Dýralæknir í 40 ár

Viðtal við Gunnlaug Skúlason og Renötu Vilhjálmsdóttur

Síðari hluti

Þetta viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur birtist í Litla Bergþór 2.tbl, 2003

Í síðasta tölublaði Litla-Bergþórs (1. tbl. 2003) ræddi ég við Renötu Vilhjálmsdóttur, kennara og leiðsögumann í Brekkugerði í Laugarási og í þessu blaði kemur framhald viðtalsins við þau hjón. Er Gunnlaugur Skúlason dýralæknir viðmælandinn í þetta sinn.

 

Gunnlaugur og Renata  (mynd úr Litla Bergþór)

Gunnlaugur og Renata
(mynd úr Litla Bergþór)

Það kom fram í viðtalinu við Renötu að oft hefur verið í nógu að snúast hjá Gunnlaugi, og sjálf þekki ég sem kúabóndi, að það eru fáir dýralæknar, að öðrum ólöstuðum, sem lagnari eru við að reisa kýr úr doða eða ná út föstum kálfum. Og er þá sama hvort hringt er að nóttu eða degi - á jóladag eða öðrum helgum dögum, - alltaf er Gunnlaugur kominn að vörmu spori með spaugsyrði á vör og lætur hendur standa fram úr ermum. Eru ekki að sjá á honum nein ellimörk við þau handtök, þrátt fyrir tugina sjö. Og til að heyra um hans hlið á dýralæknastarfinu, í fjörtíu ár í uppsveitum Árnessýslu, er blaðamaður aftur kominn í heimsókn til þeirra hjóna í Brekkugerði.

Í stofunni liggur grár og hvítur köttur makindalega í einu sófahorninu og sperrir eyru þegar við komum inn. Þessi köttur er frá henni Stínu á Hlemmiskeiði segir Gunnlaugur og ef hann heldur heilsu eru allar líkur á að hann lifi sig, og þá verður hann munaðarlaus! - Kötturinn lætur þessi orð húsbónda síns ekki valda sér áhyggjum, en lötrar burt með því yfirlæti, sem köttum einum er lagið.  

En ekki erum við Gunnlaugur fyrr búin að koma okkur vel fyrir í notalegri stofunni, en rafmagnið fer af. Það er þó ekki látið á sig fá, heldur dregur Renata fram fjölda kertastjaka og fyrr en varir er húsið ljósum prýtt og við Gunnlaugur höldum áfram spjalli okkar við kertaljós. - Hann segist að vísu ekki hafa frá neinu að segja, hann hafi alltaf búið í Tungunum að frátöldum námsárunum og aldrei átt lögheimili annarsstaðar. En blaðamaður tekur þá hógværð ekki góða og gilda og leggur til atlögu.

Nú er ég nýbúin að rekja ættir þínar í viðtali við Svein bróður þinn í Bræðratungu,(L-B. 22. árg. 3. tbl 2001) svo ég ætla ekki að rekja það nánar. En getur þú ekki sagt mér eitthvað frá uppvexti þínum í Bræðratungu?

Ég man nú lítið frá uppvextinum, enda fátt merkilegt sem skeði. Heyrðu, veist þú hvað þetta er? - spyr Gunnlaugur og dregur fram tvo hluti. Annarsvegar stóran hvítan kuðung, sem þó virðist vera úr beini og er níðþungur og hinsvegar létta brúna kúlu, ca. 5 cm í þvermál.
Blaðamaður lýsir vanþekkingu sinni í þessum efnum og reynist „kuðungurinn" vera kvörn úr hval, ættuð frá afa Gunnlaugs, Gunnlaugi J. H. Þorsteinssyni, og kúlan er svokallaður „mýll", þ.e. ullarjapl úr kindarvömb. En ef kindur éta ull, velkist hún í vömbinni og gengur ekki niður. Smám saman myndast hörð kölkuð skel utanum ullina og getur hún veríð allavega í laginu, en sjaldnast svona reglulega kúlulöguð eins og þessi segir Gunnlaugur.

En varðandi uppvöxtinn já.

Nágrannarnir eru mér sumir minnisstæðir, sérstaklega Jóhannes í Ásakoti. Hann hafði óstjórnlega skemmtilega frásagnargáfu og var vel hagmæltur. Ég get sagt þér nokkrar sögur af honum. Bjarni Gíslason í Lambhústúni, sem seinna var kallað Lambhúskot, átti um 80 hænsni, hann var natinn maður og hugsaði vel um þau. Hann tók stundum erfiða unglinga úr Reykjavík og einn þeirra var Kiddi, stuttur og digur. Til að gera lífið fjölbreyttara voru menn gjarnan uppnefndir og var Kristján kallaður kagginn. Eitt sinn tók einn haninn hjá Bjarna upp á því að strjúka upp að Ásakoti. Kiddi var sendur í tvígang að sækja hann og í seinna skiptið snéri hann hanann úr hálsliðnum í bæjardyrunum í Ásakoti. Þá orti Jóhannes:

Kristján hanann djarfur drap,
dró hann út úr bænum,
af því hann reið í asnaskap
annarra manna hænum.

