Þorrablót Skálholtssóknar 2003

Þorrablótsnefnd 2003: f.v. Elinborg, Jakob, Sigurlaug (Laila), Þórður og Hólmfríður.

Þorrablótsnefnd 2003: f.v. Elinborg, Jakob, Sigurlaug (Laila), Þórður og Hólmfríður.

Í þorrablótsnefnd 2003 voru þessi:

Elinborg Sigurðardóttir Iðu, formaður,
Jakob Narfi Hjaltason Lyngbrekku,
Sigurlaug Angantýsdóttir Heiðmörk,
Þórður G Halldórsson Akri og
Hólfríður Bjarnadóttir Skálholti.
Hólmfríður Ingólfsdóttir Brennigerði kom inn sem varamaður nöfnu sinnar meðan meðan sú leiðsagði ferðamenn erlendis.

Nefndin hittist heldur betur snemma í fyrsta skipti, eða þann 24. september, á heimili formanns. Þar var farið yfir stöðuna og rifjað upp hvernig þorrablótin hafa verið gegnum tíðina.

Úr fundargerð 2003. Elinborg Sigurðardóttir ritaði.

Dagsetning blótsins var ákveðin 24. janúar og hljómsveitin Upplyfting fengin til að leika fyrir dansi fyrir kr. 160.000. Aratunga var bókuð og kostaði kr. 100.000. Miðinn kostaði kr. 2000 og innifalið í því verði var áletrað staup og drykkur í það (snafs).
Aldurstakmark var ákveðið 18 ár.

Boðað var til félagsvistar 3. nóvember kl. 15.30 í Skálholtsskóla til að ýta undirbúningi úr vör og þangað komu 34 spilamanneskjur.

Svo tók nefndin sér gott hlé frá fundum þar til þann 3. janúar.

Þarna voru reifaðar hugmyndir að skemmtiatriðum og ákveðið að hringja boð um sóknina um hugstormunarfund í Skálholtsskóla kl 16.30 daginn eftir.
Blátt þema skyldi vera, vegna nafns á nýju sveitarfélagi, Bláskógabyggð og að hugsa um nýbúa.

Ákveðið að prenta 280 miða.

Á fundi þann 4. janúar í Skálholtsskóla var gengið frá því að Ingólfur og Sigrún á Engi myndu flytja minni kvenna og karla.
Fram kom, að pöntuð hefðu verið staup með áletruninni: “Þorrablót 2003 Skálholtssókn”. Í þau yrði síðan borinn blár drykkur.

Til hugstormunar komu: Karólína Gunnarsdóttir, Víglundur Þorsteinsson Höfða, Svava Theodórsdóttir Höfða, Guðmundur og Jóna á Lindarbrekku, Benedikt Skúlason Kirkjuholti, Jóhann B. Óskarsson Ásmýri, Ellisif og Loftur á Helgastöðum.

Svo var hugstormað og síðan flokkað og loks fólki skipt niður til að útfæra fyrir kvöldið eftir. Þá kom saman að mestu sami hópur en við höfðu bæst Guttormur í Skálholti, Magnúsi í Hveratúni og Guðmundur á Iðu.

Farið yfir hugmyndir, fólk fór í hópa að semja. Létt yfir fólki og mikið hlegið. Áfram var svo haldið þann 7. janúar í Skálholtsskóla. Þar var enn sami hópur að mestu, en við höfðu þó bæst Loftur Ingólfsson, Guðrún Ólafsdóttir og Aðalheiður Helgadóttir.

Hér var allt komið áfullt og fundað 8. janúar á Iðu þar sem farið var yfir texta og efnið slípað til. Elinborg og Þórður tóku að sér að ganga betur frá og settu síðan í tölvu daginn eftir.

Næstu daga var lesið saman og leikgert það efni sem komið var og 12. jan. var gengið endanlega frá handritinu. Í framhaldinu var svo bara æft í gríð og erg. Hilmar Örn kom til skjalanna til að sjá um tónlistaratriðin.

19. janúar var hópurinn í Aratungu, þar sem atriðin voru æfð með tónlist og reifaðar hugmyndir að búningum og leiksviði. Karólína og Ellisif sáu um leikmyndina ásamt smiðum í hópnum.

Magnús í Hveratúni tók að sér að sjá um það sem að tölvumálum laut og Baldvin í Brennigerði sá um lýsinguna.

Miðar voru svo seldir í Aratungu 20. og 21. janúar og Hólmfríður Ingólfsdóttir og Sigurlaug Sigurmundsdóttir sáu um það verk. Miðarnir seldust upp.
Á kvöldin var æft, en lokaæfing fór fram í Aratungu 23. janúar.
Nemendum í 10. bekk Reykholtsskóla var boðið, ásamt fjölskyldum þátttakenda, eldri borgurum og íbúum Skálholtssóknar sem hugðust ekki fara á blótið.

Sólrún í Ásholti, Kristín í Kirkjuholti og Alice á Lyngbrekku sáu um að ljúka við að dúka borðin á föstudeginum.

Þorrablótsdagurinn 24. janúar – bóndadagur.

