og þurftu að labba heim í þessu myrkri.

Eins og ég sagði áðan, fékk ég strax kennslu við Skálholtsskóla eftir komuna í Laugarás og kenndi þar allt mögulegt, m.a. ensku, íslensku, dönsku og sögu og fannst mér áhugavert að kynnast lýðháskólahugmyndinni. Árið 1986 fór ég að kenna í Reykholtsskóla og kenndi þar aðallega ensku og íslensku sem umsjónarkennari. Þar vann ég með skólastjórunum Unnari Þór Böðvarssyni, Kristni Bárðarsyni, Stefáni Böðvarssyni, Arndísi Jónsdóttur og Hrund Harðardóttur og get sagt að mér hafi líkað ágætlega við þá alla. Þetta voru góð ár í Reykholtsskóla. Ég tók mér reyndar hlé frá kennslu á Reykholtsárunum og fór í bókasafns- og upplýsingafræði við HÍ um aldamótin og vann þá á Þjóðarbókhlöðunni með námi. Síðan sá ég um bókasafnið í Reykholtsskóla í nokkur ár eftir það, þar til ég hætti kennslu.

Guttormslundur í Laugarási

Kennslunni hætti ég árið 2013 þegar við fluttum í bústaðinn okkar, Guttormslund í Langholtinu og keyptum þessa íbúð hér í Kópavogi.

Við höfðum eignast soninn Skarphéðin árið 1974, áður en við fórum til Svíþjóðar, og dótturina Ingu Dóru eignuðumst við svo árið 1980. Á milli þeirra eignuðumst við son, sem við misstum í fæðingu.

Skarphéðinn Pétursson og fjölskylda. Talið f.v: Vigdís, Pétur, Hildur Gróa, Skarphéðinn og Auður.

Skarphéðinn var 9 ára þegar við fluttum í Laugarás. Sumarið eftir fór hann í sveit hjá Gunnari og Siggu Jónu í Hrosshaga. Þar vann hann ýmis störf og fékk reynslu af barnapíustörfum, meðal annars þurfti hann að skeina Ósk litlu og sú reynsla ásamt mörgu öðru hefur örugglega komið sér vel síðar! Alls urðu sumrin fimm í Hrosshaga. Hann gekk í Reykholtsskóla og fór síðan í ML. Hann lærði lögfræði í HÍ og í Háskólanum í Lundi og er hæstaréttarlögmaður. Hann er giftur Hildi Gróu Gunnarsdóttur frá Stóra Núpi og þau eiga börnin Auði 17 ára, Vigdísi 16 ára og Pétur 8 ára og eru búsett hér í Kópavoginum í göngufjarlægð.

Inga Dóra og Eldur

Inga Dóra er mannfræðingur og þróunarfræðingur og hefur verið í mörg ár framkvæmdastýra UN Women, en er nú á leiðinni til Mozambique á vegum friðargæslu utanríkisráðuneytisins og stofnun Sameinuðu þjóðanna, World Food Programme. Hún verður svokallaður Gender Officer , en þau sjá m.a. til þess að fæðu sé réttlátlega skipt milli kvenna og karla.

Inga Dóra hefur farið víða og starfað og stundað nám erlendis. Hún var fyrst skiptinemi í Guatemala, fór síðar til Bandaríkjanna, Spánar, Malaví, þar sem hún var í tvö ár, og síðar til Ghana, Afganistan og fleiri landa. Hún á soninn Eld Zóphónías, sem er tveggja ára.

Eldur, yngsta barnabarnið, á leið til Mozambique

Ég viðurkenni að ég reyndi oft að kveikja í krökkum, bæði mínum eigin og þeim sem ég kenndi, að nota tækifærið og fara til annarra landa sem skiptinemar. Mér fannst ég sjálf hafa haft svo gott af því. Inga Dóra gerði það, en Skarphéðinn ekki, tímdi held ég ekki að missa af bekkjarfélögunum á Laugarvatni. En það hentar heldur ekki öllum það sama.