Eins og þú veist var ferja í Króki og oft brösótt að eiga við hana ef það voru skarir. Eitt sinn tapaðist báturinn og flaut niður í Pollengi og þar fraus hann fastur, því hann var ekki sóttur strax. Kiddi og Jóhannes fóru að sækja bátinn og orti Jóhannes um það:

Gnoðin festist ísnum í
af því þyngdist bagginn.
Járnbát sóttu jötnar því
Jófótur og Kagginn.

Svo var einhverju sinni verið að reka féð heim úr réttunum og var Tunguféð rekið fram yfir Markakeldu og skilið þar eftir, því þá var komið í Tunguhverfishagana. Snjólfur í Borgarholti var að reka með og sá að mýrardrögin voru enn græn og sagðist ætla að slá þau. Heitir þar síðan Græna mýri. (Svona verða örnefnin til!) Til þess að féð skemmdi ekki slægjuna vildi Snjólfur koma því sem fyrst yfir og varð þar mikið hafarí og læti. Þá orti Jóhannes:

Útreiðin varð ansi leið
Ei þótt „Snjóa" hryggi.
Börnin grétu en Gvendur reið,
og gargaði hátt hann Siggi.

                            (Gvendur var Helgason frá Galtalæk og Siggi var í Lambhúskoti.)

Í Tunguhverfinu tíðkaðist sérstakt tungutak. Til dæmis voru margir fyrir að slá snöggt og byrja sláttinn snemma. Þá var sagt að það væri nú ekki einu sinni kominn „skeiningarhagi" á túnin. Aðrir vildu hafa meiri slægju og byrjuðu seinna.

Kristinn Bjarnason í Borgarholti, (milli 1940 og 1950) var líka vel hagmæltur, enda Bólu-Hjálmar langafi hans. Egill á Króki keypti eitt sinn hest að norðan, frá Álftagerði. Hann var lítill og alltaf kallaður folaldið, en hét þó því virðulega nafni, Álftagerðis-Sóti. Kristinn orti um þann hest:

Þéttar herðar höfuð frítt
heimi berðu móti.
Aldrei verður af þér nítt
„Álftagerðis-Sóti"

Mér dettur nú í hug að ég heyrði viðtal um daginn við Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprest og fyrrum álþingismann, sem fæddist í Borgarholti. Hann var þar að tala um Dúdda vin sinn á Skörðugili og hafði eftir honum að „maður á að hafa vit á því að vera í góðu skapi". Ég held að það sé eitthvað til í því!

Þú hefur væntanlega gengið í Barnaskólann í Reykholti eins og önnur börn í Tungunum?

Jú, jú, það var bara ósköp venjulegt, eins og gerðist í þá daga. Fyrst fór maður í vorskóla og síðan var maður hálfan mánuð í skólanum og hálfan mánuð heima. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Hekla gaus 1947. Njáll Þóroddsson var þá skólastjóri og hann hafði vit á því að fara með okkur krakkana upp á Reykholtskletta til að horfa á þetta. Það var stíf norðanátt og öskuveggurinn reis hátt í loft, lóðrétt upp. Það var mjög eftirminnilegt. Í skólann fórum við krakkarnir með mjólkurbílnum frá ferjunni á Krók. Stóðum bara aftaná. Það voru ekki önnur farartæki.

Við vorum 10 í bekknum og var skólanum skipt í 3 deildir, þ.e. þrísetinn síðasta árið, sem við vorum í skólanum. Tíu og 11 ára saman, 12 og 13 ára saman og við 14 ára sér. Við vorum því hálfan mánuð í skólanum og einn mánuð heima. Það var þó bara þennan eina vetur held ég. Þarna voru Dóri á Litla Fljóti, Guðni í Gýgjarhólskoti, Óli frá Drumboddsstöðum Guðmundsson, stjúpsonur Þorgríms, Alfreð Jónsson, sem var á Litla-Fljóti en var sonur Jóns í Laug, Inga í Úthlíð, Ella á Hvítárbakka, Rúrí og Erla á Helgastöðum og Badda (Bergþóra Kristinsdóttir) í Borgarholti.

Eftir barnaskólann var ég einn vetur heima, en lenti svo í gagnfræðaskóla í Reykjavík í þrjá vetur. Bjó þar hjá föðursystur minni, Guðrúnu Gunnlaugsdóttur Briem, sem var gift Jóni Guðmundi Steindórssyni Briem. Þau byrjuðu búskap í Flóanum en fluttu svo til Reykjavíkur. 
Fyrst byrjaði ég í Ingimarsskóla við Lindargötu og var þar í einn og hálfan vetur, en fór svo í gagnfræðaskóla Austurbæjar þegar hann var stofnaður og tók landspróf þaðan 1951. Þegar ég byrjaði í gagnfræðaskóla hafði ég aldrei heyrt danskt orð. Eitt af þeim orðum sem ég gataði á var „karakter", sem var þýtt lyndiseinkun. Heldur þú að þetta orð væri þýtt í dag?

Nú, síðan lenti ég á Laugarvatni hjá Bjarna Bjarnasyni haustið 1951. Það var þá ekki búið að stofna Menntaskólann, en Bjarni stóð fyrir kennslu og þurftu þeir, sem byrjuðu á undan okkur að fara suður til Reykjavíkur til að taka stúdentspróf.