„Keyptur þorramatur fyrir hljómsveitina. Nefndin og undirbúningshópurinn hittust í Aratungu kl. 19 til að blanda drykkinn og stilla upp staupunum. Húsið var opnað kl. 20 og blótið sett kl. 21. með ræðu formanns.

Glæsilegt var að sjá einkennisklætt nefndarfólk með bláar plastslaufur í bláum skóm með bláa hanska bera fram bláu drykkina, því þetta speglaðist svo vel í bjarmanum frá kertaljósunum í salnum.

Skemmtiatriðin runnu mjög vel og hittu vel í mark. Eftir þau var borðunum úr salnum raðað upp á sviðið, en hljómsveitin spilaði á hliðarpallinum.

Góð stemmning var á ballinu og öll skemmtunin fór vel fram. Henni lauk kl 03“.

25. jan hittist nefndin eftir hádegi til að taka saman leikmuni og ganga frá.

Samtals fengu 27 aðilar frímiða fyrir að taka þátt í skemmtiatriðum og undirbúningi blótsins.

Svo varð það ekki fyrr en 12. október, 2006 sem nefndin hittist til að ljúka störfum.
Dregist hafði að funda og hagnaði ekki verið ráðstafað, en hann var orðinn þegar þarna var komið kr. 167.287. Ákveðið að þessi hagnaður skyldi sameinast hagnaði af næsta blóti.

Hugmyndir sem nefndar voru um það sem styrkja mætti:
a. Áhorfendapallar í íþrótthúsið
b. leiktæki á skólalóðina f. yngri börnin
c. tjöld á og fyrir sviðið í Aratungu
d. hljóðkerfi fyrir stórar jarðarfarir í Skálholtskirkju
d. skábraut með handriði fyrir fatlaða og aldraða í sundlaugina
e. leiktæki og aðbúnaður á leikvöllinn í Laugarási.

Svo var nefnd valin til að sjá um þorrablótið 2007.


Sýnishorn úr dagskrá 2003

Fyrr og nú
(Aðalheiður kemur syngjandi inn og Hilmar spilar undir)
Lag: Grænlandsvísur (Þótt konum sínum karlar hafi gaman að..)

Hér áður fyrr var öðruvísi‘ í sveitunum,
allavega í göngunum og leitunum.
Menn rúðu sínar kindur
og ráku þær á fjall
og réttaböllin voru alveg meiriháttar svall.
En nú er all með öðrum brag
á öllum hlutum verra lag,
í fjáhúsum með grindunum
það fækkar bara kindunum.
Í hlöðunni menn hættir eru syndunum.

Í gamla daga gaman var í fjósunum,
þótt grútarlampar nægðu fyrir ljósunum.
Menn handmjólkuðu kýrnar
og struku júgrin stinn
og stoltir lögðu nytina í mjólkurbúið inn.
En nú er kominn kvóti á
og kýrnar varla tutla má,
enginn étur ekta smjer
en undanrennan þóknar mér.
Sú úrkynjun nú alveg gengur fram af mér.

Þá ræktuðum við melana og móana
og margir skurðir þurrkuðu upp móana.
Þá stækkuðu sko túnin
og taðan var nú góð,
út á girðingar og grænfóður var greitt með digrum sjóð.
En nú er allt í arfa og skít
og árans sinan einskis nýt.
Menn halda undir hökurnar
og hugsa eftir andvökurnar:
Máske finn ég markað fyrir þökurnar.

Fyrr var meiri menningin á bæjunum
þótt minna væri til af öllum græjunum.
Sumir lásu kvæði
og sumir gripu spil,
og sumir gerðu hitt og svona urðu börnin til.
Nú fá menn hvergi frið og ró
en flestir glápa‘ á vídeó.
Það sýnist orðin vonin veik
að verði barni lyft á kreik
því enginn hefur orku fyrir ástarleik.








Formaður byggðaráðs
lag: Riddari götunnar

Rennur af stað ungi formaður
gullið það þyrlast um slóð.
Hondan hans nýja er fákurinn
Þ-listinn glitrar sem glóð.

Tryllir og tætir upp skrifborðið
titrar og skelfur allt hér.
Rökfærslu loftið þá vitið þið
er formaður byggðaráðs fer.

Við höfum alltaf verið
veik fyrir svona strák,
sem geysist um á mótorfák
og hræðist ekki Svein.

Aftan á hjóli‘ ‚ans er flokkurinn
sá sem hann elskar í dag.
Sýna þau hvert öðru blíðuhót
og svifa‘ inn í sameininguna.

Við höfum alltaf verið ...

Biskupstungnalagið

Ég Biskupstungur kveð,
blessuð þín minning,
skal rækta bláu trén
og a-afleggja gamla siði í sveit.

Sameina mun ég þig,
meira‘ en ég vildi
Ég vil ei svíkja þig
syrgjandi í nýrri sveit.

Föl ertu nú að sjá,
veit ei hver fjöllin mín á,
hvað verður um perlurnar þá,
Geysi, Gullfoss og perlurnar, já.

Tel ég mig Þingvelling,
eða kannski Laugdæling?
Nei ég vil freka halda því
að búa Tungunum í,
búa Tungunum í. 






Uppfært 01/2020