Sjálf hef ég starfað heilmikið í félagsmálum, gekk í Kvenfélag Biskupstungna þegar ég flutti í sveitina. Mér fannst frábært hvað þær styrktu skólann mikið og samfélagið hér almennt og svo var gaman að fá að kynnast

Pétur, Sísa og barnabörnin fjögur

konunum í sveitinni, líka þeim sem ekki áttu börn í skólanum. Síðan hætti ég í félaginu þegar of mikið varð að gera á öðrum vettvangi. Ég var með í að stofna H-listann á sínum tíma, lista „töskufólksins“, eins og einn góður og gildur sveitungi kallaði okkur og taldi okkur ekki öll vera búin að taka upp úr töskunum, jafnvel þótt sumir væru búnir að búa hér áratugum saman! Við tókum okkur til á þorrablóti og dönsuðum töskudansinn að því tilefni við mikla kátínu. Ég ætlaði mér reyndar aldrei í pólitík þótt ég væri alin upp á pólitísku heimili. En sameiginlegt markmið sveitarstjórnarmanna ætti nú að vera að vinna saman til að ná fram því besta fyrir samfélagið og passa upp á að láta raddir allra heyrast.

Amman og stelpurnar Skarphéðinsdætur fyrir utan Launréttina í Laugarási.

Ég hef starfað mikið með Oddfellow á Selfossi og verið þar í stjórn. Um þessar mundir fer mesta púðrið í félagsstörf fyrir „Delta Kappa Gamma - Félag kvenna í fræðslustörfum“, félagsskap sem er upprunninn í Bandaríkjunum en er líka starfandi um alla Evrópu. Við erum með alls 13 deildir hér á Íslandi, í öllum landshlutum en ég hef tekið þátt í því undanfarið að stofna nýja deild á N-Vesturlandi. Það vildi svo skemmtilega til að Delta Kappa Gamma hélt Evrópuþing í Borås í Svíþjóð árið 2015 og það var virkilega gaman að koma aftur á fornar slóðir og sjá hvað bærinn hefur blómstrað síðan við fórum þaðan 1983.

En er nú ekki komið að Pétri?

Ég er fæddur á Laugavegi 176 í Reykjavík 26. mars 1946. Foreldrar mínir voru Sigurlaug Guðjónsdóttir, ættuð úr Vatnsdal í Húnavatnssýslu og Skarphéðinn Pétursson, ættaður úr Skagafirði og af Melrakkasléttu. Föðuramma mín, Guðrún Jónsdóttir, (sem var ein Ásmundarstaðasystra á Sléttu), fékk spænsku veikina 1918 og var faðir minn því sendur nokkurra mánaða gamall í fóstur til móðursystur sinnar og manns hennar, Önnu og Njáls í Höskuldarnesi á Melrakkasléttu og ólst hann þar upp.

Pétur og Anna Ipsen hjúkrunarfræðingur í lyfsölu/skrifstofu/kaffistofuaðstöðunni, sem nú er kaffistofa Lyfju-útibúsins.

Ég kom fyrst í Vatnsdalinn með móður minni þriggja mánaða gamall í júní 1946, til afa og ömmu, Guðjóns og Rósu á Marðarnúpi og síðan á hverju sumri upp frá því til ársins 1960, þegar ég, þá nýfermdur, flutti með foreldrum mínum að Bjarnanesi í Hornafirði. Guðjón bróðir minn var líka á Marðarnúpi, en hann ólst upp hjá afa og ömmu.

Ég er annar í röðinni af sjö systkinum, hin eru Guðjón, Anna Rósa, Hildur, Gunnar Sveinn, Bergþóra og Védís.

Faðir minn var póstafgreiðslumaður í Reykjavík, en fór í prestinn og útskrifaðist 1959. Fékk þá Bjarnanesprófastsdæmi og við fluttum með strandferðaskipinu Skjaldbreið frá Reykjavík austur árið 1960.