Þegar skólinn var stofnaður, 1953, tók við skólastjórn Sveinn Þórðarson frá Kleppi, sem fyrsti skólameistari skólans, og tók ég stúdentspróf hjá honum 1955. Sveinn var bróðir Gunnlaugs Þórðarsonar, (föður þeirra Tinnu og Hrafns Gunnlaugsbarna) en faðir þeirra var Þórður Sveinsson yfirlæknir á Kleppi.

Einhverju sinni þegar Gunnlaugur var í framboði fyrir vestan, var þar karl sem spurði hvort þeir væru margir af Kleppi í framboði fyrir Alþýðuflokkinn!
Sveinn fór til Kanada í endurmenntun og ílentist þar, því miður. En hann er enn á lífi, varð níræður um daginn. Menntaskólinn að Laugarvatni varð fimmtugur nú í vor og var haldið upp á það um páskana.

Manst þú eftir einhverju skemmtilegu frá menntaskólaárunum?

Það væri þá helst að það var alltaf verið að herja út frí! Ég man eftir því að einu sinni var voða mikil körfuboltakeppni, sem stóð fram að miðnætti og við vildum fá frí í fyrsta tíma daginn eftir. En Eiríkur Jónsson, stærðfræðikennari gaf ekkert frí. Fórum við með það í Bjarna og hann sagði: „Æ, við skulum ekki vera að þrátta um þetta, þið fáið bara frí". Og þar við sat.

Svo var eitt sinn voða gott veður seinasta vorið mitt þarna og þá vildum við fá frí hjá Óla Briem af því veðrið væri svo gott. Hann bauðst þá til að koma með okkur út á tún og halda tímann þar. Settumst við í laut og fórum þar yfir námsefnið og er þetta einn eftirminnilegasti tíminn frá menntaskólaárunum, því það fór svo vel um okkur þarna.

Það var fólk á ýmsum aldri þarna, sá elsti var fæddur 1929 og þeir yngstu 1936. Af 25 manns í bekknum höfðum við 4-5 stelpur, sem var bara helv. mikið í þá daga.

Eitt gerðum við dálítið merkilegt, við stofnuðum ferðasjóð. Það var skipuð nefnd í það, sem opnaði sjoppu, og eftir útskrift fórum við beina leið til Kaupmannahafnar með Gullfossi. Við stoppuðum í Færeyjum og í Leeds, þar sem við skoðuðum m.a. Edinborgarkastala og minnismerki um Robert Scott. Mér er minnisstætt að við gengum upp margar tröppur og hafði ég þá aldrei séð svo margar tröppur.

Í Kaupmannahöfn vorum við í viku á farfuglaheimili rétt fyrir utan Kaupmannahöfn og vorum eitthvað að skoða okkur um þar. Eiríkur Jónsson kennari var þarna með okkur, ekki beinlínis sem leiðsögumaður, en hann vildi þó sýna okkur handritin í Árnasafni. Fórum við þangað. Eiríkur bankaði og Jón Helgason kom til dyra. Eiríkur bar upp erindið og Jón spurði á hvers vegum og á hvaða ferðalagi við værum. Eiríkur sagði þá að Björn Th. hefði tekið vel í að við fengum að skoða handritin og þá sagði Jón: „Björn ræður engu hér". En svo var okkur samt boðið inn og við fengum að sjá handritin og skoða okkur um. M.a. lá þarna frammi snið að einhverri flík, sem hafði verið skorið úr handritsskinni og voru þeir að rýna í það. Var eftirminnilegt að sjá þetta, en ekki hef ég skoðað handritin síðan, og ekki síðan þau komu heim.

Heim fórum við svo með Dronning Alexandrina og held ég að þetta sé bara eitt fyrsta útskriftarferðalag menntskælinga til útlanda sem farið var á Íslandi.

Hvað tók svo við eftir menntaskólann?

Eftir stúdentspróf var ég svo í kaupavinnu, eða vetrarmaður, hjá Halldóri föðurbróður mínum á Kiðjabergi í tæpt ár, veturinn 1955 - 1956. Halldór var sérstæður maður, skýr í hugsun. Hann var með netalagnir í Hvítá og átti að taka upp netin á ákveðnum degi. Fylgdist veiðieftirlitsmaður með því að það væri gert. Einu sinni dróst að draga upp, því það var þurrkur og enginn mátti vera að því að taka upp. Þegar eftirlitsmaðurinn gerði athugasemd við það sagði Halldór af bragði að hann væri að stunda vísindaveiðar og var það látið gott heita.

Á sumrin var ég alltaf í sumarvinnu alla mína skólatíð og eitt sumar var ég vörður á Kili. Það var meðan ég var í dýralæknanáminu. Þá voru alltaf tveir saman við vörsluna, einn að sunnan og einn að norðan. Var ég þarna með Sigurjóni Oddssyni frá Rútsstöðum í Svínadal, en hann var bóndi þar. Eiríkur í Fellskoti kom hálfsmánaðarlega með kost til okkar og gerði það af mikilli samviskusemi að koma með allt sem við báðum um. Guðmundur R. Oddsson, bakari, bróðir Sigurjóns, átti part úr Iðulandi og eitt sinn fékk Sigurjón brauð og kex úr Alþýðubrauðgerðinni, sem Guðmundur átti. Fylgdi kexmylsna með frítt og sú orðsending að það mætti bleyta í þessu með brennivíni. En brennivínið kom aldrei og fannst okkur það skítt!

