LAUGARGERÐI 1958

Hjalti Jakobsson og Fríður Pétursdóttir

Hjalti Ólafur Elías Jakobsson (f.15.03.1929, d.18.06.1992) og Fríður Esther Pétursdóttir (f.21.03.1935, d. 17.10.2020) fluttu í Biskupstungur úr Mosfellssveit í janúar 1954 til starfa við garðyrkjustöð í Reykholti. Þar bjuggu þau fyrst í litlum kofa í Gufuhlíð, en fluttu síðan í Stórafljót. 1957 fluttu þau í Laugarás, stofnuðu Laugargerði og bjuggu fyrstu árin í Lauftúni (Einarshúsi/ Silfurhúsinu). Þá voru börnin orðin 3 og fljótlega bættust við tvö til viðbótar og því var orðið ansi þröngt um fjölskylduna í 45 m² húsinu í Lauftúni.

Í lok árs 1965 fluttu þau í nýbyggt íbúðarhús, vestan Skálholtsvegar í Kirkjuholti. Ingólfur Jóhannsson á Iðu sá um húsbygginguna.

Reynir Ásberg Níelsson

Reynir Ásberg Níelsson

Land Laugargerðis er beggja vegna Skálholtsvegar og á þeim hluta sem liggur að landi Hveratúns, reistu Hjalti og Fríður garðyrkjustöð sína. Hjalti lést 1992, en Fríður hefur búið áfram í Laugargerði, fyrst ein, en frá aldamótum ásamt Reyni Ásberg Níelssyni (f. 26.04.1931).

Anna Svava og Úlfar Örn (mynd af fb.)

Fríður og Reynir seldu Laugargerði, þann hluta sem er vestan Skálholtsvegar, árið 2015 og fluttu á Selfoss. Kaupandi var Jón A. Ágústsson (Lyngás).  Hann, eða hans fólk bjó þó aldrei í húsinu. Íbúðarhúsið og aðstöðuhús/bílgeymsla voru í kjölfarið mikið endurnýjuð og þar kom að Anna Svava Sverrisdóttir (f. 11.02.1962) og Úlfar Örn Valdemarsson (f. 26.11.1952) keyptu Laugargerði. Úlfar Örn er myndlistarmaður.

Í júní 2022 fengu þau samþykkta breytingu á nafni þessa hluta Laugargerðis, í Bjarmaland.

Viðtal við Fríði frá árinu 2013

Fríður og Hjalti eignuðust 6 börn, en þau eru: Pétur Ármann (f. 22.11.1953) býr á Selfossi, Erlingur Hreinn (f. 22.07.1955) býr í Reykjavík, en byggði og á hús í Vesturbyggð 3, Hafsteinn Rúnar (f. 18.02.1957) býr á Selfossi, Jakob Narfi (02.02.1960) býr í Lyngbrekku/Vesturbyggð 6, Guðbjörg Elín (13.12.1964) býr á Selfossi og Marta Esther (f. 08.08.1968) býr á Kópsvatni í Hrunamannahreppi.

Hjörtur Bragason og Sigríður Ingólfsdóttir

Fljótlega eftir að Hjalti féll frá, var garðyrkjuhlutinn eða stöðin skilin frá og tók Jakob, sonur Hjalta og Fríðar hann að sér. Árið 2003 var fullreynt með að þessi rekstur gengi. Einhverju síðar hóf Ragnar Sverrisson (Traðir) rekstur á stöðinni, en það fór á sama veg. Reksturinn lá síðan niðri um skeið.

Það var svo 2015 sem Bjarni Hjörtur Bragason og Sigríður Ingólfsdóttir (Bæjarholt) keyptu þann hluta Laugargerðis sem stendur austan Skálholtsvegar. Þau fóru í ýmsar framkvæmdir og ráku sumarið 2017 kaffihús í húsinu sem gegnt hafði hlutverki pökkunar- eða aðstöðuhúss áður.  Árið 2017 seldu þau sinn hluta Laugargerðis og síðan hefur fátt gerst þar, utan að húsakostur hefur verið að grotna niður. 

Land: 14400m²
Íbúðarhús 1965: 197m²
Garðyrkjuhluti sem tilheyrir ekki lengur íbúum Laugargerðis:
Land: 6100m²
Aðstöðuhús um 180 fm
Gróðurhús um 1800 fm

uppf. 07.2022