Um haustið 1960 fór ég í Hérann á Laugarvatni, var þar í tvö ár og síðan í ML í framhaldinu og útskrifaðist sem stúdent þaðan árið 1966 hjá Jóhanni S. Hannessyni skólameistara. Þú mátt bóka að á Laugarvatni kynntist ég fyrst Tungnamönnum haustið 1960, þegar ég lenti á herbergi með þeim Viðari Þorsteinssyni frá Vatnsleysu og Gústaf Sæland frá Espiflöt í Héraðsskólanum, og hef ekki borið þess bætur síðan! - Segir Pétur og hlær við. Jónatan Hermannsson var í landsprófi, en fór svo annað eins og þeir Viðar og Gústaf, en í menntaskólanum voru engir Tungnamenn í bekk með mér. Sveinn á Reykjum á Skeiðum var ári á eftir mér.

Eins og frú Sigríður er búin að segja þér, þá útskrifaðist ég læknir frá HÍ árið 1975, var eitt ár á Sauðárkróki áður en við fórum til Svíþjóðar 1977. Þar lauk ég námi í heimilislækningum árið 1982 og vann síðan eitt ár á nýrri heilsugæslustöð í Borås við bestu hugsanlegu skilyrði. Síðan fluttum við beint í Laugarás 1983 og vorum til 2016.

Það voru mikil viðbrigði að koma frá Svíþjóð í Laugarás - segir Pétur.- Og menn skildu heldur ekkert hvað við vorum að æða þetta í burtu frá Svíþjóð. Ég var mikið einn fyrsta árið, þótt einhverjir afleysingalæknar hafi komið, þeir voru svona 1 til 3 mánuði. Ég var á eigin bíl í vinnunni og með eigin síma. Engir peningar til eins eða neins og gamaldags viðhorf hjá stjórnendum sveitarfélaganna og læknishéraðsins.

Þegar við vorum orðnir tveir við Gylfi, var bara einn stóll fyrir lækninn, svo sá sem var ekki á vakt þurfti að finna sér eitthvað annað að gera en sinna móttöku sjúklinga. Fara í vitjanir, skólaheimsóknir, upp í virkjanir, sinna Litla-Hrauni, Laugarvatni, Flúðum, Sólheimum, elliheimilinu á Blesastöðum o.s.frv. En þrátt fyrir þrengslin var þetta nokkuð öflugur rekstur á stöðinni, við vorum með meinatækni, hjúkrunarfræðing, ljósmóður, ritara og annað sem þurfti til reksturs á einni heilsugæslustöð og lyfjasölu. Laugarás var fyrsta heilsugæslustöðin sem tók upp leit að brjóstakrabbameini skömmu eftir að við komum, þegar við fengum myndavél til að sinna þeirri leit. Við vorum heppnir með það, að félagasamtök voru ávallt dugleg að gefa okkur tæki.

Aðstaðan breyttist ekki til batnaðar fyrr en með nýju Heilsugæslustöðinni, sem tekin var í notkun árið 1997 og aðstaðan stækkaði úr 117 í 450 fermetra. Þá fengum við loks sitt hvorn stólinn og gátum hætt að þjóna Litla-Hrauni. Í stað tannlæknis, sem átti að fá pláss í heilsugæslustöðinni, fengum við félagsþjónustu uppsveitanna, sem var mjög gott, því það er margt sameiginlegt með heilsugæslu og félagsþjónustu, svo sem umönnun aldraðra o.fl.

Mynd 11 Fyrsta skóflustunga tekin að nýju heilsugæslustöðinni 12. maí 1995. Talið f.v: sr. Axel Árnason, Ingibjörg Pálmadóttur ráðherra, Gylfi Haraldsson læknir, Kjartan Ágústsson á Löngumýri,(þáv. oddviti Skeiðamanna), Böðvar Pálsson Búrfelli (aftan við Gísla), Gísli Einarsson oddviti, Guðni Ágústsson og Pétur Skarphéðinsson læknir fyrir aftan hann.