Sigurjón hafði það hlutverk að fara vestur úr, vestur í Dalafjöll og fylgdi honum hundur. Var hann alltaf um 1-200 m til hliðar við hann og tók við kindum frá Sigurjóni. Ég fór að hæla hundinum og spurði hvernig hann færi að því að venja hann svona vel. „Ekki vandi" sagði Sigurjón, „sá sem venur hund þarf bara að vera örlítið gáfaðri en hundurinn!" Ég held að það sé eitthvað til í því. Annars sagði hann að hundar þyrftu helst að fá þjálfun á hverjum degi til að vera góðir. 

Hvernig lentir þú í dýralækningunum?

Ég man ekki eftir að hafa haft neinn sérstakan águga á dýralækningum sem barn og unglingur. En kannski hef ég smitast eitthvað af móðurbróður mínum Jóni Pálssyni, sem var dýralæknir á Selfossi. Alla vega fór ég út, eftir veturinn á Kiðjabergi, haustið 1956, og hóf dýralæknanám í Hannover.

Var algengt að íslendingar færu þangað í dýralæknanám?

Jú, það höfðu nokkrir farið þangað áður, m.a. Ásgeir Ólafsson o.fl. En það voru ekki margir dýralæknar á landinu þá. Þegar ég útskrifaðist var ég 13. dýralæknirinn. Það þykir nú ekki happatala, en hefur gengið furðanlega!

Ég man að þegar ég útskrifaðist, var síðasta prófið í „Vetinär polizei" þ.e. eftirlit með tilkynningarskyldum búfjársjúkdómum. Þurrt og leiðinlegt fag. Prófessorinn var mjög harður og menn voru hræddir við hann, enda átti hann það til að fella menn. En öll próf voru þá munnleg, sem var mjög þægilegt. Þegar ég var búinn í prófinu spurði karlinn hvort ég ætti fleiri próf eftir og ég kvað nei við. Þá spurði hann hvað væru margir dýralæknar á Íslandi og ég sagði 12. „Dann sind sie Herr Skúlason der 13." Þ.e. Þá eruð þér, hr. Skúlason sá þrettándi, sagði hann, og þá vissi ég að ég hafði náð! Þetta var í desember 1962. Þá átti ég samt eftir að vera í verknámi úti í 3 mánuði eftir útskrift og var í Achim, rétt hjá Bremen í jan.- apríl 1963. Við vorum 2 dýralæknar sem unnum þar saman og það var mjög harður vetur. Ég man t.d. að við löbbuðum yfir ána Weser á ís einn sunnudaginn, en það er mjög sjaldgæft að hana leggi. Og það voru fréttir af skipum, sem sátu föst í ísnum.

Getur þú sagt mér eitthvað frá námstímanum í Þýskalandi?

Húsið að Wiilfelerstr. 8, í Hannover, þar sem Gunnlaugur bjó í 4 ár  (mynd úr Litla Bergþór)

Húsið að Wiilfelerstr. 8, í Hannover, þar sem Gunnlaugur bjó í 4 ár
(mynd úr Litla Bergþór)

Matmóðirin Johanne Weitz (mynd úr Litla Bergþór)

Matmóðirin Johanne Weitz (mynd úr Litla Bergþór)

Það er svosem ekkert um það að segja. Mér dettur þó í hug að stundum er eins og örlög manna séu ráðin. Þegar ég kom til Hannover hafði ég ekki neinn samastað, en það fyrsta sem ég sé þegar ég stíg út af járnbrautarstöðinni var hús, sem á stóð Grand Hotel. Minnugur þess að Einar Ben. bjó alltaf á Grand í útlöndum, fór ég þangað og fékk herbergi. Daginn eftir fór ég svo í skólann og þegar ritarinn spurði hvar ég byggi og ég sagðist búa á Grand, fór hún að býsnast yfir því að ég gæti ekki búið þar. Þarna stóð strákur álengdar og fór að gefa sig að þessu. Sagðist hann halda að hann gæti komið mér fyrir hjá konu sem hann þekkti. Og eftir skóla fór hann með mig á bóndabæ, um 20 mínútna hjólatúr utan við Hannover og þar tók á móti mér frú Jóhanna. Hún krossað sig og Jesúsaði yfir þessum vegalausa og mállausa Íslendingi og leyfði mér að búa fyrir 40 mörk á mánuði og innifalið var, auk herbergis, morgunnverður og nesti. Ég reiknaði ekki með að geta búið þarna lengi, svo ég fór að svipast um eftir öðru húsnæði. En það var þá ekkert að hafa, nema miklu dýrara og óhentugra. Svo það endaði með því að ég bjó þarna í 4 ár, eða þangað til við Renata fórum að búa.

