Laugarás 3 / Helgahús 1949

Helgahús/Laugarás I og byggingar sem því tilheyrðu 1965 (mynd: Ingibjörg Bjarnadóttir)

Þetta hús gekk ávallt undir nafninu Helgahús meðal Laugarásbúa, en í fasteignaskrá heitir íbúðarhúsið nú Laugarás 3.
Laugarásjörðin varð læknissetur 1923. Allt til 1946 voru læknarnir með búskap á jörðinni, sá síðasti var Ólafur H. Einarsson, sem var læknir frá 1932 - 1946. Núverandi íbúðarhús var byggt 1949.

1946 - 1970 Helgi Indriðason (f. 30.01.1914, d.20.01.1995) og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir (f. 02.04.1913, d. 17.04.1993) (Gauja). Þegar þau fluttu í Laugarás og tóku við búskapnum bjuggu þau í kjallara læknishússins, en þegar ljóst var að Knútur læknir þurfti á honum að halda, byggði Helgi nýtt íbúðarhús og þangað fluttu þau Guðný 1949.

F.v. Birgir Stefánsson, Guðný Guðmundsdóttir, Gróa Kristín Helgadóttir, Helgi Indriðason, Kristinn Arnar Jóhannesson, en hann dvaldi mörg sumur hjá Helga og Gauju. (Myndin tekin um 1960, líklega af Matthías Frímannssyni).

Helgi var bróðir Guðmundar Indriðasonar á Lindarbrekku, frá Ásatúni í Hrunamannahreppi. Guðný var systir Jóns Vídalín Guðmundssonar sem bjó á Sólveigarstöðum frá 1953 - 1967. Jónína Jónsdóttir, síðar á Lindarbrekku, var í kaupavinnu hjá Helga um það leyti sem húsið var byggt. Fjósið og hlaðan sem nú standa, ásamt íbúðarhúsinu voru byggð á tíma Helga og Gauju undir lok 6. áratugarins.

Þau hjón eignuðust ekki börn, en fóstursonur þeirra var Birgir Stefánsson (11.07.1948), en hann býr nú í Reykjavík og kjördóttir þeirra var Gróa Kristín (f. 02.01.1952). Hún býr í Reykjavík.

Helgi og Gauja brugðu búi, aðallega vegna heilsuleysis Helga, en einnig vegna þess að hefðbundinn búskapur fór ekki sérlega vel með ört fjölgandi garðyrkjubýlunum. Búskapur lagðist af í Laugarási þegar þau fluttu til Reykjavíkur. Þar starfaði Helgi í nokkur ár til viðbótar.  Í sumarleyfum dvaldi fjölskyldan oft í sumarbústaðnum litla á Sigurðarstöðum.

Íbúðarhúsið í Laugarási hefur verð leigt ýmsum eða fylgt embætti hitaveitustjóra frá því búskapur lagðist af.
 

1970 - 1975 Sverrir Ragnarsson og Karitas S. Melstað (Ösp)

1975 - 1980 Pétur Guðmundsson og Svandís Ottósdóttir (Austurbyggð C/24). Pétur var ráðinn til að vera umsjónarmaður með heitaveitunni. Þau byggðu sér hús þar sem kallað er Austurbyggð C og fluttu þangað.

Sveinn og Ásta Rut

Sveinn og Ásta Rut

1980 - 1990 Benedikt Skúlason og Kristín Sigurðardóttir (Kirkjuholt). Benedikt tók við hitaveitustjórastarfinu af Pétri og einnig íbúðarhúsinu. Fjós og hlaða gegndu hlutverki n.k. vélamiðstöðvar hitaveitunnar. Þegar Benedikt og Kristín fluttu í nýbyggt hús í Kirkjuholti var skilið á milli íbúðarhúss og annarra bygginga, enda sá Benedikt áfram um hitaveitumálin.

Pétur og Kolbrún Ósk

Pétur og Kolbrún Ósk

1990 - 2004 Ásta Rut Sigurðardóttir frá Vatnsleysu (f.06.05.1966), systir Kristínar, og Sveinn Kristinsson (09.05.1964). Þau fluttu síðan í hús sitt Þöll í Reykholti. Þau eignuðust 3 börn sem heita: Kristinn Fannar (f. 22.07.1986), Guðrún Linda (f. 21.07.1991) og Sigurður Snær (f. 05.10.1996)

2004 - Pétur Sigmarsson (f. 16.12.1979)(Sigmarshús) og Kolbrún Ósk Sigtryggsdóttir (f. 05.05.1981).
 

Land: 5200m²
Íbúðarhús 1949: 152m²
Vélageymsla/iðnaðarhúsnæði 1960 og 1974: 270m²

uppf. 11.2018