En það var streð að koma nýju stöðinni á koppinn. Ég fór í margar ferðir til fjárveitinganefndar með Jóni í Vorsabæ. Ég held að það hafi verið vendipunktur þegar þingmenn Sunnlendinga, Þorsteinn Pálsson og Margrét Frímannsdóttir tóku málið upp og peningar fengust loks til framkvæmda. Geirharður Þorsteinsson arkitekt teiknaði húsið, Ingibjörg Pálmadóttir tók fyrstu skóflustungu og húsið var svo reist í alútboði af Þresti Jónssyni á Flúðum og hefur reynst ákaflega vel. Hvergi leki eða mygluskemmdir í því húsi.
Varðandi starfið, þá eru það eru ekki margir bæir í uppsveitum Árnessýslu, sem ég hef ekki komið á og í svona litlu samfélagi fer ekki hjá því að maður kynnist fólkinu. Samskipti við fólk eru það sem læknisstarfið gengur út á. Þegar kemur að sálgæslunni má segja að læknisstarfið líkist prestsstarfi, því það sem hrjáir fólk er oft öðru fremur eitthvað sem hvílir á sálinni. Fjölgun sumarhúsa, sem nú teljast í þúsundum í uppsveitum Árnessýslu, og meiri umferð ferðafólks, leiddi af sér aukið kvabb hjá okkur Laugaráslæknum. Útköllum vegna minniháttar meiðsla fjölgaði, „barn datt fram úr rúmi, maður sneri sig á ökkla í gönguferð eða sumarbústaðakona fékk hnífinn í puttann þegar hún var að skera grænmetið. En auðvitað gerðust líka alvarlegir hlutir, eins og dauðsföll og slys. Þetta hefur verið þverskurður af þeim verkefnum sem læknar þurfa að sinna.“ (1) Annars má ég ekkert segja um starf mitt sem læknir, er bundinn algerri þagnarskyldu. Get þó sagt að mér fundust alltaf geðsjúklingarnir skemmtilegastir!

Læt fljóta með eina sögu af hollenskum ferðamanni, sem velti eitt sinn bíl sínum við Ósabakka og lenti í svo mikilli drullu að varla sá í hann. Ég tók hann með mér heim, þar var hann settur í sturtu og Sísa dressaði hann svo upp í gömul föt af mér, sem voru reyndar alltof stutt á honum því þetta var hávaxinn maður. Og þó hún segði honum að vera ekkert að skila fötunum, sendi hann þau samt til baka í pósti með bók um næstu jól, sem þakklæti fyrir aðstoðina.

Það er ekkert sjálfsagt að menn geti starfað svona lengi saman á tvískiptri vakt án árekstra eins og við Gylfi höfum gert í rúmlega 30 ár, en „við höfðum vit á því að vera ekkert að deila … Við komum okkur upp ákveðnu skipulagi frá fyrsta degi og því var ekki hnikað meðan við vorum þarna. Fastar reglur og ekkert vesen. Við vorum líka heppnir með starfsfólk, hjúkrunarfræðingar og aðrir starfsmenn entust vel og lengi!“ (2) Svo héldum við hæfilegri fjarlægð í einkalífinu, sem er held ég skynsamlegt.

Við brölluðum samt ýmislegt saman við Gylfi, veiddum fyrstu árin svolítið í net í Hvítá, því það fylgir veiðiréttur landi Heilsugæslustöðvarinnar. En við urðum latir við það þegar lítið veiddist. Báðir vorum við svo með hesta, byggðum hesthús með fleirum á hæðinni fyrir ofan Benna Skúla. Gylfi entist lengur í því. Hestarnir voru hafðir í gerði þar sem Heilsugæslustöðin er nú.

Pétur og Inga Dóra á leið í reiðtúr.