Skólabræðurnir Gunnlaugur, Heiner og Alfred við rannsóknarstörf. (Mynd ír Litla Bergþór)

Skólabræðurnir Gunnlaugur, Heiner og Alfred við rannsóknarstörf. (Mynd ír Litla Bergþór)

Kennararnir, sem kenndu þarna eftir stríðið voru margir geysilegir karakterar og sumir grínaktugir. Og okkur nemendunum datt ýmislegt í hug. Einn prófessorinn fór með okkur í sláturhús og var búinn að útmála það vel og vandlega að ef lungu, sem hengd voru upp á barkanum, héngu þungt niður, þá væru berklar í þeim. Svo skar hann á lungun og út spýttist gröftur og huggulegheit. Einu sinni gerðum við það af skömmum okkar að dæla vatni í kýrlungu og þegar hann sá þau sagði hann strax: „það eru berklar í þessum lungum" og skar á þau og fékk þá vatnsgusuna yfir sig. Þá sneri hann sér hægt við og sagði: (lauslega þýtt) „prakkarar eru meðal vor og strákslegt það sem þeir nú gerðu."

Líffærafræðikennarinn Nickel (mynd úr Litla Bergþór)

Líffærafræðikennarinn Nickel (mynd úr Litla Bergþór)

Anatómíukennaranum okkar, honum Nickel, tókst líka að gera líffærafræðina, sem annars er frekar þurrt fag, það skemmtilega, að maður hefur munað hana síðan. Þegar við vorum að læra um vöðvana í fótunum, spurði hann einn nemandann: "Á hvaða vöðva horfir þú fyrst á stúlkunum? Þá gengu konur í síðum pilsum, og sást lítið nema kálfarnir. En aumingja drengurinn nefndi lærisvöðvann, og þá sagði Nickel: "Nei, maður byrjar alltaf neðst og vinnur sig svo uppeftir!" Og á þessu féll hann! Og svona var nú margt, en það hefur ekkert uppá sig að segja frá svona löguðu enda erfitt að þýða það.

Þú komst heim í aprfl 1963. Hvernig var að fá vinnu þá? Varst þú búinn að fá stöðu sem dýraIæknir hér í uppsveitunum áður en þú komst?

Við komum heim í asparveðrið fræga 1963. Það var búið að vera mjög kalt úti í Þýskalandi, en hlýtt að sama skapi hér heima vikurnar á undan. Svo snarféll hitinn um meira en 20 gráður á örfáum klukkustundum nokkrum dögum eftir að við komum heim. - Var Renata ekki búin að segja þér frá þessu?  Þegar við komum upp að Iðu á leiðinni heim, var áin komin á ís.

A góðri stund á gamlárskvöldi í Hannover 1958. F.v. Gunnlaugur, Arnór Karlsson, en hann kom í heimsókn frá Giessen og Sigurður Jóhannesson  (mynd úr Litla Bergþór)

A góðri stund á gamlárskvöldi í Hannover 1958. F.v. Gunnlaugur, Arnór Karlsson, en hann kom í heimsókn frá Giessen og Sigurður Jóhannesson
(mynd úr Litla Bergþór)

Varðandi starfið, var ég ekkert búinn að athuga með það. Í þá daga var beðið eftir dýralæknum úr námi, að þeir kæmust í gagnið. Bragi Steingrímsson var þá orðinn sjúklingur og ég var eitthvað að hjálpa honum um sumarið og fram á haustið. Svo lenti ég í því að leysa af dýralækninn í Gullbringu- og Kjósarsýslu vegna veikinda hans, og var þar megnið af vetrinum, með aðsetur á Blikastöðum í Mosfellssveit. Á Blikastöðum voru þá 50-60 kýr og heilmikil umsvif.

Upp úr þessu var fyrirsjáanlegt að Bragi gæti ekki gegnt stöðu sinni áfram vegna veikindanna, - var búið að taka af honum fótinn minnir mig. Og þegar ég kom heim um haustið 1964 hætti hann og ég tók við sem héraðsdýralæknir í uppsveitum Árnessýslu með aðsetur í Launrétt í Laugarási.

Heyrðu, af því að þú ert nú í apótekarastétt (Geirþrúður er lyfjafræðingur) má ég til með að segja þér eina sögu sem Bragi hafði gaman af að segja:  

Steingrímur Matthíasson læknir, faðir Braga, var ungur maður skipslæknir hjá danska flotanum og sigldi m.a. til Austur-Indía. Eitt sinn tók hann með sér apa, sem hann fékk austur þar, og kom síðan með hann til Seyðisfjarðar. En þá var algengt að þar væri komið fyrst að landi. Þegar fréttist af apanum fór fólk vitanlega að skoða hann. Kom þá bóndi einn ofan af Héraði og hugðist skoða apann. Gekk hann eftir aðalgötunni og leit á skilti, sem hann fór fram hjá. Sá þá að á einu húsinu stóð apótek. "Hér hlýtur apinn að vera til húsa" hugsaði hann, gekk inn um opnar dyr og hittist þá svo á að apótekarinn snéri bakinu að dyrum, því hann var að blanda mixtúru. Bóndi heilsaði en hinn tók ekki undir. (Hefur sennilega verið að telja dropa). Bóndi virti hann fyrir sér góða stund og sagði svo: "Satt er það sem sagt er, að líkur er hann mönnunum, en ljótur er hann!

Hvernig voru nú búskaparhættir hér þegar þú komst?

Kálfur dreginn úr kú við Birtingaholt í Hrunamannahreppi (mynd úr Litla Bergþór)

Kálfur dreginn úr kú við Birtingaholt í Hrunamannahreppi (mynd úr Litla Bergþór)

Ja, það voru kýr á öllum bæjum nema þrem hér í Tungunum, og allir höfðu það ágætt nær undantekningarlaust. Það voru ekki kýr á Kjaranstöðum, Bóli og á Torfastöðum. Í Hrunamannahrepp var ein kýr í Hörgsholti, annars var kúabú á öllum bæjum.
Bjarni í Hörgsholti gaf út blaðið Hreppamanninn, þú manst líklega ekki eftir honum. -Í þá daga fór Kaninn fram á það að allar kýr yrðu berklaprófaðar, svo þeir gætu keypt mjólkina. Ég fór að berklaprófa kúna í Hörgsholti og þá vildi Bjarni endilega gera mér eitthvað gott og var alveg miður sín að hann átti ekkert tiltækt að bjóða mér. En hann átti hertan þorskhaus og hann fékk ég.

En nú er allt gert til að leggja niður landbúnaðinn. Þú sérð bara hvernig kúabúskapur hefur lagst af á hverju býlinu á fætur öðru hér í Tungunum síðustu 10 — 15 árin. Ekki eftir nema örfáir kúabændur. Og hér í Laugarási, voru þrjár garðyrkjustöðvar lagðar niður, bara á síðasta ári.

Við geldingu í Hrunamannahreppi (mynd úr Litla Bergþór)

Við geldingu í Hrunamannahreppi (mynd úr Litla Bergþór)

Finnst þér eitthvað minna að gera?

Ég finn það nú ekki beinlínis, ætli það sé ekki eitthvað svipað. Búin hafa stækkað. 

Og hvað heldur þú nú að valdi þessum samdrætti?

Nú, það er allt talið eftir, sem bændur fá í styrki, en það sér t.d. enginn eftir peningum í kvikmyndamenn, þó ekkert komi út úr því. Egill í Krók fékk sér gyltu eitt sinn og fór með hana heim. Sagði að hún gæfi af sér eins og 60 ær. Eitthvað er verðmætið minna núna.

Svo er til dæmis þjóðlendumálið. Það er verið að atast í því að aðeins 4% af þjóðinni megi ekki eiga þennan part af landinu. En það er ekkert sagt við því að 1% af þjóðinni eigi megnið af peningunum.

Dýralæknir smalar  (mynd úr Litla Bergþór)

Dýralæknir smalar
(mynd úr Litla Bergþór)

Gunnlaugur lítur út um stofugluggann á blómlegan trjágarðinn fyrir utan, - sem vissulega skyggir á útsýnið út yfir Hvítá. - „Kristinn heitinn í Gölt sagði að það hefðu gengið 3 plágur yfir sveitirnar, sú fyrsta var fiskeldið, önnur tófan og sú þriðja skógræktin og hún væri verst og ekki búið að bíta úr nálinni með hana enn!" En auðvitað gerir skógur nú heilmikið skjól og er sumstaðar til prýði.

Nú, það er eins með tungumálið, allt gert til að eyða því. Nú mega menn vera þágufallssjúkir ef þeir vilja. Stefán Jónsson fréttamaður sagði einhverntíma að það væri búið að leggja niður viðtengingarhátt, miðmynd og afturbeygða fornafnið.
Þegar Heimir Steinsson fór í Útvarpið sagði ég honum að þegar ég hætti sem dýralæknir, ætlaði ég að ráða mig hjá honum til að leiðrétta ambögur í útvarpinu. „Þá hefðir þú nóg að gera", varð honum að orði. — En það verður víst ekki úr því að ég lendi þar. Já, það breytist allt og flest til bölvunar. Eða eins og Grasa-Gudda sagði: "Það skammóðar öllu afturábak!" Til dæmis er síminn orðinn sjálfvirkur. Áður græjuðu góðir símstöðvarstjórar, eins og Garðar í Aratungu það alltaf að ná í dýralækni. Og ef það var ófærð þurfti bara að taka upp tólið til að vita hvernig færðin væri, það voru alltaf einhverjir á línunni! En að öllu gamni slepptu þá hafa þetta verið miklir breytingatímar og ég tel það mikið lán að ná í þetta tímabil.

Hafa orðið miklar breytingar á aðferðum við dýralækningar á þessum tíma?

Ég fór á norrænt dýralæknaþing í Osló, meðan þau voru ennþá haldin, 1992 held ég að það hafi verið. Þar stóð einn kollegi minn upp og sagði að þrennt hafi breyst til batnaðar frá því að hann byrjaði: Í fyrsta lagi gúmmíhanskinn, í öðru lagi nagladekkin og í þriðja lagi Rompunið (deyfilyf.) Ég held það sé að mörgu leiti rétt.

En tæki og tól?

Æ, það er allt svipað. Gamall kennari minn sagði að bestu tækin væru fimir fingur dýralæknisins. Ætli það sé ekki rétt. Starfið hefur ekki breyst svo mikið. Áður var farið bæ frá bæ og sett í eina kú, nú er farið og kannski sett í 3-4 á sama bænum.