Ég var alinn upp við hesta og smalamennsku og smalaði fyrstu árin hjá Bjössa í Skálholti, sem var fyrsti bóndinn sem ég kynntist hér í Tungunum. Kynntist honum í gegnum Gylfa rektor, sem var með hesta hjá Bjössa. Svo rak ég lengi á fjall með Magnúsi í Miðfelli, en þegar hann tók upp á því að keyra féð á fjall, datt hestamennskan upp fyrir. Um sama leyti varð reiðhesturinn minn bráðkvaddur og Kalli Gunnlaugs, bróðir Magnúsar, dró mig í golfið á Flúðum. Ég taldi mig reyndar afbragðs smala og er enn stór móðgaður yfir að hafa ekki verið beðinn um að fara á fjall fyrir Tungnamenn, eða taka að mér æðri embætti í smalamennskum!

Ég keypti fyrsta hestinn minn, hann Þyt, frá Gauja á Tjörn. Hann hafði dagað uppi hjá Guðjóni, var frá fólki í Reykjavík sem vitjaði hans ekki. Svo hann seldi hann á 25 þúsund upp í fóðurskuld. Hann var mikið gæðablóð en svolítið víxlgengur. Svo keypti ég tvo hesta úr Skagafirði, annar heltist í girðingu, hinn varð bráðkvaddur. Folald sem ég keypti af Birni í Skálholti tamdist svo vel hjá Gunnari í Steinsholti að hesturinn seldist til Þýskalands eftir hestaferð hjá honum. Það var því sjálfhætt í hestamennskunni og ég seldi hesthúsið til hennar Maike í Glóruhlíð, sem þá bjó hér í Laugarási.

Gróðursetning í Guttormslundi.

Áhugamálin hafa svo verið að breytast. Ég baslaði í lóðinni okkar í Laugarási og Sísa hugsaði um hús og lóð í Launréttinni og nú höfum við tekið upp sömu iðju í bústaðnum í Langholtinu. Mér finnst svolítið gaman að því að það eru tóttir af gömlum útihúsum frá Sigurmundi Sigurðssyni lækni, sem var í Laugarási 1925 – 1932, hér í brekkunni vestan við bústaðinn okkar. Svo er sagt að það séu leifar af víkingaskála fyrir neðan brekkuna á milli Gylfa og Ingólfs í Engi.

Ég hef eitthvað tekið þátt í félagsstörfum, var stofnfélagi í Lions þó ég sé hættur þar. Golfið tók við af hestamennskunni og svo spila ég bridge með Hreppamönnum og Gnúpverjum, og spila enn. Svo má ekki gleyma ritnefnd Litla-Bergþórs, sem ég hef verið í síðan 1991. En þar er komið að leiðarlokum núna þegar ég er fluttur á mölina.

Og fyrst ég er að telja upp áhugamálin er líklega best að telja fram upphefðina líka. Ég var fangelsislæknir á Litla-Hrauni 1988 -1997, Héraðslæknir Suðurlandsumdæmis 2001-2012, lengi í Heilbrigðisnefnd Suðurlands, formaður þar um tíma og svo formaður kjörstjórnar hér í Tungum í mörg ár og síðar í Bláskógabyggð frá 2002. Og þá hefur þú það.

Að lokum vil ég segja þér að þetta voru afskaplega skemmtileg og farsæl ár sem við áttum í Laugarási. Við hefðum ekki enst svo lengi ef við hefðum ekki unað okkur. Og Sísa tekur undir það.

Blaðamaður þakkar þeim hjónum kærlega fyrir skemmtilegt spjall yfir ljúffengum mat og veigum og kveður með óskum um velfarnað þeim til handa í nýjum viðfangsefnum.

Geirþrúður Sighvatsdóttir

Heimildir:

Morgunblaðið laugardagur 14. janúar 2017 bls 19, „Laugaráslæknar láta af störfum“.

Læknablaðið 2. tbl. 103. árg. 2017, „Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson láta af störfum í Laugarási í Biskupstungum“.

uppf. 10.2018