Hvað finnst þér um stækkun búanna, þessa svokölluðu hagræðingu?

Ætli það verði ekki að vera. Ég er hrifinn af þessum mjaltaþjónum. Hefði ekki trúað því fyrr en ég sá það, hvað þeir virka vel. Þetta er allavega gott meðan ekki bilar. Annars er hagræðing leiðinda uppákoma. Menn tapa alltaf á því að lokum. Allavega eru fleiri sem tapa en græða. Ég get sagt þér hvað er nýjast í hagræðingunni. Það á að leggja niður 10 sláturhús á landsbyggðinni, það kostar svona 2-300 milljónir. Svo á að slá lán til að kaupa slatta af stórum gripaflutningabílum, 400 kinda bílum segja þeir, til að keyra féð landshorna á milli. Þessir bílar yrðu notaðir 50 daga á ári og látnir standa restina af árinu undir húsvegg, og svo hlýtur að þurfa að borga starfsfólkinu, sem áður vann í sláturhúsunum atvinnuleysisbætur! Þetta er nútíma hagræðing!
Það sagði mér Guðmundur Kristinsson, sem fór í reiðhjólaferðalag um Evrópu, og vann þá nokkra mánuði á dönskum bændabýlum og aftur í Þýskalandi, - að þar hefðu menn að meðaltali 200 kýr og framleiddu mjólk fyrir 24 kr/lítrann og rétt skrimtu af því.
Það er eins í sauðfjárræktinni. Það hefur verið farið illa með sauðfjárbændur. Þeim hefur verið sagt að stækka búin og hagræða. Fjölga og fjölga upp í 600 fjár. En ef menn hafa 600 fjár, þá eru þeir með 1500 fjár af fjalli og hvar á að hafa það? Það eru ekki nema 2-3 jarðir á landinu, sem eru nógu landmiklar til að bera það. Tilfellið er, að það hefur aldrei verið hægt að lifa af sauðfjárrækt á Íslandi.

Það var einhverju sinni bóndi á Rauðnefsstað undir Heklu. Eina nóttina dreymdi hann að hann taldi fé sitt og var kominn upp í 6 stór hunduð. Þá hljóp sauðurinn af, - þ.e. hljóp svo hratt, að hann gat ekki talið lengur. - Þegar hann vaknaði sagði hann: "Nú er allur sauður feigur, ellegar ég, nema hvorutveggja sé." Og það gekk eftir, um veturinn féll allt féð.

Er eitthvað fleira, sem þú vilt segja um starfið? 

Ég ætti kannski að segja eitthvað frá Heklugosinu 1970. Ég skrifaði heilmikla skýrslu um áhrif gossins á búfénað fyrir Pál A. Pálsson yfirdýralækni, en því miður á ég ekki afrit af henni, en hún hlýtur að vera til einhversstaðar hjá embættinu. Gosið hófst í byrjun sauðburðar, 5. maí, og það fór fljótlega að bera á því að ærnar sem voru úti fengu doða. Það vissi enginn hvað var að, en seinna fannst það út að það var út af flúoreitrun. Það uppgötvaðist þó fljótt að kalkið dugði til að hressa þær við, en svo þraut kalkið. - Það voru viss svæði sem lentu verst í þessu, efti hluti Tungnanna og eitthvað ofantil í Hrunamannahrepp. Allar skepnur af þessum svæðum voru fluttar á öskulaus svæði. — Hrafninn hafði samt vit á að flytja sig sjálfur. Hann var vanur að verpa í gilinu í Austurhlíð, en mér er sagt að hann hafi flutt sig vestur í Miðhúsaland þetta vor, löngu fyrir gos, og verpt þar.

Gunnlaugur ásamt Corinnu, dýralæknanema frá Þýskalandi  (mynd úr Litla Bergþór)

Gunnlaugur ásamt Corinnu, dýralæknanema frá Þýskalandi
(mynd úr Litla Bergþór)

Það er kannski rétt að koma líka inn á það, að það hefur verið dálítið af fólki hjá mér í verklegu námi, aðallega Þjóðverjar, en líka fólk frá öðrum löndum. Það fjölgar í skólunum og fækkar skepnum. Í Þýskalandi er í reglugerð að nemendur í dýralækningum verði að vera í verknámi og þurfa þeir að vera í 6 vikur í miðju námi og í 3 mánuði áður en þeir fara í síðustu prófin. Þetta hefur upp til hópa verið indælis fólk og ég held að ég hafi ekki verið feginn nema einu sinni þegar nemi fór frá mér, og það er vel sloppið.

Sendiherra Þýskalands sæmir Gunnlaug orðunni góðu, sumarið 1992. (mynd úr Litla Bergþór)

Sendiherra Þýskalands sæmir Gunnlaug orðunni góðu, sumarið 1992. (mynd úr Litla Bergþór)

Ég hef verið að lesa eftirmæli eftir karlana, sem voru að kenna mér og þar er alltaf tekið fram, ef þeir hafa gert eitthvað gott, að þeir hafi fengið heiðurskross frá ríkinu. (Das Verdienst-Kreutz 1. Klasse). Og svona kross hef ég fengið fyrir það að taka þýska dýralæknanema í verknám. Ég verð nú bara að sýna þér hann, segir Gunnlaugur og sækir kassa og þar í er rauður kross með þýska skjaldarmerkinu og skjal undirritað af forseta Sambandslýðveldisins Þýskalands, von Weizsäcker.
- Það var einhverntíma heilmikil fín móttaka í Borgarleikhúsinu fyrir þýska forsetann, þar sem okkur var boðið. Weizsäcker hélt þar tölu og sagðist hafa frétt að yngsti krossberinn væri staddur þarna. Síðan var ég kallaður upp og teymdur í átt að forsetanum. Það þótti heilmikill heiður að fá að tala við forsetann. Það hafði verið sýndur þýskur ballett þarna og frekar en segja ekki neitt sagði ég að mér hefði þótt gaman að ballettinum. Weizsäcker, sem verið hafði áður borgarstjóri í Berlín, sagði að það væru 3 ballettar í Berlín, en bara til peningar fyrir einn. Og þá sá ég að vandamálin voru svipuð í Súdan og Grímsnesinu. Þetta ferðalag til Íslands hafði verið einhverskonar styrkur til þessa balletts, sem þarna sýndi. Svo spjölluðum við eitthvað meira saman og ekki meira um það. En ég þarf allavega ekki að skila þessum krossi eftir andlátið, eins og þeir sem fá Fálkaorðuna!

Önnur áhugamál, eru þau einhver?

Ég fer á hestbak, helst það. Og svo höfum við farið svolítið í ferðalög og komið á nær alla byggða staði, nema Bolungavík og Rauðasand. En Renata var nú búin að segja eitthvað um það.

Kanntu ekki einhverjar skemmtilegar sögur úr starfinu?

Gunnlaugur með barnabarnið Eygló Hákonardóttur 10 daga gamla og viðurkenningarpeninga, sem hann fékk í norrœnni sláttukeppni í Noregi í ágúst 2001.  (mynd úr Litla Bergþór)

Gunnlaugur með barnabarnið Eygló Hákonardóttur 10 daga gamla og viðurkenningarpeninga, sem hann fékk í norrœnni sláttukeppni í Noregi í ágúst 2001.
(mynd úr Litla Bergþór)

Það held ég ekki, þetta er svo langur tími og rennur allt saman. Dettur jafnharðan úr manni. — Ég get þó sagt þér þegar Kampholts-Móri kom einu sinni í bílinn hjá mér. Við Renata vorum boðin í kvöldverð á Eyrabakka, og þá var hringt frá Kálfhóli út af kú. Ég fór því einsamall upp Flóann og upp á Skeið. Það var leiðindafæri og þegar ég kem á móts við Bitru tek ég allt í einu eftir því að það blikka bílljós fyrir aftan mig — að ég held, - og ég fer út í kant og ætla að hleypa bílnum framúr. En hann vildi ekki framúr. Þetta endurtekur sig nokkrum sinnum, þangað til ég áttaði mig á því að það hlyti að vera Kampholts-Móri, sem sat í aftursætinu og blikkaði vasaljósi í baksýnisspegilinn! Eg var vanur að vera með vasaljós í aftursætinu og hann hlýtur að hafa fundið það skömmin! Eftir að ég áttaði mig á þessu, blikkaði aldrei.

Og svo er það sagan um mannalækninn og dýralækninn, hefur þú heyrt hana? Þeir voru að þrátta um það hvort væri nú meiri vandi að vera manna- eða dýralæknir. Dýralæknirinn sagði að það væri ekki mikill vandi að vera mannalæknir, maður spyrði bara sjúklinginn hvað væri að. Mannalæknirinn sagði þá að ekki væri meiri vandi að vera dýralæknir, því ef ekki tækist að lækna væri bara að senda gripinn í sláturhúsið. Svo veiktist dýralæknirinn, var með óráði, jarmaði bara og baulaði. Mannalæknirinn leit á sjúklinginn, skrifaði lyfseðil og rétti frúnni með þeim orðum, að ef þetta dygði ekki, skyldi hún bara senda hann í sláturhúsið!

Nú styttist í sjötugsafmælið, hefur þú hugleitt hvað þú ætlar að gera eftir sjötugt?

Ætli ég haldi ekki bara áfram meðan ég nenni og get. Mér finnst ég vera nokkuð heilsugóður enn og þakka ég það einkum tvennu; að ég hef fengið hafragraut og lýsi á morgnanna síðan ég man eftir mér og svo hinu að ég geng alltaf á gúmmístígvélum. Í þeim hefur maður besta jarðsambandið! - Og svo er ég ekki búinn að finna neitt annað, fyrst það fór svona með vinnuna hjá honum Sr. Heimi í Útvarpinu!

Það mætti bæta því við að okkur hefur liðið vel hér í Laugarási. Haft frábæra nágranna, og hvað viltu það meira?

Blaðamaður er nokkuð viss um að það eru margir bændur, sem verða fegnir að heyra að Gunnlaugur er ekki að yfirgefa okkur í bráð. Og með þá vissu í farteskinu þakkar blaðamaður Litla-Bergþórs kærlega fyrir sig og kveður þau heiðurshjón í Brekkugerði.

Geirþrúður Sighvatsdóttir skráði.

uppf. 09.2018